2. SETNINGARLEG EINKENNI ORÐFLOKKA OG ORÐARÖÐ

Størrelse: px
Starte visningen fra side:

Download "2. SETNINGARLEG EINKENNI ORÐFLOKKA OG ORÐARÖÐ"

Transkript

1 2. SETNINGARLEG EINKENNI ORÐFLOKKA OG ORÐARÖÐ 2.0 Um einkenni orðflokka Í öllum tungumálum skiptast orðin í flokka, orðflokka. Þegar um er að ræða beygingarmál eins og íslensku er gjarna sagt að einkenni orðflokka séu a.m.k. þrenns konar: (2-1) a. merkingarleg einkenni b. formleg einkenni (þ.e. beygingarleg og orðmyndunarleg) c. setningarleg einkenni Hér verður aðallega fjallað um setningarleg einkenni orða. Fyrst er þó gagnlegt að rifja aðeins upp hvað átt er við þegar talað er um þessi mismunandi einkenni. Í íslenskum kennslubókum er t.d. algengt að skipta orðum eitthvað á þessa leið í þrjá aðalflokka eftir beygingarlegum einkennum: (2-2) a. orð sem fallbeygjast eru fallorð b. orð sem tíðbeygjast eru sagnorð c. orð sem hvorki fallbeygjast né tíðbeygjast eru smáorð (eða óbeygjanleg orð) Fallorðin skiptast svo í ýmsa smærri flokka og smáorðin líka eins og fram kemur í næstu undirköflum. Orðmyndunarleg einkenni koma sjaldnar við sögu þegar rætt er um orðflokka vegna þess að yfirleitt er ekki hægt að benda á tiltekið orðmyndunarlegt einkenni sem auðkenni öll (eða flest) orð af tilteknum orðflokki á sambærilegan hátt við það að tíðbeyging er sameiginlegt einkenni allra sagnorða. Aftur á móti má oft benda á það að tiltekið orðmyndunarviðskeyti er fyrst og fremst notað til þess að mynda orð af ákveðnum orðflokki. Þannig er orðmyndunarviðskeytið - ar- notað til þess að mynda nafnorð af sögnum, sbr. baka bak-ar-i, telja telj ar-i o.s.frv. Byrjendum í málfræði er líka oft bent á það að nafnorð séu heiti á einhverju, t.d. lifandi verum, hlutm eða hugtökum (sbr. þetta heitir kjölur, þetta er barkalok...), lýsingarorð segi aftur á móti frá einkennum á lifandi verum, hlutum eða hugtökum (sbr. þetta er langur kjölur, þetta barkalok er lamað), en sagnir greini frá því sem gerist, er eða var (sbr. kjölurinn brotnaði, barkalokið lamaðist). Þetta eru allt tilraunir til að lýsa merkingarlegum einkennum þessara orðflokka. Setningarleg einkenni koma líka stundum við sögu í íslenskum málfræðibókum. Þegar sagt er að lýsingarorð geti staðið með nafnorði og þá oftast á undan því (hér er ekki verið að tala um sagnfyllingu, sbr. t.d hér á eftir) þá er það lýsing á setningarlegu einkenni lýsingarorða, sbr. rauð rós, skemmtilegur bakari. Þegar talað var um sjálfgefna orðaröð í innganginum hér fyrir framan var m.a. vísað til þess hvar sögnin eða sagnorðið stæði miðað við frumlag og andlag (sbr. skammstafanirnar FSA, FAS, SFA). Sagnorð eru sérstakur orðflokkur og þess vegna má segja að hér sé verið að tala um sérstök setningarleg einkenni þeirra í viðkomandi málum. (Orðin frumlag og andlag eru hins vegar ekki heiti á sérstökum orðflokkum, sbr. 5. kafla hér á eftir.) Eins og bent var á í upphafi skiptast orð í mismunandi flokka í öllum tungumálum. Þau skiptast hins vegar ekki eftir beygingum í öllum tungumálum af því að sum tungumál hafa engar

2 2 beygingar. Orðflokkar hafa aftur á móti tiltekin merkingarleg megineinkenni í öllum tungumálum. Þannig eru væntanlega til orð sem eru heiti á einhverju í öllum tungumálum (sbr. merkingarlega skilgreiningu nafnorða hér fyrir ofan) og sömuleiðis orð sem greina frá því sem gerist (sbr. merkingarlega skilgreiningu sagnorða). Orðflokkar hafa líka ákveðin setningarleg einkenni í öllum málum en þau geta verið dálítið mismunandi í smáatriðum vegna þess að gerð setningarliða og setninga lýtur ekki sömu lögmálum í öllum málum (sbr. t.d. það sem var sagt um orðaröð í inngangi). Málnotendur vita hver þessi einkenni eru þótt sú kunnátta sé ekki meðvituð. Ef þeir vissu það ekki myndu þeir kannski setja sagnir á þá staði í setningum (eða setningarliðum) þar sem nafnorð eiga heima eða reyna að nota nafnorð eins og þau væru lýsingarorð. Ómeðvituð þekking á þessum einkennum, t.d. þeim reglum sem gilda um það í hverju máli hvernig orðin raða sér saman í stærri heildir, er eitt af því sem kemur í veg fyrir að allt fari í graut þegar menn tala. Það er þekking á setningarlegum einkennum orða. Þegar við erum að læra erlent mál þarf oft að benda okkur á það að setningarleg einkenni orðanna í því máli eru kannski önnur en einkenni samsvarandi orðflokka í móðurmáli okkar. Í íslensku nútímamáli fara lýsingarorð t.d. oftast á undan því nafnorði sem þau standa með, eins og bent var á hér á undan. Í sumum tungumálum fara þau gjarna á eftir nafnorðinu sem þau eiga við. Það gildir t.d. um sum lýsingarorð í frönsku, sbr. un moulin rouge rauð mylla (orðrétt: ein mylla rauð ). Þessi lýsingarorð hafa þá önnur setningarleg einkenni en við erum vön og það þarf að benda íslenskum málanemum á þetta. Frönsk börn drekka þetta hins vegar í sig með móðurmjólkinni (eða rauðvíninu, vin rouge!) án þess að gera sér grein fyrir því. Í framhaldi af því sem nú var sagt ætti að vera ljóst að jafnan má líta á einkenni af þessu tagi frá tveim hliðum. Annars vegar getum við t.d. sagt að íslensk lýsingarorð hafi það setningarlega einkenni að geta staðið á undan nafnorðum. Hins vegar getum við sagt að íslenska hafi það einkenni, ef hún er borin saman við önnur mál, að þar standa (hliðstæð) lýsingarorð yfirleitt á undan því nafnorði sem þau eiga við. Í eftirfarandi köflum verður oft vakin athygli á þessum tveim sjónarhornum. Hér á eftir verður fjallað um einstaka orðflokka og megináherslan lögð á að gera grein fyrir setningarlegum einkennum þeirra af því að þetta er handbók um setningafræði. Þar verður gerður greinarmunur á setningarlegum auðkennum heilla orðflokka annars vegar og hins vegar því sem auðkennir ákveðna undirflokka. Einnig verður vikið að samspili setningarlegra, beygingarlegra og jafnvel merkingarlegra einkenna eftir því sem ástæða þykir til. Um merkingarflokka sagna og nafnliða er þó einkum fjallað í síðari köflum (sjá t.d. 6., 9., 10. og 11. kafla) Sagnorð Almenn einkenni sagnorða Eins og nefnt var hér á undan er tíðbeyging eitt megineinkenni sagnorða eða sagna. Þetta beygingarlega einkenni greinir sagnir frá öllum öðrum orðflokkum. En sagnir beygjast líka í persónu og tölu eins og kunnugt er. Til upprifjunar eru hér gefin nokkur dæmi um sagnbeygingu, enda mun samspil setningagerðar og sagnbeygingar koma talsvert við sögu í síðari köflum. Tekin eru dæmi um þrjá hefðbundna flokka sagna, veikar (eða reglulegar) sagnir, sterkar (eða óreglulegar) sagnir og svokallaðar núþálegar sagnir: (2-3) veik sögn sterk sögn núþáleg sögn

3 3 1.p.et.fh.nt. horf-i les mun 2. - horf-ir les-t mun-t 3. - horf-ir les mun 1.p.ft.fh.nt. horf-um les-um mun-um 2. - horf-ið les-ið mun-uð 3. - horf-a les-a mun-u 1.p.et.fh.þt. horf-ð-i las mun-d-i 2. - horf-ð-ir las-t mun-d-ir 3. - horf-ð-i las mun-d-i 1.p.ft.fh.þt. horf-ð-um lás-um mun-d-um 2. - horf-ð-uð lás-uð mun-d-uð 3. - horf-ð-u lás-u mun-d-u Hér er vert að taka eftir því að hægt er að greina þátíðarmerkið (tannhljóðsviðskeytið -ð-) frá persónuendingunum í reglulegu sögnunum (og reyndar líka núþálegu sögnunum) en þátíðin er táknuð með breyttum stofni (svokölluðum hljóðskiptum) í sterkum sögnum, eins og kunnugt er og sjá má af dæminu. Í dæmunum í (2-3) eru feitletruðu sagnirnar beygðar í tíð, persónu og tölu til upprifjunar: (2-3) a. Fulltrúarnir gengu á dyr. b. Fulltrúinn gekk á hurð. c. Samninganefndin mun koma til Reykjavíkur á morgun. d. Ég hafði aldrei hitt neinn frá Kolbeinsey. e. Við höfðum aldrei hitt neinn frá Kolbeinsey. f. Þið getið kannski reynt að hringja í farsímann hennar. g. Þú getur kannski reynt að hringja í farsímann hennar. Eins og lesendur sjá, og hafa áreiðanlega vitað fyrir, fer persóna og tala feitletruðu sagnanna í (2-3) eftir persónu og tölu frumlagsins. Í íslensku er nefnilega samræmi (e. agreement) milli persónu og tölu frumlags og persónu og tölu sagnar (þó ekki ef sögnin er ópersónuleg, sbr. t.d hér á eftir og einnig 15. kafla). Þetta má kalla eitt af setningarlegum einkennum íslenskra sagna þótt það varði samspil eða tengsl setningafræði og beygingafræði. Nú eru reyndar fleiri sagnir en þær feitletruðu í dæmunum í (2-3) en þær eru ekki persónubeygðar heldur í nafnhætti eða lýsingarhætti, þ.e. koma (nafnháttur), hitt (lýsingarháttur þátíðar), reynt (lýsingarháttur þátíðar), hringja (nafnháttur). Þessar sagnir væri auðvitað líka hægt að hafa persónubeygðar, sbr. dæmin í (2-4): (2-4) a. Samninganefndin kemur til Reykjavíkur á morgun. b. Ég hitti aldrei neinn frá Kolbeinsey. c. Þið reynið kannski að hringja í farsímann hennar. d. Þið hringið kannski í farsímann hennar. Hér sjáum við að um leið og sagnirnar eru persónubeygðar koma þær næstfremst í setningunni, eða í öðru sæti eins og það er kallað. Persónubeygða sögnin heldur líka yfirleitt þessari stöðu sinni þótt við settum eitthvert annað orð fremst í setninguna:

4 4 (2-5) a. Þá kemur samninganefndin til Reykjavíkur. b. Kannski hringir einhver í farsímann hennar. Við getum því sagt að það sé eitt setningarlegt einkenni íslenskra sagna að koma í öðru sæti í þegar þær eru persónubeygðar. Þetta gildir þó ekki um já/nei-spurningar né sérstaka frásagnarorðaröð (sbr. nánari umræðu síðar í þessum kafla sjá líka umræðu um ólíkar setningagerðir í 7. kafla og tilfærslu á sögnum í 14. kafla). Um leið er reglan um sögn í öðru sæti (so2-reglan) eitt af megineinkennum íslenskrar setningagerðar, en hún gildir reyndar líka í mörgum nágrannamálum okkar (þó ekki í ensku til dæmis). Þegar sagt er að so2-reglan gildi ekki í ensku er m.a. átt við það að í enskum staðhæfingarsetningum er sögnin ekki í öðru sæti ef einhver liður annar en frumlagið stendur fremst. Auk þess er kjörlendi ýmissa atviksorða á milli frumlags og sagnar í ensku þannig að sögnin verður þá í þriðja sæti. Að þessu leyti er enska til dæmis frábrugðin dönsku. Þetta má sjá með því að bera saman (i) og (ii): (i) a. He lived in London then. b. Then he lived in London. c. He often goes to the cinema. (ii) a. Han boede i København da.

5 5 b. Da boede han i København. c. *Han ofte går i biografen. Í a-setningunum er sögnin í öðru sæti í báðum málunum. Í b-setningunum hefur atviksorð (then, da þá ) verið sett í fyrsta sæti og þá verð ur sögnin boede bjó áfram í öðru sæti í dönsku en í ensku verður sögnin lived þá í þriðja sæti. Eins er algengt að ýmiss konar atviksorð fari á milli frumlags og sagnar í ensku, sbr. atviksorðið often í (ic), þannig að sögnin lendi í þriðja sæti, en samsvarandi röð er ótæk í dönsku eins og sýnt er með því að stjörnumerkja (iic). Þegar Íslendingur lærir ensku þarf hann að átta sig á því að reglur um orðaröð eru þar aðrar en í íslensku að því leyti sem hér var lýst. Um orðaröð í dönskum setningum af því tagi sem hér er á dagskrá gilda hins vegar sömu reglur og í íslensku svo það þurfa Íslendingar ekki að læra sérstaklega. Nánar verður fjallað um stöðu sagnar í íslensku og fleiri málum í 14. kafla og um samanburðu íslensku og annarra mála í 18. kafla. Við getum séð að um reglur stöðu sagnar innan setningar eru hluti af málkunnáttu okkar með því að skoða dæmi þar sem ókunnugleg orð koma fyrir, svo sem þessi: (2-6) a. Þeir hylda hvalinn. b. Dögg tögg rögg. c. Gró spjó. Í (2-6a) sjáum við strax að hylda hlýtur að vera sögn, jafnvel þótt orðið sé ókunnugt. Í fyrsta lagi er jafnan sögn í hverri setningu og hvorki þeir né hvalinn eru sagnir. Í öðru lagi höfum við á tilfinningunni (þótt við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því) að orðið í öðru sæti eigi að vera sögn, eins og áður var nefnt. Það passar líka ágætlega við form orðsins, nánar til tekið endinguna -a, því að frumlagið hlýtur hér að vera fornafn þriðju persónu fleirtölu, þeir, það tekur yfirleitt með sér sögn í þriðju persónu fleirtölu og þrið ja persóna fleirtölu endar yfirleitt á - a. Loks er hvalinn þolfall og það passar vel við það að það væri andlag sem sögnin hylda tæki með sér. Það er (ómeðvituð) vitneskja af þessu tagi sem gerir okkur kleift að fletta orðinu hylda upp í orðabók (við vitum nefnilega líka að 3.p.ft. af sögnum er jafnan eins og nafnhátturinn og við höfum lært að nafnháttur er uppflettimynd sagna í orðabókum). Í Íslenskri orðabók er sögnin hylda sögð merkja skera á hol; skera holdið af og það passar allt. Í dæminu sem nú var rakið gátum við líka stuðst við beygingarendingar og þekkingu okkar á íslenskum beygingum. Málið vandast kannski svolítið í (2-6b) af því að þar hafa orðin engar beygingarendingar og líta mjög svipað út. Þar er fyrsta orðið væntanlega kunnuglegt og það gæti annaðhvort verið nafnorðið dögg eða kannski sérnafnið Dögg. Séu bæði tögg og rögg ókunnugleg höfum við samt sterklega á tilfinningunni að það fyrra sé sögnin og segi þá kannski hvað Dögg gerði við rögg. Ef við prófum að fletta orðinu rögg upp í Íslenskri orðabók sjáum við að að það var til í fornu máli í merkingunni loðna eða ullarlagður til dæmis. Hins vegar gætum við átt í erfiðleikum með að finna uppflettimynd fyrir tögg þótt við höfum á tilfinningunni að þetta sé sögn og ætti þess vegna að enda á -a í nafnhætti. Sumar sagnir hafa nefnilega óreglulega (eða sterka) beygingu. Í fornu máli var sögnin tyggva ein af þeim og þátíðarmynd hennar var tögg. Þessi sögn heitir nú tyggja og beygist reglulega (eða veikt, þátíð tuggði). (2-6b) gæti því merkt Dögg tuggði ullarlagð, ef svo ólíklega vildi til að við rækjumst á þetta dæmi í fornlegum texta. Í báðum þeim dæmum sem við höfum nú verið að skoða höfum við haft stuðning af því að síðasta orðið lítur út eins og andlag og við vitum að sjálfgefin orðaröð í íslensku er FSA (frumlag sögn andlag), eins og rætt var um í inngangi. Sumar sagnir taka þó ekki með sér andlag, eða

6 6 þurfa þess ekki. Í dæmi (2-6c) eru þannig bara tvö orð. Samt mundi íslenskur unglingur strax finna á sér að það síðara er líklegast sögn, jafnvel þótt honum kynni að vera orðmyndin ókunnugleg. Það er vegna þess að hann hefur regluna um so2 á tilfinningunni. Hún er hluti af málkunnáttu hans, hversu slakur sem hann kann að vera talinn í námsgreininni íslensku eða móðurmáli í skóla. Það sem nú hefur verið rakið um setningarleg einkenni (persónubeygðra) sagna í íslensku á þó ekki við um allar setningagerðir. Í svokölluðum já/nei-spurningum (spurningum sem má svara með já eða nei) kemur persónubeygð sögn í fyrsta sæti í íslensku. Þannig má t.d. snúa dæmunum í (2-6) upp í beinar spurningar af þeirri gerð. (2-7) a. Hylda þeir hvalinn? b. Tögg Dögg rögg? c. Spjó Gró? Ef við rækjumst á þessi dæmi myndum við álykta (ómeðvitað) að fyrsta orðið væri sögn, a.m.k. ef ljóst væri að um spurningar væri að ræða, því að við höfum regluna um sögn í fyrsta sæti í spurningum líka á tilfinningunni. Hún er því líka hluti af setningarlegum einkennum (persónubeygðra) sagna. Hliðstæð regla gildir í þeim nágrannamálum okkar sem líka hafa so2 regluna í staðhæfingarsetningum (setningum sem eru staðhæfingar en ekki spurningar, sbr. t.d. 14. kafla hér á eftir).

7 7 Hér er enska aftur sér á báti ef miðað er við næstu nágranna. Þar er nefnilega ekki hægt að snúa staðhæfingu umsvifalaust í já/nei-spurningu með því að setja sögnina fremst, nema þá að um hjálparsögn sé að ræða. Í öðrum tilvikum þarf að nota sögnina do. Í dönsku gilda aftur á móti sams konar reglur og í íslensku að þessu leyti: (i) a. Sue has gone to the cinema. b. Has Sue gone to the cinema? c. Sue went to the cinema. d. *Went Sue to the cinema? e. Did Sue go to the cinema? (ii) a. Susanne er gået i biografen. b. Er Susanne gået i biografen? c. Susanne gik i biografen? d. Gik Susanne i biografen? Hér er hægt að snúa (ia) í beina spurningu með því að færa sögnina fremst, enda er þar um hjálparsögnina have að ræða. Aftur á móti er ekki hægt að búa til beina spurningu úr (ic) nema með því að bæta aukasögninni (eða leppsögninni) do við. Slíkar hömlur gilda ekki í dönsku frekar en íslensku, eins og sýnt er í (ii). Sjá nánari umræðu í Þá má nefna að persónubeygðar sagnir í íslensku geta staðið í fyrsta sæti í sérstökum frásagnarstíl í rituðu máli. Þetta er líka algengt í fornum textum og íslenskum þjóðsögum. Við getum auðveldlega búið til slíkar setningar úr fyrri dæmum sem við höfum verið að skoða:

8 8 (2-8) a. Hylda þeir nú hvalinn og reyndist hann óskemmdur. b. Spjó Gró þá ógurlega og leist þeim ekki á blikuna. Í (2-8) fer persónubeygða sögnin alls staðar á undan frumlagi sínu eins og menn sjá. Það er hins vegar engin málfræðileg þörf á því að hafa röðina með þessum hætti. Þetta sést ef við berum dæmin í (2-9) saman við (2-8): (2-9) a. Þeir hylda nú hvalinn og hann reyndist óskemmdur. b. Gró spjó þá ógurlega og þeim leist ekki á blikuna. Hér er eingöngu munur á stíl (sjá nánari umræðu í 14.2 og 18.4 hér á eftir). Enn má nefna að í boðháttarsetningum standa sagnir fremst: (2-10) a. Far þú og gjör slíkt hið sama. b. Gjör rétt, þol ei órétt! b. Skjóttu á markið, drengur! Þótt frumlag fari stundum á eftir boðháttarsögn í hátíðlegu tali eða sé alveg sleppt (sbr. (2-10a, b))) er þó algengast að því sé skeytt aftan á boðháttarsagnir í veikluðu formi, sbr. -tu í skjót-tu. Sögnin kemur hins vegar alltaf fremst hvort sem einhver merki eru um frumlagið eða ekki, eins og sjá má af dæmunum í (2-10). Til þessa höfum við eingöngu litið á setningarleg einkenni persónubeygðra sagna. Sagnir í svokölluðum fallháttum (t.d. nafnhætti, lýsingarhætti þátíðar) hafa aðra stöðu innan setningar. Ýmsar hjálparsagnir taka þessar sagnmyndir með sér og þá fara fallhættirnir á eftir persónubeygðu sögninni. Hins vegar geta ýmis atviksorð farið á milli hjálparsagnarinnar og aðalsagnarinnar í slíkum tilvikum: Dæmi um stöðu sagnar í fallhætti (feitletraðir): (2-11) a. Þær hafa keypt fyrirtækið. b. Þau munu aldrei gleyma föðurlandinu. Staða sagna í fallhætti kemur nánar við sögu í næsta undirkafla (sjá líka 3.6 hér á eftir). Í þýskum aðalsetningum fara sagnir í fallhætti á eftir persónubeygðri sögn eins og í íslensku en í aukasetningum er þessu öfugt farið: (i) a. Er hat das Buch gelesen. hann hefur bókina lesið

9 9 Hann hefur lesið bókina. b.... dass er das Buch gelesen hat. að hann bókina lesið hefur... að hann hefur lesið bókina. Í íslenskum miðaldatextum ( eldra nýmáli ) má stundum finna orðaröð sem minnir á (ib), sbr. þessi dæmi hjá Jakobi Jóh. Smára (1920:261, leturbr. bætt við hér): (ii) a. þar [= úr því að ] hann svo hastarlega heiman riðið hafi b. sú hríðarveðrátta, sem hann þar mætt hefði Nánar er fjallað um mun á orðaröð íslensks nútímamáls og eldra máls í 17. kafla Setningarlegir undirflokkar sagnorða Eins og kunnugt er skiptast sagnorð í undirflokka eftir beygingarlegum einkennum, t.d. því hvort beygingin er regluleg (veik) eða óregluleg (sterk). En sagnorð skiptast líka í undirflokka eftir setningarlegum einkennum. Þá má fyrst nefna að sumar sagnir eru ópersónulegar í þeim skilningi að þær taka ekki persónubeygingu vegna þess að þær hafa ekkert frumlag í nefnifalli sem sögnin getur lagað sig að. Þess í stað taka þær með sér aukafallsfrumlag (eða frumlagsígildi, sjá nánar 5.6) og standa alltaf í formi 3.p.et. hver sem persóna frumlagsins er: (2-12) a. Mig (þf.et.) dreymir (3.p.et.) heim um dimmar kaldar nætur. b. Þá (þf.ft.) dreymir (3.p.et.) illa ef þeir drekka of mikið rauðvín fyrir svefninn. c. Okkur (þgf.ft.) líkaði (3.p.et.) þetta vel. d. Jarðskjálftanna (ef.ft.) gætti (3.p.et.) mest á Dalvík. Eins og hér má sjá getur aukafallsfrumlag staðið í þolfalli, þágufalli eða eignarfalli. Eignarfallið er þó mjög sjaldgæft. Í sumum tilvikum er eðlilegra að tala um ópersónulega notkun sagnar en að segja að sögnin sjálf sé ópersónuleg þar sem sama sögnin getur ýmist tekið með sér nefnifallsfrumlag eða aukafallsfrumlag. Þetta skýrist betur ef litið er á nokkur dæmi um sagnir sem taka eða geta tekið með sér aukafallsfrumlag (nánar er fjallað um merkingarleg einkenni þessara sagna, eða ópersónulegrar notkunar þeirra, í 6. kafla): (2-13) Sagnir sem taka eða geta tekið með sér þolfallsfrumlag: a. risana dagaði uppi, dagana lengir, snjóa leysti, vindinn lægði, mig sakaði ekki b. bátana rak á land, mennina dreif að c. strákana hryllti við, mig furðar á þessu, þá langar í ís, þig varðar ekkert um það d. pólfarana kól á fingrum, mig kitlar svakalega, þig svengir ekki strax, Guðmund svimaði e. þig grunaði ekkert, þá óraði ekki fyrir þessu, mig rámar í þetta (2-14) Sagnir sem taka eða geta tekið með sér þágufallsfrumlag: a. umsóknum fjölgaði, eldingunni laust niður, flugvélinni seinkaði b. bátunum hvolfdi, snjónum kyngdi niður, brakinu skolaði á land c. mér barst þessi frétt, þeim áskotnaðist mikill heiður, Jóni tæmdist arfur d. henni blöskraði, þeim hitnaði í hamsi, mér rann reiðin, honum varð hverft við e. sjúklingunum batnaði, nemandanum fór fram, krökkunum kólnaði, þeim vex ekki skegg

10 10 f. öllum ber saman um það, Haraldi datt í hug, þeim kom til hugar, mér er spurn g. þeim búnaðist vel, skyttunum brást bogalistin, Jóni skrikaði fótur, Gunnari varð á í messunni h. mér ber að gera þetta, þér ferst, þeim er ekkert að vanbúnaði, honum er styrkur í því (2-15) Sagnir sem taka eða geta tekið með sér eignarfallsfrumlag: þess kennir víða, hans missir nú við, birtunnar nýtur lengur þessa dagana, þess þarf ekki Hér má vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi virðast dæmin með þágufallsfrumlagi vera flest og fjölbreyttust. Í öðru lagi fer fallorð í nefnifalli stundum á eftir sögninni í þágufallsdæmunum og einhverjum gæti dottið í hug að þar væri frumlagið komið. Í 5. kafla verða færð rök að því að svo sé ekki (sjá líka 15. kafla). Í þriðja lagi er allmikið um föst fylgiorð með þessum sögnum, jafnvel heil orðasambönd, einkum í þágufallsdæmunum. Þá er sjálf sögnin stundum merkingarlítil, t.d. vera eða verða (sbr. verða hverft/illt/bilt við, verða á í messunni, vera ekkert að vanbúnaði, vera styrkur/akkur í einhverju). Í fjórða lagi er hér nokkuð um sagnir sem einnig má nota persónulega, þ.e. með nefnifallsfrumlagi, sbr. eftirfarandi pör til dæmis (sjá nánar í 6. kafla): (2-16) a. við lengjum tímann daginn lengir, bændurnir leystu hestana snjóinn leysti, við lægðum öldurnar öldurnar lægði, gestgjafarnir drifu mennina í kaffi mennina dreif að, bændur ráku hestana í hús bátana rak á land, stelpurnar kitluðu mig mig kitlaði svakalega, þú grunaðir hann ekki um þetta þig grunaði ekkert b. við fjölguðum styrkjunum umsóknum fjölgaði, þeir seinkuðu ferðinni flugvélinni seinkaði, vindhviðurnar hvolfdu bátnum bátnum hvolfdi, við kyngdum þessu snjónum kyngdi niður, öldurnar skoluðu brakinu á land brakinu skolaði á land Í mörgum tilvikum má hins vegar segja að viðkomandi sögn sé ópersónuleg í eðli sínu, þ.e. aðeins notuð þannig. Í þeim skilningi er þá um að ræða tiltekinn flokk sagna sem hefur ákveðið setningarlegt einkenni. Eins og nánar verður lýst í 6. kafla eiga ópersónulegar sagnir það sameiginlegt frá merkingarlegu sjónarmiði að frumlag þeirra (þ.e. aukafallsfrumlagið) táknar aldrei geranda eða virkan þátttakanda í þeim verknaði sem sögnin greinir frá. Lesendur geta fullvissað sig um þetta með því að líta á dæmin í (2-13) (2-15) hér á undan. Sama á við um ópersónulega notkun sagna sem einnig er hægt að nota persónulega. Þetta sést vel ef litið er á pörin í (2-16). Þegar frumlagið er í nefnifalli á það yfirleitt við geranda, virkan aðila að verknaðinum (sbr. við lengjum..., bændurnir leystu..., gestgjafarnir drifu..., við fjölguðum..., þeir seinkuðu..., öldurnar skoluðu...) en þegar það er í þolfalli eða þágufalli er það óvirkt ef svo má segja (sbr. daginn lengir, snjóinn leysti, mennina dreif..., umsóknum fjölgaði..., flugvélinni seinkaði..., brakinu skolaði...). Önnur setningarleg flokkun sagna sem einnig hefur merkingarleg tengsl er flokkunin í áhrifssagnir og áhrifslausar sagnir. Í 6. kafla verður sýnt fram á að sögnum má skipta í merkingarflokka eftir því hvort sá verknaður (í víðum skilningi þess orðs) sem þær greina frá felur í sér þrjá þátttakendur, tvo, einn eða engan. Þetta skýrist best með dæmum:

11 11 (2-17) a. María gaf Jóni hest. b. Jón saknaði Maríu. c. Jón datt. d. Það rigndi. Hér má færa rök að því að í (2-17a) séu þrír aðilar að málinu: gefandinn, viðtakandinn og það sem gefið er. Við getum spurt eftir þeim öllum og sagt til dæmis Hver gaf hverjum hvað? Í (2-17b) eru aðilarnir aðeins tveir, enda getum við spurt Hver saknaði hvers? Í (2-17c) hefur þeim fækkað niður í einn og spurningin verður bara Hver datt? Í (2-17d) er hins vegar enginn sem aðhefst, er eða verður það sem sögnin greinir frá, enda er fullkomlega merkingarlaust að spyrja $Hver rigndi? (Í þessari bók er merkið $ stundum notað til að auðkenna dæmi sem eru merkingarlaus eða merkingarlega ótæk þótt ekkert sé athugavert við þau frá setningarlegu sjónarmiði.) Sagnir eins og gefa eru stundum kallaðar tveggja andlaga sagnir (sbr. 5. kafla) en gefa er áhrifssögn eins og sakna. Munurinn er sá að sakna tekur aðeins eitt andlag (hér Maríu). Sögnin detta er áhrifslaus, tekur ekkert andlag, og rigna er auðvitað áhrifslaus líka. Munurinn er sá að hún tekur ekkert (merkingarlegt) frumlag. Aftur á móti má nota með henni orðið það í stað frumlags, en það er þó ekki nauðsynlegt. Því verður t.d. að sleppa ef einhver annar liður fer á undan sögninni: (2-18) a. Það rigndi. b. Þá rigndi. c. *Þá rigndi það. d. *Þá það rigndi. Hér sjáum við að það getur hvorki staðið á eftir sögninni rigna ef setningin hefst á atviksorðinu þá né heldur á undan henni. Það hegðar sér því öðruvísi en venjulegt frumlag og er því ýmist kallað gervifrumlag eða leppur. (Venjulegt frumlag fer á eftir persónubeygðri sögn ef setningin hefst á einhverjum öðrum lið, eins og atviksorði til dæmis, sbr. t.d. dæmin í (2-5) hér á undan.) Ýmsar sagnir sem eiga við fyrirbæri tengd veðurlagi hafa þetta sama einkenni, enda er stundum talað um veður-það. Nokkur fleiri dæmi eru sýnd í (2-19): (2-19) það birtir, það dagar, það dimmir, það frystir, það hlánar, það hlýnar, það hríðar, það hvessir, það kólnar, það rofar til, það skefur, það snjóar, það þiðnar Nánar verður rætt um leppinn það í 6. kafla, en hann er ekki eingöngu notaður með veðursögnum.

12 12 Benda má á að stundum er hægt að nota fornafnið hann með veðursögnum á íslensku: (i) a. Hann rigndi allan daginn. b. Hann snjóar oft ansi mikið á Dalvík. Þetta veður-hann virðist ekki hafa alveg sömu einkenni og veður-það því hann er ekki bundið við framstöðu í setningum með veðursögnum: (ii) a. Rigndi hann allan daginn? b. Á Dalvík snjóar hann oft ansi mikið. Sú flokkun sagna sem hér er til umræðu eru að hluta til merkingarlegs eðlis. Það liggur m.ö.o. í merkingu sagnanna, eða þeim verknaði sem þær lýsa, hvort aðilar verknaðarins eru þrír, tveir, einn eða enginn í þeim skilningi sem nú var lýst. Um leið tengist þessi flokkun setningagerðinni því sögnin ræður því hvort í setningunni er raunverulegt frumlag eða ekki og hvort í henni eru tvö andlög, eitt eða ekkert. Auk þess er það setningarlegt einkenni áhrifssagna í íslensku að standa gjarna næst á undan nafnorði (eða nafnlið, sjá 3. kafla) sem gegnir þá hlutverki andlags. (Í sumum málum fer sögnin hins vegar gjarna á eftir andlaginu eins og bent var á í inngangi.) Þeir aðilar verknaðarins sem hér hafa verið til umræðu eru gjarna kallaðir rökliðir. Eins og við höfum séð ræður merking sagnar því hversu marga rökliði hún tekur með sér. Setningarlegt form rökliðanna getur hins vegar verið með ýmsu móti. Í fyrsta lagi kemur fyrir að forsetningarliðir gegni svipuðu merkingarhlutverki og andlög. Þetta má t.d. sjá í (2-20): (2-20) a. Ég snerti bókina. Ég kom við bókina. b. Hún kláraði matinn. Hún lauk við matinn. c. Hann leysti hnútinn. Hann losaði um hnútinn. d. Þau opnuðu ekki kranann. Þau skrúfuðu ekki frá krananum. Merkingarlegt samband sagnarinnar við nafnorðin (nafnliðina) í þessum dæmapörum er svipað og merkingarmunurinn stundum mjög lítill. Setningafræðilega er þarna hins vegar um að ræða mikilvægan mun. Í síðara dæminu í hverju pari er nefnilega forsetningarliður í stað andlags.

13 13 Sagnir sem taka með sér nátengda forsetningarliði af þessu tagi mætti kalla forsetningarsagnir. Þær eru ekki flokkaðar með áhrifssögnum enda hegða þær sér öðruvísi. T.d. er ekki hægt að búa til þolmyndarsetningu úr dæmunum með forsetningarsögnunum en það er auðvelt þegar áhrifssagnirnar eiga í hlut. Þá er andlagið gert að frumlagi og stendur í nefnifalli nema það hafi verið í þágufalli eða eignarfalli sem andlag: (2-21) a. Bókin var snert. *Bókin var komin við. b. Maturinn var kláraður. *Maturinn var lokinn við. c. Hnúturinn var leystur. *Hnúturinn var losaður um. d. Kraninn var ekki opnaður. *Krananum var ekki skrúfað frá. Dæmið Krananum var ekki skrúfað frá (með áherslu á krananum) er hugsanlegt sem afbrigði af ópersónulegu setningunni Það var ekki skrúfað frá krananum,en það er annað mál, rétt eins og Bókina var komið við er hugsanlegt afbrigði af ópersónulegu setningunni Það var komið við bókina. Þetta er í samræmi við það að gervifrumlagið (leppurinn) það hverfur ef einhverjir aðrir liðir eru færðir fremst í setninguna, eins og við höfum séð. Nauðsynlegt er að átta sig á því að þessir forsetningarliðir sem eru merkingarlega nátengdir sögninni eru annars eðlis en laustengdari forsetningarliðir, t.d. ýmsir liðir sem eiga við stað og tíma. Lítum á dæmin í (2-22) til samanburðar: (2-22) a. Jón datt á svellinu. b. María svaf í vatnsrúmi. c. Lambið dó um kvöldið. d. Guðmundur skokkar á morgnana. Hér eru forsetningarliðirnir á svellinu, í vatnsrúmi, um kvöldið, á morgnana ekkert sérlega nátengdir sögnunum detta, sofa, deyja, skokka. Þetta eru bara almenn staðar og tímaákvæði sem hægt er að hafa með hvaða sögn sem er. Þess vegna finnum við t.d. ekki samböndin detta á e -u, sofa á e-u, deyja um e-ð eða skokka á e-u í orðabókum. Þar finnum við hins vegar samböndin koma við e-ð, ljúka við e-ð, losa um e-ð og skrúfa frá e-u af því að koma við, ljúka við, losa um og skrúfa frá eru forsetningarsagnir (sagnir sem taka með sér röklið í forsetningarlið). Í öðru lagi er til í dæminu að sérstakt smáorð, svokölluð ögn, sé nátengt sögn. Þessi smáorð líkjast oft forsetningum í útliti. Þau eru hins vegar frábrugðin að því leyti að þau geta alls ekki staðið á undan áherslulausum fornöfnum. Þennan mun má sjá með því að bera (2-23) saman við (2-24): (2-23) a. Ég kom við bókina. Ég kom við hana. *Ég kom hana við. b. Hún lauk við matinn. Hún lauk við hann. *Hún lauk hann við. c. Hann losaði um hnútinn. Hann losaði um hann. *Hann losaði hann um. d. Þau skrúfuðu frá krananum. Þau skrúfuðu frá honum. *Þau skrúfuðu honum frá. (2-24) a. Ég tók upp kartöflurnar. *Ég tók upp þær. Ég tók þær upp. b. Ég lagði til breytingar. *Ég lagði til þær. Ég lagði þær til. c. Þau settu fram kröfur. *Þau settu fram þær. Þau settu þær fram. d. Hún tók frá mat. *Hún tók frá hann. Hún tók hann frá.

14 14 Í (2-23) eru fylgiorð sagnanna forsetningar og við getum kallað þær sagnir forsetningarsagnir, eins og áður er bent á. Í (2-24) eru fylgiorðin agnir og við getum kallað þær sagnir agnarsagnir. Í síðara tilvikinu eru það væntanlega ekki agnirnar sem stýra falli andlagsins heldur sagnirnar sjálfar. Það má t.d. sjá af því að á eftir ögninni til fer þolfall í (2-24b) en forsetningin til tekur jafnan með sér eignarfall. Auk þess er til í dæminu að ólíkar sagnir taki með sér sams konar ögn en stýri ólíku falli, sbr. setja e-ð fram (þf., sbr. (2-24c)) og koma e-u fram (þgf.). Loks má benda á að agnarsagnir veigra sér ekkert við því að standa í þolmynd: (2-25) a. Kartöflurnar voru teknar upp. b. Breytingarnar voru lagðar til. c. Kröfurnar voru settar fram. d. Maturinn var tekinn frá. Nánar verður fjallað um agnir í hér á eftir og og um agnarsagnir í Í þriðja lagi er til í dæminu að sagnir taki ekki með sér fallorð sem er andlag heldur svonefnda sagnfyllingu. Um sagnfyllingu er nánar rætt í 5.3.4, en hefðbundin skilgreining á henni gæti verið á þessa leið: (2-26) Fallorð í nefnifalli með áhrifslausum sögnum eins og vera, verða, heita og þykja eru kölluð sagnfyllingar. Þetta geta verið nafnorð (nafnliðir) eða lýsingarorð. Nokkur dæmi eru sýnd í (2-27): (2-27) a. Hún var forseti. b. Þú verður tannlæknir. c. Hann heitir Árni. d. Þeir þóttu góðir. Eins og í mörgum öðrum af þeim tilvikum sem hér hafa verið til umræðu hefur þessi undirflokkur sagna væntanlega ekki síður merkingarleg einkenni en setningarleg. Í fjórða lagi taka áhrifssagnir með sér andlög í mismunandi föllum og skiptast þá sem sé í flokka samkvæmt því. Um það verður nánar fjallað í 5.6 og 6.4 hér á eftir en nokkra hugmynd má fá af eftirfarandi yfirliti: (2-28) Sagnir sem taka með sér eitt andlag: a. í þolfalli: borða e-ð, smíða e-ð, laga e-ð, skemma e-ð, hreyfa e-ð, opna e-ð, salta e-ð, lita e-ð... b. í þágufalli: hjálpa e-m, sinna e-m, greiða e-m, snýta e-m, dreifa e-u, aka e-u, loka e-u, ljúka e-u... c. í eignarfalli: sakna e-s, minnast e-s... d. í nefnifalli: e-m líkar e-r, e-m leiðist e-r, e-m áskotnast e-ð, e-m berst e-ð, e-m bregst e-ð...

15 15 Trúlega má segja að þolfall á andlagi sé það fall sem helst er sjálfgefið, en þágufallsandlög eru þó býsna algeng (sjá nánar í köflum 5.6 og 6.4). Eignarfallsandlög eru mjög sjaldgæf og nefnifallsandlög koma aðeins fyrir með sögnum sem taka með sér frumlag í þágufalli (sjá nánar kafla 5.3. og 5.6). (2-29) Sagnir sem taka með sér tvö andlög: a. í þágufalli og þolfalli: gefa e-m e-ð, senda e-m e-ð, segja e-m e-ð, selja e -m e-ð, veita e-m e-ð... b. í þolfalli og þágufalli: leyna e-n e-u, svipta e-n e-u, ræna e-n e-u, verja e-n e-u, firra e-n e-u... c. í þolfalli og eignarfalli: krefja e-n e-s, spyrja e-n e-s, bið ja e-n e-s... c. þágufalli og þágufalli: lofa e-m e-u, hóta e-m e-u, skila e-m e-u, heita e-m e-u, valda e-m e-u... c. í þágufalli og eignarfalli: óska e-m e-s, unna e-m e-s, biðja e-m e-s... c. í þolfalli og þolfalli: kosta e-n e-ð... Hér er fyrsti flokkurinn (þágufall + þolfall) stærstur, annar flokkur líka nokkuð stór en hinir minni. Einkum er síðasti flokkurinn smár og kannski aðeins ein sögn í honum ef sagnir eins og kjósa/velja/skipa e-n e-ð (t.d. kjósa Ólaf(þf.) forseta(þf.)) eru ekki taldar þar með. Í slíkum dæmum má nefnilega færa rök að því að síðara þolfallið sé ekki andlag heldur nokkurs konar sagnfylling (sagnfylling með andlagi). Þess háttar dæmi verða rædd nánar í kafla Stundum er hægt að sleppa andlagi áhrifssagnar eða láta þess ógetið. Í dæmunum hér á eftir eru svigar utan um andlag notaðir til að sýna að andlagi megi sleppa, en þeir merkja ekki að setningin sé túlkuð eins og þetta tiltekna andlag stæði þar. Þannig á (2-30a) til dæmis ekki að tákna að dæmið væri talið merkja Haraldur borðaði fiskinn hratt þótt andlaginu fiskinn væri slepp. (2-30a) á aðeins að tákna það að gerðin Haraldur borðaði hratt er tæk setning (og þá er ótiltekið hvað Haraldur borðaði). Svipað á við um öll næstu dæmi: (2-30) a. Haraldur borðaði (fiskinn) hratt. b. María las (bókina) vandlega. c. Meðhjálparinn opnaði (kirkjuna) og við gegnum inn. d. Vörðurinn lokaði (dyrunum) og slökkti ljósið. Aðrar áhrifssagnir eru fastheldnari á andlag sitt. Í dæmunum hér á eftir tákna stjörnumerktir svigar utan um andlag tákna að andlagi megi ekki sleppa: (2-31) a. Bifvélavirkinn lagaði *(bílinn) svo við gátum haldið áfram. b. Kennarinn sinnti *(nemendunum) ágætlega. c. Móðirin saknaði *(barnanna) mikið. d. Ég minnist *(þess) ekki. Þegar um er að ræða sagnir sem taka tvö andlög er yfirleitt auðveltara að sleppa fyrra andlaginu. Mun sjaldnar má sleppa því síðara en sagnir eru þó eitthvað misjafnlega fastheldnar á það (? fyrir

16 16 framan sviga hér merkir að vafasamt sé að sleppa viðkomandi andlagi og?* að líklega sé ótækt að sleppa því): (2-32) a. Við gáfum (Maríu) peninga. Við gáfum Maríu?*(peninga). b. Þeir lendu (Guðmund) ýmsu. Þeir leyndu Guðmund *(ýmsu). c. Hún spurði (okkur) margs. Hún spurði okkur?(margs). d. Þær lofuðu (þeim) öllu fögru. Þær lofuðu þeim *(öllu fögru). e. Hann hótaði (henni) barsmíðum. Hann hótaði henni (barsmíðum). f. Ég óska (honum) þess. Ég óska honum *(þess). g. Þetta kostaði (hann) mikið. Þetta kostaði hann *(hann). Enn má nefna að sumar sagnir geta tekið með sér heilar setningar með persónubeygðum sögnum í hlutverki andlags eða frumlags. Nokkur dæmi um setningar eru sýnd í (2-33) (setningarnar sem gegna hlutverki frumlags eða andlags eru afmarkaðar með hornklofum): (2-34) a. Hún telur [að Laxness hafi verið algjör snillingur] b. Þeir spurðu [hvort þeir mættu koma inn á stígvélunum] c. [Að verkfall skuli vofa yfir] veldur ríkisstjórninni áhyggjum. d. [Hvort samningar nást fljótlega] skiptir meginmáli. Hér ræður merking sagnarinnar augljóslega mestu um það hvort hún getur tekið með sér heila setningu sem röklið eða ekki. Setningar sem gegna hlutverki rökliða eru gjarna kallaðar fallsetningar í íslenskum málfræðibókum. Ástæðan er auðvitað sú að þær hafa svipaða setningarlega stöðu og fallorð. Um þetta verður nánar rætt í síðari köflum, m.a. 3. og 7. kafla. Loks er þess að geta að sumar sagnir taka með sér nafnháttarsambönd. Þau eru reyndar af ýmsum gerðum, eins og gerð verður grein fyrir í 8. kafla. Stundum fylgir nafnháttarmerkið að en stundum ekki. Nokkur dæmi eru sýnd í (2-35): (2-35) a. Þú munt vera lögfræðingur. b. Hún vill verða prófessor. c. Það byrjaði að snjóa um miðnætti. d. Þeir reyndu að gera við bílinn. e. Ég tel Guðmund hafa leikið af sér. f. Guðmundur virðist hafa leikið af sér. g. Mér virðist Guðmundur hafa leikið af sér. Nafnháttarsambönd geta líka gegnt hlutverki frumlags með nokkrum sögnum. Þá fylgir nafnháttarmerkið að jafnan með: (2-36) a. [Að heilsa ekki samstarfsmönnum sínum] er kjánalegt. b. [Að nota fæðubótarlyf í óhófi] getur verið hættulegt. Nú verður gefið yfirlit yfir það sem hér hefur verið sagt um setningarleg einkenni sagna Yfirlit yfir setningarleg einkenni sagna

17 17 Meðal almennra setningarlegra einkenna sagna í íslensku má telja þessi: (2-37) a. Sagnir geta m.a. beygst í persónu og tölu og laga sig að frumlagi í nefnifalli í persónu og tölu þegar þær eru persónubeygðar. b. Sögn í persónuhætti stendur í öðru sæti í staðhæfingarsetningum. c. Sögn í persónuhætti stendur í fyrsta sæti í já/nei-spurningum. d. Sögn í persónuhætti stendur í fyrsta sæti í sérstökum frásagnarstíl. e. Sögn stendur í fyrsta sæti í boðháttarsetningum. f. Sögn í fallhætti sem stýrist af hjálparsögn fer á eftir hjálparsögninni. Meðal setningarlegra atriða sem einkenna undirflokka sagna í íslensku má telja þessi: (2-38) a. Sumar sagnir taka með sér frumlag í aukafalli. Þær eru gjarna kallaðar ópersónulegar af því að þær laga sig ekki að frumlaginu í persónu og tölu heldur standa alltaf í þriðju persónu eintölu ef þær eru í persónuhætti. b. Sögnum sem taka með sér frumlag í aukafalli má skipta í þolfallssagnir, þágufallssagnir og eignarfallssagnir eftir falli frumlagsins. c. Sögnum má skipta í flokka hvort þær taka með sér merkingarlegt frumlag eða ekki. Sagnir sem ekki taka merkingarlegt frumlag geta tekið með sér gervifrumlagið (leppinn) það í frumlags stað. d. Sagnir skiptast í áhrifssagnir (= sagnir sem taka með sér andlag) og áhrifslausar sagnir (= sagnir sem ekki taka með sér andlag). e. Sumar áhrifslausar sagnir taka með sér forsetningarliði sem eru nátengdar þeim merkingarlega. f. Sumar áhrifssagnir taka með sér svokallaðar agnir sem ekki hafa áhrif á fallstjórn þeirra. g. Sumar áhrifslausar sagnir taka með sér sagnfyllingu sem er annaðhvort lýsingarorð eða nafnorð (nafnliður). h. Áhrifssagnir skiptast í sagnir sem taka með sér eitt andlag og sagnir sem taka tvö andlög. i. Sögnum sem taka með sér eitt andlag má skipta í flokka eftir falli andlagsins (þolfall, þágufall, eignarfall, nefnifall). Eignarfallssagnir eru sjaldgæfar. Sagnir taka ekki nefnifallsandlag nema þær taki frumlag í þágufalli. j. Andlagi sumra áhrifssagna má sleppa en aðrar áhrifssagnir eru fastheldnar á andlag sitt. k. Sögnum sem taka með sér tvö andlög má skipta í flokka eftir falli andlaganna. Sagnir sem taka þágufall og þolfall saman í þessari röð eru algengastar en einnig er nokkuð algengt að sagnir taki þolfall og þágufall. l. Stundum má sleppa fyrra andlagi tveggja andlaga sagna. Síðara andlagi má mun sjaldnar sleppa. m. Suma r sagnir geta tekið með sér heilar setningar (með sögn í persónuhætti) sem rökliði, þ.e. í frumlags eða andlags stað. n. Sumar sagnir geta tekið með sér nafnháttarsambönd í frumlags eða andlags stað. Nafnháttarsamböndin eru af ýmsum gerðum, t.a.m. ýmist með nafnháttarmerki eða án þess.

18 18 Við snúum okkur þá næst að nafnorðum. 2.2 Nafnorð Almenn einkenni nafnorða Nafnorð eru fallorð og eiga það sameiginlegt með öðrum fallorðum að beygjast í föllum og tölum. Í íslensku eru fjögur föll og tvær tölur, eins og kunnugt er. Það merkir að nafnorðin beygjast í fjórum föllum í hvorri tölu. Vegna tengsla fallbeygingar og setningagerðar er ómaksins vert að rifja einkenni hennar upp hér. Þetta er gert í (2-39) og beygingarendingar eru afmarkaðar með bandstriki: (2-39) karlkyns-no. kvenkyns-no. hvorugkyns-no. nf. et. gest-ur nál borð þf. - gest nál borð þgf. - gest-i nál borð-i ef. - gest-s nál-ar borð-s nf. ft. gest-ir nál-ar borð þf. - gest-i nál-ar borð þgf. - gest-um nál-um borð-um ef. - gest-a nál-a borð-a Hér sjáum við m.a. að það er mjög misjafnt eftir orðum hvort einstakar fallmyndir hljóma eins eða ekki. Í orðinu gestur eru t.d. 7 ólíkar fallmyndir og þótt þgf.et. og þf.ft. hljómi eins (gesti) er það ekki algilt þegar sterk karlkynsorð eiga í hlut (sbr. hestur, þgf.et. hesti, þf.ft. hesta (samhljóma við ef.ft.) eða þá selur, þgf.et. sel (samhljóma við þf.et.)). Mun meira er um samhljóma (e. homophonous) föll í kvenkyns- og hvorugkynsorðum þótt þar sé það líka nokkuð mismunandi eftir því hvaða orð eiga í hlut (nf.ft. og þf.ft. eru þó alltaf samhljóma í kvenkynsorðum og nf. og þf. eru alltaf samhljóma í hvorugkynsorðum í et. og ft.). Samfall af þessu tagi (e. syncretism) kemur við sögu síðar í bókinni.

19 19 Beygingarendingar íslenskra nafnorða tákna í raun og veru bæði fall og tölu. Þannig táknar endingin -ur í orðmyndinni gest-ur bæði nf. og et. í senn og en endingin -um í orðmyndinni gest-um bæði þgf. og ft. Mörg beygingamál líkjast íslensku að þessu leyti. Hins vegar eru til tungumál sem eru þannig að tiltekin beygingarending, eða tiltekið beygingarviðskeyti, táknar nefnifall, án tillits til tölu, og annað beygingarviðskeyti táknar þá til dæmis fleirtölu án tillits til þess hvert fallið er. Tyrkneska er eitt þessara mála, sbr. eftirfarandi beygingardæmi fyrir orðið ev hús (hér er staðarfalli og sviptifalli (e. ablative) sleppt): nf. et. ev þf. - ev-i þgf. - ev-e ef. - ev-in nf. ft. ev-ler þf. - ev-ler-i þgf. - ev-ler-e ef. - ev-ler-in Hér sjáum við að -ler- táknar alls staðar fleirtölu, sama hvert fallið er, og á hliðstæðan hátt er -i þolfallsending í et. og ft., -e er þágufallsending í et. og ft., og loks er -in eignarfallsending í báðum tölum. Í íslensku beygingakerfi er helst að finna hliðstæðu við þetta í veikum sögnum þar sem ákveðið viðskeyti táknar þátíð án tillits til persónu og tölu sagnarinnar:

20 20 1p.et.nt. leys-i 1p.et.þt. leys-t-i 2p.et. - leys-ir 2p.et. - leys-t-ir 3p.et. - leys-ir 3p.et. - leys-t-i 1p.ft. - leys-um 1p.ft. - leys-t-um 2p.ft. - leys-ið 2p.ft. - leys-t-uð 3p.ft. - leys-a 3p.ft. - leys-t-u Hins vegar er greinilega ekki auðvelt að greina persónu og tölu í sundur í sagnbeygingunni, fremur en fall or tölu í nafnorðabeygingunni. Fall- og tölubeyging af því tagi sem hér var lýst er sameiginlegt einkenni íslenskra fallorða, þótt birtingarform hennar sé nokkuð mismunandi eftir orðflokkum (aðrir flokkar fallorða í íslensku eru lýsingarorð, fornöfn (nokkrir flokkar, sbr. 2.4 hér á eftir), greinir og töluorð). En nafnorð hafa sérstöðu meðal fallorða að því leyti að þau hafa fast kyn og það skiptir máli frá setningafræðilegu sjónarmiði. Það merkir að málfræðilegur þáttur eins og karlkyn, kvenkyn eða hvorugkyn er fastur fylgifiskur hvers nafnorðs: gestur er kk., nál er kvk. og borð er hk. En nafnorðin taka ekki kynbeygingu á þann hátt að unnt sé að skipta um kyn nafnorðs með því að breyta formi þess. Nafnorðið selur er t.d. karlkyns og það er ekki hægt að breyta því í kvenkynsnafnorð með því að taka endinguna -ur aftan af, þótt þar sé um að ræða nefnifallsendingu sem er í sjálfu sér einkennandi fyrir karlkynsnafnorð. Þannig er sel er ekki kvenkynsform af nafnorðinu sel-ur og það er ekki heldur hægt að breyta nafnorðinu sel-ur því í hvorugkynsnafnorð með því að bæta -t við stofninn (*sel-t er sem sé ekki hvorugkynsform af nafnorðinu sel-ur). Að þessu leyti eru íslensk nafnorð frábrugðin lýsingarorðum til dæmis, eins og kunnugt er (sbr. gul-ur (kk.), gul (kvk.), gul-t (hk.)).

21 21 Kyn íslenskra nafnorða hefur aðeins óbein tengsl við líffræðilegt kyn þess sem nafnorðið á við. Þannig eru t.d. engin líffræðileg rök fyrir því að nál sé kvenkyns og borð hvorugkyns, nú eða að gaffall sé karlkyns, skeið kvenkyns og hnífur karlkyns. Þetta má t.d. sjá af því að Gabel gaffall er kvenkyns í þýsku, Löffel skeið er karlkyns og Messer hnífur er hvorugkyns. Kyn nafnorðanna hefur áhrif á form þeirra lýsingarorða sem standa með þeim, bæði í íslensku og þýsku. Í sumum tungumálum má finna flokkun nafnorða sem minnir á þessa kynskiptingu að því leyti að hún hefur áhrif á það hvernig nafnorðin beygjast en hún hefur alls engin tengsl við líffræðilegt kyn heldur t.d. við lögun þeirra hluta sem þau vísa til. Þannig er það t.d. í svahílí. Þar má m.a. finna eftirtalda flokka: skilgreining beygingarlegt flokksins: einkenni: dæmi: 1. óhlutstæð hugtök et. u-, ekki til í ft.: u-kubwa stærð, u-zee elli 2. manneskjur et. m-, ft. wa-: m-tumishi þjónn, wa-tumishi þjónar m-toto barn, wa-toto börn 3. manngerðir hlutir et. ki-, ft. vi- ki-banda kofi, vi-banda kofar ki-tabu bók, vi-tabu bækur 4. aflangir hlutir et. m-, ft. mi- m-guu fótleggur, mi-guu fótleggir

22 22 m-tende pálmi, mi-tende pálmar Eins og hér kemur fram er tölubeyging nafnorða í svahílí sýnd með forskeytum en ekki beygingarendingum eða viðskeytum. Kyn nafnorðanna í svahílí hefur t.d. áhrif á form þeirra sagna sem standa með þeim. Ef sagt væri t.d. Þjónninn hvarf á svahílí myndi sögnin hverfa byrja á forskeytinu a- en væri sagt Kofinn hvarf byrjaði sögnin á beygingarforskeytinu ki-. Ef sagt væri hins vegar Þjónarnir hurfu byrjaði sögnin á wa-, o.s.frv. Íslenskar sagnir laga sig líka að tölu (og persónu) frumlagsins, eins og við höfum séð (sjá t.d hér á undan), en þar skiptir ekki máli fyrir form sagnarinnar af hvaða beygingarflokki eða kyni nafnorðið í frumlagssætinu er. Það skiptir hins vegar máli í svahílí. Annað einkenni sem greinir nafnorð frá öðrum fallorðum í íslensku er það að þau geta bætt við sig viðskeyttum greini. Að vísu er tiltölulega sjaldgæft að sérnöfn bæti við sig greini vegna þess að þau eru yfirleitt ákveðin í eðli sínu og þurfa ekki greinis við. Í sérstökum samböndum kemur þetta þó fyrir eins og hér er sýnt (greinirinn afmarkaður með bandstriki): (2-40) a. gestur-inn, nál-in, borð-ið... b. Annar Sigurður-inn var kallaður Siggi plús en hinn Siggi mínus. Í (2-40b) tekur sérnafnið Sigurður með sér greini, rétt eins og önnur nafnorð gera gjarna á eftir óákveðna fornafninu annar (sbr. annar bróðir-inn, önnur kona-n, annað hús-ið...). Við komum nánar að notkun greinis með sérnöfnum í kafla hér á eftir. Hér má hins vegar minna á að form greinisins fer eftir því hvert kyn nafnorðsins er, sbr. (2-40a). Greinirinn lagar sig m.ö.o. að nafnorðinu í kyni (og reyndar líka í tölu og falli) og slíkt er kallað sambeyging eða samræmi (e. concord, agreement). Það verður á dagskrá í síðari köflum (sjá t.d. kafla og 15). Venja er að líta á greini sem sérstakan orðflokk og við komum nánar að einkennum hans hér á eftir (sjá kafla 2.5). En samkvæmt því er það þá setningarlegt einkenni nafnorða fremur en beygingarlegt til dæmis að taka með sér greini. Skylt einkenni á nafnorðum er það að þau geta myndað kjarna eða höfuð (e. head) nafnliðar (e. noun phrase), þ.e. verið aðalorðið í svokölluðum nafnlið. Þá standa þau ýmist ein sér eða taka með sér ýmiss konar ákvæðisorð (e. modifiers). Þetta má sýna með dæmum á borð við (2-41), þar sem frumlög sagnanna eru nafnliðir af mismunandi stærðum og gerðum sem eiga það þó sameiginlegt að aðalorð þeirra er nafnorð (hér eru nafnorðin feitletruð og nafnliðirnir afmarkaðir með hornklofum, en um formgerð setningarliða er nánar rætt í 3. kafla): (2-41) a. [ Konan ] hló. b. [ Þýska konan ] hló. c. [ Ein kona ] datt. d. [ Þessi bíll ] eyðilagðist. e. [ Þrír sænskir handboltamenn ] komu. f. [ Þessi fjögur norsku hreindýr ] dóu. Eins og hér kemur fram geta ákvæðisorð nafnorða verið af ýmsu tagi, t.d. lýsingarorð (sbr. (2-41b)), töluorð (sbr. (2-41c)), ábendingarfornöfn (sbr. (2-41d)) og eins má sem best hafa tvö eða fleiri ákvæði með nafnorðunum (sbr. (2-41e,f)). Um röð orðflokkanna í slíkum ákvæðum gilda ákveðnar reglur sem við lítum á síðar (sbr. kafla 2.3, 2.4, 2.5, 2.6 hér á eftir og einnig 3.2 og 3.8).

23 23 Hins vegar er almenna reglan í íslensku sú að ákvæði af þessu tagi fari á undan nafnorðinu sem er höfuð nafnliðarins. Aftur á móti geta nafnorð líka tekið með sér forsetningarliði og jafnvel heilar setningar, t.d. tilvísunarsetningar, til frekari afmörkunar og slíkir liðir fara jafnan á eftir nafnorðunum: (2-42) a. [ Regnhlífin með röndunum ] brotnaði. b. [ Bókin sem þú gafst mér ] týndist. Svipað er að segja um eignarfall sem nafnorð stýrir fallinu á, svokallaða eignarfallseinkunn, og einnig eignarfornöfn. Í sjálfgefinni orðaröð fara þess háttar liðir á eftir nafnorðinu sem tekur þá með sér: (2-43) a. [ Mark Guðmundar ] var glæsilegast. b. [ Bíllinn minn ] er flottastur. Eignarfallið og eignarfornafnið má þó færa framfyrir nafnorðið til að leggja sérstaka áherslu á það: (2-44) a. [ GUÐMUNDAR mark ] var glæsilegast. b. [ MINN bíll ] er flottastur. Staða eignarfallseinkunnar og eignarfornafna verður rætt nánar í köflum sem fjalla um gerð nafnliða (sjá einkum 3.2 og 3.8) en í verður nánar vikið að merkingarsambandi eignarfalls og nafnorðsins sem stýrir því. Atriði sem varða setningarleg hlutverk nafnliða, t.d. það hvort nafnliður gegnir hlutverki frumlags, andlags, sagnfyllingar o.s.frv., verða rædd í 5. kafla, enda eiga þau flest við nafnliði almennt en ekki nafnorð sérstaklega Undirflokkar nafnorða Þau einkenni nafnorða sem talin voru hér á undan eiga við öll nafnorð. En nafnorð skiptast líka í undirflokka. Þekktasta skiptingin er líklega skipting nafnorða í samnöfn og sérnöfn. Þetta er í sjálfu sér merkingarleg skipting og einkennum sérnafna er gjarna lýst á þessa leið: (2-45) Þau nafnorð sem eru heiti tiltekins einstaklings, staðar, bókar, fyrirtækis o.s.frv. eru kölluð sérnöfn. Eins og fram kemur í skilgreiningunni eru sérnöfn ákveðinnar merkingar í eðli sínu. Þess vegna er tiltölulega sjaldgæft að þau taki með sér viðskeyttan greini þótt það sé ekki dæmalaust, eins og við höfum séð (sbr. (2-40) hér á undan). Frekari dæmi um það eru sýnd hér: (2-46) a. Esja-n er ekki ljót. b. Súla-n beygði yfir bæinn. c. Keflavík-in var ágætt skip. Sum örnefni taka gjarna með sér greini í daglegu tali, eins og Esja í (2-46a), og stundum eru

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser Spil og leg 14 Læsebog side 40 41 Opgavebog side 68 Tegund: Samtalsæfing Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða sem snýr að tilfinningum, persónueinkennum og útliti. Undirbúningur: Prenta út opgaveblad

Læs mere

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: tengdan lífsstíl um neyslu ungs fólks á Norðurlöndum um ofnotkun á hreinlætisvörum og orku Hugmyndir að kveikju: Umræður um neyslu ungs fólks í dag. Fjallað um myndina

Læs mere

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými.

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými. Notkun FHF gólfhitagrindin er notuð til að stjórna vatnsrennsli í gólfhitakerfum. Hvert rör í kerfinu er tengt gólfhitagrindinni sem gerir kleift að stjórna vatnsrennsli í hverri rás og hita í hverju rými

Læs mere

Arnbjörg Eiðsdóttir og Kristín Jóhannesdóttir. Grammatik. Námsgagnastofnun

Arnbjörg Eiðsdóttir og Kristín Jóhannesdóttir. Grammatik. Námsgagnastofnun Arnbjörg Eiðsdóttir og Kristín Jóhannesdóttir Grammatik Námsgagnastofnun 1 Grammatik ISBN 9979-0-0988-8 2005 Arnbjörg Eiðsdóttir og Kristín Jóhannesdóttir Ritstjóri: Ellen Klara Eyjólfsdóttir 1. útgáfa

Læs mere

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 START Spil og leg 1 Spil og leg 1 Hvem er jeg? Hvad hedder du? Læsebog side 3 Opgavebog side Tegund: Samtals- og hreyfileikur Form: Hópleikur Markmið: Að læra að kynna sig. Undirbúningur: Finna bolta eða

Læs mere

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir:

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir: . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014, 360/2016 og 666/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Frágangur handlista Í grein í byggingarreglugerð segir: Handlistar

Læs mere

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO MÁLNOTKUNARÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003.

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003. 545 AUGLÝSING um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu. Hinn 30. apríl og 1. maí var með bréfaskiptum í Reykjavík og Nuuk gengið

Læs mere

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Opgavebog Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 OPGAVE 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 OPGAVE 1B - HVAD ER MINE

Læs mere

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla.

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Tænk Talæfingar með Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir Yfirlestur og ráðgjöf: Astrid Juul Poulsen

Læs mere

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir.

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir. Tøj og tilbehør Í þemanu er fjallað um: mismunandi tegundir af fötum og fylgihlutum. hvað er í snyrtitöskunni. föt og tísku frá mismunandi tímabilum. stuttar fréttir og staðreyndir sem tengjast fötum.

Læs mere

komudagur 21-1- 2 0 f2

komudagur 21-1- 2 0 f2 7W O s s u e i k (. íé T ) Erindim Þ M /lo O S komudagur 21-1- 2 0 f2 MINNISBLAÐ TIL EFNAHAGS- OG VIÐSKIPTANEFNDAR -tilla g a að nýrri 9. mgr. 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, með síðari

Læs mere

GRAMMATIK 1. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla

GRAMMATIK 1. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla Kristín Jóhannesdóttir Arnbjörg Eiðsdóttir 1 Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla 1. útgáfa 2005 2. útgáfa 2006 Búið að laga villur í verkefnum 3a, 3b, 4, 10, 24, 32, 42, 43 og 44 6276 Ritstjóri:

Læs mere

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni.

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni. Tøj og farver Í þemanu er fjallað um: Föt, liti og fylgihluti. Markmið er að nemendur: læri helstu liti. læri grunnorðaforða um föt. skilji þegar talað er um föt og liti á dönsku á einfaldan hátt. geti

Læs mere

- kennaraleiðbeiningar

- kennaraleiðbeiningar - kennaraleiðbeiningar María Una Óladóttir Kennsluleiðbeiningar með kennsluefninu ord til at starte med! Verkefni 1 - Að nemendur læri að kynna sig og fjölskyldumeðlimi. Nemendur teikna í rammann eða koma

Læs mere

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Kennslulei⅟beiningar Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave Oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 VERKEFNI 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 VERKEFNI

Læs mere

Dyrebingo. Önnur útfærsla

Dyrebingo. Önnur útfærsla Opgaveblad 2A Opgaveblad 2C Dyr i Danmarks natur Læsebog side 10 11 Opgavebog side 19 Tegund: Bingó með myndaspjöldum Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða tengdan dýrum. Undirbúningur: Prenta út

Læs mere

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt Anna Jørgensen, Zahle Seminarium, København Anna Kristjánsdóttir þýddi í apríl 2002 fyrir vefsetrið Stærðfræðin hrífur Greinin birtist fyrst í danska tímaritinu Matematik

Læs mere

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO SAMTALSÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

Kökur, Flekar,Lengjur

Kökur, Flekar,Lengjur Kökur, Flekar,Lengjur Qimiq vörurnar eru unnar úr úrvals Austurísku hráefni. Q003301 Qimiq Profi Whip 1 kg (12) Q000114 Qimiq Base 1 kg (12) Q000115 Qimiq Sauce base 1 kg (12) Qimiq Whip Notið QimiQ Whip

Læs mere

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók Tilllaga að leiðbeiningum og verkfærum til hjálpar Hvað þarf að koma fram í leiðbeiningunum? 1. Hvað er orkustjórnun? 2. Hvernig setjum við okkur orkustefnu og markmið? 3. Hvernig á að skipuleggja orkuvinnuna?

Læs mere

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 SMART Spil og leg 1 Spil og leg 1 Tallene Tæl til hundrede Læsebog side 7 Opgavebog side 11 Tegund: Hermileikur Form: Hópleikur Markmið: Hlusta og einbeita sér. Að æfa tugina. Undirbúningur: 1. Nemendur

Læs mere

TIL NEMANDA. Bók nr. Tekin í notkun. Skóli. Útlán: dags. Skil: dags. Nemandi/bekkur

TIL NEMANDA. Bók nr. Tekin í notkun. Skóli. Útlán: dags. Skil: dags. Nemandi/bekkur Grammik TIL NEMANDA fiessi bók er eign skólans flíns og flú hefur hana a láni. Bækur eru d rar og flví mikilvægt a fari sé vel me flær. Gættu fless vel a skrifa ekki í flessa bók. Bók nr. Skóli Tekin í

Læs mere

esurveyspro.com - Survey Detail Report

esurveyspro.com - Survey Detail Report Page 1 of 5 Kommuner: Miljøledelse ved bygning af veje og gader i de nordiske lande Respondent Type: Customer Custom Data 1: Name: Anna Rósa Custom Data 2: Email address: anna.r.bodvarsdottir@reykjavik.is

Læs mere

2. Dig, mig og vi to

2. Dig, mig og vi to 2. Dig, mig og vi to Í þemanu er fjallað um fjölskylduna vini samskipti Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. 1. Umræður um teiknimyndina á fremstu blaðsíðu í þemanu. 2. Orðablóm

Læs mere

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018 A FYR LØS TAK FYR LØS A Efnisyfirlit 1 Hjemmet Fyr løs 1 Bingo... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Nævn to ting i hjemmet.. 6 Opgaveblad 2 Fyr løs 3 Se mit værelse... 7 Opgaveblad 3 2 Familien Fyr løs 4 Monas

Læs mere

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Jeg elsker Danmark Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Markmiðið er að nemendur: fræðist um Danmörku og danska menningu.

Læs mere

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt.

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt. AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO Journalnummer: 2016-0177 Klageren: XX Island Indklagede: Metroselskabet I/S v/metro Service A/S CVRnummer: 21 26 38 34 Klagen vedrører: Parternes krav: Kontrolafgift

Læs mere

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns BA ritgerð í lögfræði Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns Hulda Magnúsdóttir Leiðbeinandi: Elísabet Gísladóttir Desember 2013 BA ritgerð

Læs mere

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014 SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS B I B SMIL Skapandi verkefni ~ Fyr løs Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9053 Efnisyfirlit Smil Verkefnabók

Læs mere

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Rétt eða rangt? Sjálfs mín sök Spurt er hvort réttara sé að segja sjálfs sín eða sjálfs síns. Ég tel að

Læs mere

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Hanna Skúladóttir Kennaraháskóli Íslands Grunnskólabraut Apríl 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Læs mere

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN EFNISYFIRLIT 03 / INNGANGUR 04 / EFNI HANDBÓKAR 05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 08 / MATSAÐFERÐIR 10 / HVAÐ - HVERNIG 11 / MÓDEL 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 1 2 3 Til kennara....3 Almennt

Læs mere

AUGLÝSING um samkomulag milli Íslands og Danmerkur um flugumferðarþjónustu í hluta af loftrými Grænlands.

AUGLÝSING um samkomulag milli Íslands og Danmerkur um flugumferðarþjónustu í hluta af loftrými Grænlands. S 5-4 1 S 5-4 Stjórnartíðindi C-deild, Nr. 19/1975 AUGLÝSING um samkomulag milli Íslands og Danmerkur um flugumferðarþjónustu í hluta af loftrými Grænlands. Með orðsendingaskiptum í Reykjavík í dag var

Læs mere

Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög

Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög 1. gr. Gildissvið. Reglur þessar gilda um afhendingarskylda aðila sem falla undir 1. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Læs mere

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr.

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Gangar og anddyri Í grein í byggingarreglugerð segir: Meginreglur: Eftirfarandi

Læs mere

Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið Michael Dal

Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið Michael Dal Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið 2006 Michael Dal Reykjavík júní 2006 Michael Dal Lektor við Kennaraháskóla Íslands Úttekt á samræmdu prófi i dönsku vorið 2006 Félag dönskukennara og Kennaraháskóli

Læs mere

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál]

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi. (Lagt

Læs mere

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Útgáfa: 04 Dags: 03012018 Höfundur: IJ Samþykkt: Síða 1 af 4 BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Dan 2A05 Námsáætlun, vorönn 2018 Kennari: Inga Jóhannsdóttir Netfang: ij@bhsis Lýsing: Í áfanganum

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar A B

Kennsluleiðbeiningar A B Kennsluleiðbeiningar A B TAK KENNSLULEIÐBEININGAR A B 4 Efnisyfirlit Til kennara Almennt um námsefnið... 5 Nemendabók... 5 Verkefnabækur... 6 OPGAVEBOG A 1 Hjemmet Tak tak tak... 8 Boligen... 9 Hvordan

Læs mere

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører Min krop Í þemanu er fjallað um: Andlitið og skynfærin Líkamann Ýmsar daglegar athafnir tengdar líkamanum og skynfærunum. Ýmsa algenga kvilla eins og kvef og hálsbólgu. Markmið er að nemendur: Læri helstu

Læs mere

Greinargerð Trausti Jónsson. Langtímasveiflur III. Sjávarhiti

Greinargerð Trausti Jónsson. Langtímasveiflur III. Sjávarhiti Greinargerð 1 Trausti Jónsson Langtímasveiflur III Sjávarhiti VÍ-ÚR1 Reykjavík Mars Sjávarhitamælingar í gögnum Veðurstofunnar Inngangur Í gagnasafni Veðurstofunnar er talsvert til af sjávarhitamælingum.

Læs mere

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Fylgiseðill Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Lesið fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. - Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar. - Leitið til

Læs mere

Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra. 1. Viðfangsefnið

Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra. 1. Viðfangsefnið . Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra 1. Viðfangsefnið Með munnlegri beiðni í október 1998 fór auðlindanefnd, sem kjörin var á Alþingi 5. júní 1998 í framhaldi af þingsályktun frá

Læs mere

Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir

Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir Börn og sorg Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar Ragnheiður Guðjónsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið

Læs mere

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni.

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni. Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri um meðöl gegn fjárpestinni, 14.03.1771. Lit. GG. ÞÍ. Skjalasafn rentukammers. B4/1, örk 22. (Ind. Ref. 2. Nor. B. nr. 391) Commissions Papiirer

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar Tænk Kennsluleiðbeiningar Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Ritstjóri: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Yfirlestur: Astrid Juul Poulsen NÁMSGAGNASTOFNUN

Læs mere

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk.

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. Lærer: Jette Dige Pedersen Undervisningsmateriale: 1. Danmarks mosaik

Læs mere

Oft má satt kyrrt liggja

Oft má satt kyrrt liggja Oft má satt kyrrt liggja Vítaleysi sannra ærumeiðinga, einkum með tilliti til fjölmiðla - Ritgerð til meistaraprófs í lögfræði - Skúli Á. Sigurðsson Lagadeild Félagsvísindasvið Leiðbeinandi: Dr. Páll Sigurðsson

Læs mere

Athugun á eignarfalli eintölu sterkra karlkynsorða

Athugun á eignarfalli eintölu sterkra karlkynsorða Hugvísindasvið Athugun á eignarfalli eintölu sterkra karlkynsorða Tvímyndir og frávik Ritgerð til B.A.-prófs Beata Czajkowska Maí 2009 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Íslenska fyrir erlenda stúdenta Athugun

Læs mere

Forkaupsréttarsniðganga

Forkaupsréttarsniðganga Forkaupsréttarsniðganga Þorvaldur Hauksson og Helgi Áss Grétarsson Lögfræðideild Ritstjóri: Helgi Áss Grétarsson Rannsóknir í félagsvísindum XVI. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2015 Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Læs mere

glimrende lærervejledninger

glimrende lærervejledninger Arnbjörg Eiðsdóttir Kristín Jóhannesdóttir glimrende lærervejledninger Kennsluleiðbeiningar með Glimrende, Glimrende opgaver og hlustunarefni, ásamt svörum við verkefnum í vinnubók Efnisyfirlit Glimrende

Læs mere

4 helgi eða hafnir annara ríkja. Af þessu ferðalagi skipsins leiða eðlilega fjöldamargar sjerreglur. - Til þess að hægt sje að skilja og skýra þessar

4 helgi eða hafnir annara ríkja. Af þessu ferðalagi skipsins leiða eðlilega fjöldamargar sjerreglur. - Til þess að hægt sje að skilja og skýra þessar A. Inngangur. Forsendur. I. Sjórjettur. 1. Sjórjetturinn er lögin um siglingar. Öll þau lög (í víðustu merkingu), sem eiga rætur sínar í sjerkennum siglinga, eiga eftir eðli sínu heima í sjórjettinum.

Læs mere

Baráttan við MNDsjúkdóminn

Baráttan við MNDsjúkdóminn Helst errið sem kemur upp um okkur Christina Kjeldsen og Simon Björn eru þjónar Votta Jehóva á norðanverðum Vestfjörðum með aðsetur á Íslandi. Við fáum ekkert borgað fyrir að vera Vottar. En við vinnum

Læs mere

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Ritgerð til BA-prófs í dönsku Hafrún Elma Símonardóttir Kt.: 260779-3709 Leiðbeinandi: Þórhildur Oddsdóttir Maí

Læs mere

Umsögn um frumvarp um náttúrupassa

Umsögn um frumvarp um náttúrupassa Aagot Vigdís Óskarsdóttir lögfræðingur1 Umsögn um frumvarp um náttúrupassa sem lagt var fram á Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014-2015, 455. mál, þskj. 699. 1 Inngangur Frumvarp til laga sem kveður á um

Læs mere

LAGAÁREKSTRAR OG LAGASAMRÆMING

LAGAÁREKSTRAR OG LAGASAMRÆMING SIGURDUR GIZURARSON bæjarfógeti: LAGAÁREKSTRAR OG LAGASAMRÆMING EFNISYFIRLIT: I SAMRÆMING RÉTTARUPPSPRETTNA... A. HVERNIG STANGAST RÉTTARUPPSPRETTUR Á?... B. EF RÉTTARUPPSPRETTUR REKAST Á KOMA ÞRJU MEGINSJÓNARMID

Læs mere

GRAMMATIK 2. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla

GRAMMATIK 2. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla * Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla 1. útgáfa 2006 2. útgáfa 2007 Verkefni 1 15 Nafnorð = Substantiver 16 37 Lýsingarorð = Adjektiver 38 43 Forsetningar = Præpositioner 44 46 Persónufornöfn

Læs mere

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis 3. Hjemmet Í þemanu er m.a. fjallað um Helstu tegundir húsnæðis. Húsgögn, húsbúnað og annað sem tilheyrir heimili. Framtíðarheimilið. Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Ræða

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014 SMIL b KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig b NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 5 Jagten på berømmelse...

Læs mere

E"irgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl Fyrir þig Il fróðleiks

Eirgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl Fyrir þig Il fróðleiks E"irgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl. 13-16 Fyrir þig Il fróðleiks Ásmundur G. Vilhjálmsson SkaOalögfræðingur Inngangur Við e"irgjöf kröfu þarf skuldari ekki að

Læs mere

Skilyrði 248. gr. alm. hgl. og meginflokkar fjársvika

Skilyrði 248. gr. alm. hgl. og meginflokkar fjársvika Elisabeth Patriarca Skilyrði 248. gr. alm. hgl. og meginflokkar fjársvika -BA ritgerð til BA prófs í lögfræði - Umsjónarkennari: Ásta Stefánsdóttir, aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur Lagadeild

Læs mere

Guðný Sigríður Sigurðardóttir. 1. Fræðileg umfjöllun Barnabókmenntir Þjóðsögur og ævintýri Fantasía...7

Guðný Sigríður Sigurðardóttir. 1. Fræðileg umfjöllun Barnabókmenntir Þjóðsögur og ævintýri Fantasía...7 Efnisyfirlit Ágrip 2 Inngangur...3 1. Fræðileg umfjöllun.4 1.1 Barnabókmenntir.... 4 1.2 Þjóðsögur og ævintýri......5 1.3 Fantasía...7 2. Myndabækur...8 2.1 Upphaf myndabók....8 2.2 Myndabókin og samspil

Læs mere

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0)

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) NAME 1.0 Handbók The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) Åse Brandt Charlotte Löfqvist John Nilsson Kersti Samuelsson Tuula Hurnasti Inga Jónsdóttir Anna-Liisa Salminen Terje Sund Susanne Iwarsson

Læs mere

Um endurupptöku samkvæmt stjórnsýslurétti

Um endurupptöku samkvæmt stjórnsýslurétti Meistararitgerð í lögfræði Um endurupptöku samkvæmt stjórnsýslurétti Gísli Davíð Karlsson Umsjónarkennari: Kristín Benediktsdóttir lektor Júní 2014 Meistararitgerð í lögfræði Um endurupptöku samkvæmt stjórnsýslurétti

Læs mere

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku Hugmyndir að kveikju: Umræða um myndina í lesbókinni bls. 30 fremst í þemanu. Umræður: Hvem ved noget om dansk mad? Hvad kender

Læs mere

Efni: Umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp frumvarp til laga um lyfjalög (heildarlög, EES-reglur), 677. mál.

Efni: Umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp frumvarp til laga um lyfjalög (heildarlög, EES-reglur), 677. mál. Nefndasvið Alþingis Velferðarnefnd 150 Reykjavík Reykjavík, 6.7.2016 Tilvísun: 0.5.1.2 / Málsnúmer: 2016050258 Efni: Umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp frumvarp til laga um lyfjalög (heildarlög, EES-reglur),

Læs mere

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?...

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?... Efnisyfirlit Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar..................... 2 Yfirlit........................................................ 7 Málverk segir sögu.............................................

Læs mere

1. mgr gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940: Inntak og varnaðaráhrif

1. mgr gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940: Inntak og varnaðaráhrif Meistararitgerð í lögfræði 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940: Inntak og varnaðaráhrif Emil Sigurðsson Leiðbeinandi: Jón H.B. Snorrason Júní 2014 ÚTDRÁTTUR Inntak 1. mgr. 106. gr. hgl.

Læs mere

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018 B FYR LØS TAK FYR LØS B Efnisyfirlit 5 Fra barn til voksen Fyr løs 1 Mobilløb... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Den øde ø... 6 Opgaveblad 2 6 Vi er alle forskellige Fyr løs 3 Hvilken person mangler der på billedet?...

Læs mere

Kárahnjúkavirkjun. Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið Unnið fyrir Landsvirkjun. Gerður Guðmundsdóttir

Kárahnjúkavirkjun. Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið Unnið fyrir Landsvirkjun. Gerður Guðmundsdóttir LV-2009/003 Kárahnjúkavirkjun Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið 2008 Janúar 2009 Kárahnjúkavirkjun Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði

Læs mere

Gagnkvæmnisskilyrðið við skuldajöfnuð

Gagnkvæmnisskilyrðið við skuldajöfnuð Gagnkvæmnisskilyrðið við skuldajöfnuð Innan skipta og utan BA-ritgerð í lögfræði Steinunn Pálmadóttir Lagadeild Félagsvísindasvið Umsjónarkennari: Heiðar Ásberg Atlason Júní 2013 Steinunn Pálmadóttir Gagnkvæmnisskilyrðið

Læs mere

Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar

Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar Magnús Karel Hannesson Aðalfundur SASS 16. október 2009 Höfn í Hornafirði SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA Samband Samband íslenskra íslenskra sveitarfélaga sveitarfélaga

Læs mere

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Efni Einelti 3 Yfirlit 4 Hvað er einelti? 4 Aðferðir 6 Hvernig má greina einelti? 6 Hvernig veit yfirmaður að einelti sé til

Læs mere

Fluer i hovedet. Sammenligning af danske og islandske idiomer. Björg Ólínudóttir 16 MÁLFRÍÐUR. Hvad forstår vi ved idiomer?

Fluer i hovedet. Sammenligning af danske og islandske idiomer. Björg Ólínudóttir 16 MÁLFRÍÐUR. Hvad forstår vi ved idiomer? 16 MÁLFRÍÐUR Björg Ólínudóttir Fluer i hovedet Sammenligning af danske og islandske idiomer Björg Ólínudóttir Björg Ólínudóttir er kennari í dönsku við Menntaskólann við Sund og Iðnskólann í Hafnarfirði.

Læs mere

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám.

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Námsstíll Læra að læra Læra með stíl Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Öll getum við lært séu okkur búin skilyrði til þess en

Læs mere

MACC ritgerð Reikningshald og endurskoðun. Þagnarskylda endurskoðenda

MACC ritgerð Reikningshald og endurskoðun. Þagnarskylda endurskoðenda MACC ritgerð Reikningshald og endurskoðun Þagnarskylda endurskoðenda með tilliti til 30. gr. laga nr. 79/2008 um löggilta endurskoðendur Jórunn K. Fjeldsted Leiðbeinandi: Þórður Reynisson, LL.M Ábyrgðarmaður:

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur. ondansetrón

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur. ondansetrón Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur ondansetrón Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru

Læs mere

Réttur tjónþola til endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegt líkamstjón

Réttur tjónþola til endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegt líkamstjón Fannar Freyr Ívarsson Réttur tjónþola til endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegt líkamstjón - BA ritgerð í lögfræði - Umsjónarkennari: Grímur Sigurðsson, LL.M., hrl. Lagadeild Háskóla Íslands

Læs mere

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Efnisyfirlit Til kennara................................. 3 Uppbygging efnisins............................ 3 Markmið..................................

Læs mere

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Sigrún Helga Kristjánsdóttir og Valdís Ingimarsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari:

Læs mere

Tengsl kaupmanna Almenna verslunarfélagsins og Íslendinga

Tengsl kaupmanna Almenna verslunarfélagsins og Íslendinga Hugvísindasvið Tengsl kaupmanna Almenna verslunarfélagsins og Íslendinga 1763-1774 Ritgerð til B.A.-prófs Björn Rúnar Guðmundsson Júní 2009 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Sagnfræði Tengsl kaupmanna Almenna

Læs mere

Bætur fyrir þvingunarráðstafanir á grundvelli 228. gr. laga um meðferð sakamála

Bætur fyrir þvingunarráðstafanir á grundvelli 228. gr. laga um meðferð sakamála ML í lögfræði Bætur fyrir þvingunarráðstafanir á grundvelli 228. gr. laga um meðferð sakamála Hvernig er fjárhæð miskabóta vegna þvingunarráðstafana ákveðin hjá dómstólum? Nafn nemanda: Hanna Guðmundsdóttir

Læs mere

Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1

Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1 Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1 Efnisyfirlit Messing, nýsilfur, kopar, ál...3 Silfur...3 Blý...3 Tinklumpar...3 Tinþráður...4 Suðuteinar...4 Rör...4 Silfurslaglóð...4 Flúx...5 Teinar...5 Slípimassi,

Læs mere

Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð

Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð Félagsvísindastofnun HÍ og Rannsóknarstofnun KHÍ Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð Unnið fyrir Menntamálaráðuneytið Skýrslugerð: Allyson Macdonald Andrea G. Dofradóttir

Læs mere

Fyrirspurnir vegna hugmyndasamkeppni um umhverfi Norrænahússins. Spørgsmål vedrørende idékonkurrence om Nordens Hus omgivelser oversat til Dansk

Fyrirspurnir vegna hugmyndasamkeppni um umhverfi Norrænahússins. Spørgsmål vedrørende idékonkurrence om Nordens Hus omgivelser oversat til Dansk Reykjavík 09. Febrúar 2012 Fyrirspurnir vegna hugmyndasamkeppni um umhverfi Norrænahússins Spørgsmål vedrørende idékonkurrence om Nordens Hus omgivelser oversat til Dansk Nr. 1 Alle spørgsmål er oversat

Læs mere

Jöfn umgengni í framkvæmd

Jöfn umgengni í framkvæmd Jöfn umgengni í framkvæmd Helga Sigmundsdóttir Hrefna Friðriksdóttir Lagadeild Ritstjóri: Kristín Benediktsdóttir Rannsóknir í félagsvísindum XIV. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2013 Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Læs mere

1. tbl. 31. árgangur Málgagn móðurmálskennara

1. tbl. 31. árgangur Málgagn móðurmálskennara Skíma 1. tbl. 31. árgangur 2008 Málgagn móðurmálskennara Blóm gleðja Mikið úrval af fallegri gjafavöru, listmunum og blómum Góð og persónuleg þjónusta Opið til kl. 21 mynd: auja.net Skíma Ritstjóri og

Læs mere

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Dómaraheimild Heimild til að dæma sameiginlega forsjá Rök með og á móti Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Maí 2008 Efnisatriði 1. Inngangur... 2 2. Nefndarálit allsherjarnefndar

Læs mere

Við Kárahnjúka og önnur kennileiti

Við Kárahnjúka og önnur kennileiti Við Kárahnjúka og önnur kennileiti Bók þessi er gefin út í 250 eintökum. Matthías Johannessen Við Kárahnjúka og önnur kennileiti Helgispjall ÁRVAKUR HF. Við Kárahnjúka og önnur kennileiti - Helgispjall

Læs mere

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 Pósthólf 8100 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir

Læs mere

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ Karen Björnsdóttir 16. maí 2014 BA í lögfræði Höfundur: Karen Björnsdóttir Kennitala: 050989-2409 Leiðbeinandi: Heiða Björg Pálmadóttir Lagadeild School of Law

Læs mere

Leyfileg mörk neyðarvarnar samkvæmt 12. gr. laga nr. 19/ BA-ritgerð í lögfræði - Kristjana Pálsdóttir

Leyfileg mörk neyðarvarnar samkvæmt 12. gr. laga nr. 19/ BA-ritgerð í lögfræði - Kristjana Pálsdóttir Leyfileg mörk neyðarvarnar samkvæmt 12. gr. laga nr. 19/1940 - BA-ritgerð í lögfræði - Kristjana Pálsdóttir Lagadeild Félagsvísindasvið Umsjónarkennari: Kjartan Ólafsson Júní 2013 Kristjana Pálsdóttir

Læs mere

Saga ferðaþjónustu á Íslandi. Sigurveig Jónsdóttir Helga Guðrún Johnson ÞAÐ ER KOMINN GESTUR

Saga ferðaþjónustu á Íslandi. Sigurveig Jónsdóttir Helga Guðrún Johnson ÞAÐ ER KOMINN GESTUR Saga ferðaþjónustu á Íslandi Sigurveig Jónsdóttir Helga Guðrún Johnson ÞAÐ ER KOMINN GESTUR það er kominn gestur Sigurveig Jónsdóttir Helga Guðrún Johnson það er kominn gestur Saga ferðaþjónustu á Íslandi

Læs mere

Sjálfsprottinn söngur barna

Sjálfsprottinn söngur barna Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík Grunndeild Leikskólabraut fjarnám 2007 Sjálfsprottinn söngur barna Elisabeth Hauge Lokaverkefni til 90 eininga B.Ed.-prófs Leiðsögukennari: Sigríður Pálmadóttir Efnisyfirlit

Læs mere

Kröfusamlag stefnanda og gagnkröfur stefnda samkvæmt 27. og 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

Kröfusamlag stefnanda og gagnkröfur stefnda samkvæmt 27. og 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála BA-ritgerð í lögfræði Kröfusamlag stefnanda og gagnkröfur stefnda samkvæmt 27. og 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála Árni Páll Jónsson Ari Karlsson Júní 2014 BA-ritgerð í lögfræði Kröfusamlag

Læs mere

Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu

Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu Þorkell Jóhannesson dr.thorkell@simnet.is Höfundur er læknir, prófessor úr embætti. Stungulyf Innrennslislyf: Skilgreiningar

Læs mere

Handrukkun. og almenn hegningarlög nr. 19/ Meistararitgerð til Mag. jur. prófs í lögfræði - Pétur Bjarki Pétursson

Handrukkun. og almenn hegningarlög nr. 19/ Meistararitgerð til Mag. jur. prófs í lögfræði - Pétur Bjarki Pétursson Handrukkun og almenn hegningarlög nr. 19/1940 - Meistararitgerð til Mag. jur. prófs í lögfræði - Pétur Bjarki Pétursson Lagadeild Félagsvísindasvið Leiðbeinandi: Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari Október

Læs mere