Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir

Størrelse: px
Starte visningen fra side:

Download "Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir"

Transkript

1 Börn og sorg Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar Ragnheiður Guðjónsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Apríl 2010

2 Lokaverkefni til B.Ed Börn og sorg Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar Ragnheiður Guðjónsdóttir Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, leikskólakennarafræði Apríl 2010

3 Leiðbeinandi: Sigurður Pálsson

4 Ágrip Í þessari ritgerð er fjallað um hvaða hugmyndir börn á leikskólaaldri gera sér um dauðann og hvernig þau upplifa fráfall náinna ættingja. Einnig er rætt um hvaða áhrif alvarleg veikindi náinna ættingja hafa á börnin. Hér er fjallað um hvernig best sé að hjálpa þeim að takast á við þessi áföll. Auk þess er rætt um leiðir til þess að gera leikskólabörn betur í stakk búin til að takast á við alvarleg áföll á borð við það að missa foreldri. Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru eftirfarandi: Rannsóknir hafa sýnt fram á að ef börnum er sagt satt um dauðsföll eða veikindi, þau fá að sjá hinn látna/veika og fá hlutverk í sorgarferlinu hjálpar það þeim að takast á við sorgina. Ekki síst vegna þess að það dregur úr ranghugmyndum þeirra. Hægt er, á heimilum og í leikskólum, að undirbúa börn fyrir alvarleg áföll með fræðslu um lífið og dauðann.

5 Efnisyfirlit 1 Inngangur Þroski Málþroski Tilfinningaþroski: Barnið og sorgin Skilningur barna á dauðanum Viðbrögð Samskipti við börn þegar foreldrar þeirra eru alvarlega veikir Umgjörð og fræðsla Undirbúningur Trúmál Sjálfsígrundun Hugmyndir af vinnuferli Vinnufyrirkomulag Náttúruskoðun/Útinám Bækur Að grípa tækifærið Barnsfæðing Gæludýr Heimsókn í kirkjugarð Niðurlag Heimildaskrá

6 1 Inngangur Fátt er jafn sársaukafullt og að missa vini og ættingja. Undan þeim sársauka er ekki hægt að komast en hægt er að gera ýmislegt til þess að gera sorgarferlið auðveldara. Sú vinna er í eðli sínu fyrst og fremst á hendi syrgjandans en vinir, ættingjar og fagaðilar geta hjálpað hinum syrgjandi inn á brautir sem gera honum auðveldara að fá útrás og til að hann vinni úr reynslunni á sem jákvæðastan máta. Starfi leikskólakennarans fylgir án undantekninga umönnun og menntun barna sem þurfa að ganga í gegnum veikindi og/eða missi foreldris eða náins ættingja. Þrátt fyrir það er lítil áhersla á þennan þátt í leikskólastarfinu. Margir leikskólakennarar hafa litla þekkingu og æfingu í að sinna barni og fjölskyldu þess við slíkar aðstæður þó svo að nokkuð hafi áunnist í þeim málum á síðustu árum. Vegna þessa eru kennarar oft mjög óöruggir þegar þeir þurfa að styrkja barn sem þarf að ganga í gegnum þrengingar í lífinu. Börnin eru næm á þetta og getur óöryggi kennarans gert þau óróleg. Í sumum skólum er skipulögð áfallahjálp til staðar en jafnvel þar skortir starfsfólkið oft þekkingu og reynslu. Það er því æskilegt að umfjöllun um sorg, veikindi og dauða fái meira vægi í íslenskum leikskólum. En hvernig? Hvaða ráð á að gefa foreldrum og hvernig er rétt að tjá sig við barn sem verður fyrir missi eða á veika foreldra, hversu mikið er æskilegt að barnið viti, hvenær og hvernig er best að segja barninu frá alvarleika málsins? Er einhvern tímann rétt að segja barni ósatt? Í þessari ritgerð er reynt að svara þessum spurningum. Samfara því er fjallað um hvernig börn skynja dauðann og komið með tillögur um hvernig leikskólar geta unnið í samvinnu við foreldra að því að undirbúa leikskólabörn fyrir það að takast á við sorg vegna veikinda og/eða fráfalls foreldris eða náins ættingja. Það eru persónulegar ástæður fyrir því að ég ákvað að fjalla um þetta efni. Ég missti manninn minn fyrir tuttugu árum. Synir okkar voru þá ungir. Það reyndist mér erfitt hversu lítið ég vissi um hvernig þeir skynjuðu veikindi og dauða föður síns. Ég fann hvað ég var vanmáttug og hversu kunnátta mín var lítil um það hvernig best væri að hlynna að þeim og styrkja til að gera missinn léttbærari. Einnig skynjaði ég hvað fólk var feimið og óöruggt að ræða um mál sem tengdust dauðanum, bæði gagnvart mér og drengjunum. Ég tel að tregða samfélagsins til að tala um dauðann við börn geri sorgarferlið erfiðara en það þarf að vera. Börn skynja dauðann ekki á sama hátt og fullorðnir og 4

7 hafa oft ranghugmyndir sem gera þau hrædd og kvíðin. Ég tel að hægt sé að draga úr slíkum ranghugmyndum með markvissri fræðslu í leikskólum. Hér eru færð rök fyrir því. 2 Þroski Í þessum kafla ætla ég að fjalla um málþroska og tilfinningaþroska. Þessir þroskaþættir skipta miklu máli þegar barn þarf að ganga í gegnum þrengingar í lífinu. Mikilvægt er að þeir sem vinna með börn hafi þekkingu á því hver þroski barnsins er. Því án hennar er erfiðara að lesa í hegðun og atferli barnsins. Rétt túlkun á þessum þáttum er forsenda þess að hægt sé að hjálpa börnum sem verða fyrir missi. Góð þekking kennara á þroska barna er líka forsenda þess að fræðsla um dauðann gagnist börnunum. 2.1 Málþroski Hér er fjallað um málþroska tveggja til sjö ára barna. Með auknum málþroska eykst samskiptafærni barnsins og hæfni þess til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar. Ulla- Britta Bruun segir í bók sinni Förskolealderens psykologi að Arnold Gesell telji að barn á þriðja ári ráði yfir tvö til þrjú hundruð orðum. Algengt er að barnið spyrji spurninga á borð við: Hvað er þetta?, hlusti á svarið og endurtaki svarið. Gesell segir að barn á fjórða ári hafi tök á allt að eitt þúsund orðum og það geti sagt frá einföldum hlutum á sinn hátt. Það notar ennþá: Hvað er þetta? En núna er það fyrst og fremst gert til þess að auka orðaforðann og æfa málnotkun. Skilningur barnsins helst í hendur við þá reynslu sem það hefur aflað sér. Þegar barnið er á fimmta ári eru framfarirnar hvað örastar í máltökunni. Það spyr sömu spurninga aftur og aftur til að máta við mismunandi samhengi. Það getur verið erfitt að skilja hvað barnið er að segja og hvað það er að meina. Mörkin á milli hins ímyndaðar heims og hins raunverulega eru svo ruglingsleg á þessum aldri. Skilningurinn á orsök og afleiðingu eykst á þessu aldursskeiði. Setningaskipan hjá barni á sjötta ári er nokkuð góð og talsmátinn orðinn fullorðinslegri. Það spyr álíka mikið og áður, en nú er það fyrst og fremst til að afla sér þekkingar (Bruun, 1977:42,50,58,65). Þetta eru auðvitað einungis viðmið og ber að gæta þess að börn eru misfljót til máls og sum með 5

8 framburðarörðugleika. Huga verður vel að þeim því þau þurfa oft lengri tíma til að tjá sig og þau sem eru sein til máls eru lengur að skilja það sem um er rætt. 2.2 Tilfinningaþroski: Svisslendingurinn Jean Piaget telur að hugsun mótist mjög af þroska taugakerfisins. Því verða röð þroskastiga óbreytanleg og ekki unnt að sleppa úr stigi. Piaget segir að börn á aldrinum 0 16 ára fari í gegnum fjögur þroskastig (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:159). 0-2 ára skynhreyfistig, 2-7 ára foraðgerðastig, 7-12 ára hlutbundnar aðgerðir, ára formlegar aðgerðir. Á foraðgerðastigi kemur táknbundin hugsun fram en sjálflægni einkennir hugsun barnsins. Að mati Piaget ræður barnið ekki enn yfir færni til að draga ályktanir þrátt fyrir að það hafi þær upplýsingar sem til þarf (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:159). Leikskólaaldurinn er frá eins til sex ára. Þá er barnið sjálflægt í hugsun og ber talmál þess vitni um það. Því finnst engin ástæða til að færa rök fyrir máli sínu gerir sér ekki grein fyrir því að það sé til önnur afstaða en þess eigin. Börn á þessum aldri tala mikið um það sem þau eru að gera en á ófélagslegan hátt. Telur Piaget það stafa af því að þau eiga erfitt með að setja sig í spor annarra. Það er einungis þegar þau spyrja spurninga og skipa fyrir sem þau reyna að gera sig skiljanleg (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:163). Hérna er dæmi til að skýra þetta betur. Tvær stelpur fjögurra ára í mömmuleik tala mikið um hvað þær eru sjálfar að gera. Önnur segir: Ég ætla að fara út í búð, setja brúðuna í vagninn og svo framvegis. Hin segir: Ég er að baka köku, viltu fá? Hún bíður ekki eftir svari, það skiptir ekki máli. En þegar hún vill fá brúðuvagninn til þess að setja dúkkuna sína í þá snýr hún sér að hinni stelpunni og segir ákveðið: Ég vil fá vagninn fyrir dúkkuna mína. Og núna bíður hún eftir svari. Á foraðgerðarstigi persónugera börnin hlutina. Þau álíta að allir hlutir séu lifandi og að heimurinn sé búinn til fyrir þau (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:164). Til gamans ætla ég að koma með nokkur dæmi hvernig börn svöruðu þegar þau voru spurð: Til hvers er snjórinn? 6

9 Hlynur (4ra ára): Til að renna sér. Kristín Edda (4ra ára): Til að renna sér og búa til snjóbolta. Haraldur (3ja ára): Til að fólk detti á hausinn og til að renna sér. Þegar lítill drengur heyrði ömmu sína segja að hún væri farin að eldast þá sagði stráksi: Nei, amma mín, þú ert ekki gömul, ég er ekki búinn að eiga þig svo lengi. (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:164). Í ljósi þess hversu barnið er sjálflægt á þessum aldri er ekki undarlegt að barn finni fyrir spennu í líkamanum sem það ræður ekki við þegar það fær ekki óskir sínar uppfylltar (Bruun, 1977:111). Barn getur átt það til að bíta leikfélaga sinn ef það fær ekki leikfangið sem það vill fá. Það ræður ekki við spennuna í líkamanum sem neitunin framkallar. Í bókinni Førskolealderens psykologi segir að fræðimenn séu ekki sammála um það hvort tilfinningaþróun stafi af þroska eða lærdómi. Þar kemur einnig fram að Gesell leggur mikla áherslu á þroska og heldur því fram að þróun tilfinninga sé eins og öll önnur þróun háð þroska einstaklingsins og ákveðin tilfinningamynstur séu fyrirfram ákveðin. Aðrir halda því aftur á móti fram að þróun tilfinninga sé aðallega afleiðing af lærðri hegðun. Rannsóknir á börnum hafa sýnt fram á að hræðsla er lært atferli. Tveggja ára barn veit ekki að snákur geti verið hættulegur en eldri börn hafa lært að hann geti verið það og hræðast hann af þeim sökum (Bruun, 1977:113). Ég hallast nú frekar að því að tilfinningar séu að miklu leyti lært atferli. Þó verðum við sennilega að vera búin að öðlast ákveðinn þroska til að vera fær um að vinna úr reynslu sem er líkleg til að móta tilfinningarnar. Hræðsla er ónotaleg tilfinning og ekki síst fyrir ung börn sem vita ekki hvernig þau eiga að yfirvinna hana. Í bókinni Førskolealderens psykologi segir Ulla-Britta Bruun frá rannsókn á þriggja ára barni sem var hrætt við mýs og kanínur. Komið var með dýrin þegar barnið var að borða og á stað sem það þekkti og leið vel á. Smám saman voru dýrin færð nær barninu og með tímanum yfirvann barnið óttann. Þarna var tekin áhætta því ef þetta hefði ekki tekist hefði barnið mögulega getað fært óttann yfir á máltíðina (Bruun, 1977:114). Hægt er að draga þá ályktun að fyrir barnið skipti það máli að það sé á stað sem það þekkir og finnur til öryggiskenndar á þegar það þarf að takast á við erfiðleika. Þróun tilfinningaþroskans er mishröð og mjög ólík hjá börnum. Ræðst hann mikið af uppeldisaðstæðum. Mikilvægt er að kennarinn hugi vel að þessum þáttum þegar hann þarf að styðja barn í sorg eða þegar hann vill undirbúa börn fyrir missi. 7

10 3 Barnið og sorgin. 3.1 Skilningur barna á dauðanum. Ungbarn er háð umhyggju og umönnun foreldra sinna, þar finnur það til öryggis og byggir allt sitt traust á þeim. Aðskilnaður frá foreldrum í lengri tíma getur valdið barninu svipuðum tilfinningum og þegar hinn fullorðni verður fyrir sorg vegna dauðsfalls. Í byrjun mótmælir barnið aðskilnaðnum kröftuglega en með tímanum getur það orðið sinnulaust. Það sefur meira en áður en vaknar aðeins til að borða. Smám saman fer barninu að líða betur og það nær að tengjast á ný en tengslamyndunin er ekki eins djúp. Ef foreldrarnir koma til baka er alveg eins víst að það eigi erfitt með að taka þau í sátt aftur strax. Áhrif aðskilnaðar á barn getur haft varanleg áhrif á barnið í lengri eða skemmri tíma (Tamm, 1986:3-4). Börn á aldrinum tveggja til fjögurra ára eiga erfitt með að skilja hvað dauði er. Þau telja að allt sem hreyfist sé lifandi, t.d. grasið og blómin sem vindurinn hreyfir, en allt annað dautt eða sofandi. Börnin telja sig geta haft áhrif á umhverfi sitt því þau trúa á töframátt hugans og nota ímyndun yfir það sem þau skilja ekki. Þau telja dauðann tímabundið ástand og því ekki ástæða til að óttast hann. Sonur minn sem var rétt rúmlega þriggja ára þegar faðir hans dó spurði mánuði síðar: Mamma hvenær kemur sjúkrabílinn aftur með hann pabba? Þetta var alveg rökrétt í hans huga því hann heyrði sagt að núna liði pabba vel. Aftur á móti vissi bróðir hans sem var sjö ára að þetta var endanlegt ástand. Þegar barnið finnur dauð dýr t.d. fugl, snák eða mús gefur það þeim tækifæri til að spyrja spurninga og kafa dýpra: Getur læknirinn vakið hundinn sem dó til lífs á ný? Getur snákurinn sem kramdist undir fætinum mínum lagst svo hann verði lifandi aftur? Þau sanka að sér upplýsingum og með tímanum færa þau þær yfir á manneskjuna. Barnið sér ef til vill fullorðna fólkið gráta af sorg og heyrir það tala um dauðann. Með tímanum öðlast það með innsæi sínu skilning á að í tilverunni sé kraftur sem brýtur niður lífið og fullorðnir kalla dauða (Tamm, 1986:4-6). Upp úr fimm ára aldrinum fær barnið smá saman skilning á því að dauðinn er óafturkallanlegur og endanlegur. Þau sýna gjarnan sterk tilfinninga- og sorgarviðbrögð (Álfheiður Steinþórsdóttir og Guðfinna Eydal, 1996:189). Á aldurskeiðinu fjögurra til sjö ára ganga börnin í gegnum mikið þroskastökk bæði líkamlega og andlega. Velta alvarlega fyrir sér tilverunni og spyrja og vilja að þeim 8

11 sé svarað. Hvers vegna deyr fólk? Deyja allir? Hvert fara þeir? Börnin skynja að það var líf áður en þau fæddust. Hvar var ég? spurði systurdóttir mín fimm ára þegar hún var að skoða fjölskyldualbúmið og sá að hana vantaði á myndina. Stuttu síðar sagði hún: Ég var að púsla uppi hjá Guði. Það er stundum sagt að börn gangi í gegnum fyrstu tilvistarkreppuna á þessum aldri. Þau fara að óttast dauðann og er því mikilvægt að hlusta eftir því hvað barnið er að spyrja um og reyna að svara eða leiða samtalið áfram með leiðandi spurningum og taka þátt í þeirra umhugsunarefnum. Þau telja þó ekki að þau sjálf geti dáið þrátt fyrir að vita að önnur börn geti það. En það getur blundað í þeim hræðsla. Stundum eiga þau erfitt með að sofna því þau eru að hlusta á hjartsláttinn. Þetta gera þau vegna þess að þau vita að hjartað hættir að slá þegar einhver deyr. Þau eru einnig hrædd við að vera yfirgefin en það er það sem þau hræðast mest á þessum aldri. Þau vilja því oft ekki vera skilin ein eftir meðan þau eru að sofna. Börnin glíma við ýmisleg vandamál og mikilvægt að sýna þeim skilning. Rannsóknir sýna það að öll börn á þessum aldri trúa á líf eftir dauðann (Sigurður Pálsson, 1998:63-66,69). Það auðveldar þeim að hugsa um dauðann, tilhugsunin um hann verður þá ekki eins sár og vonin um að hitta hinn látna aftur huggar þau. 3.2 Viðbrögð Aldur og þroski barnsins ræður miklu um fyrstu sorgarviðbrögðin. Þroskinn ræður því einnig hvort barnið telji dauðann vera varanlegt eða skammtíma ástand. Það getur efast um að upplýsingarnar séu réttar og mótmælt þeim. Oft sýnir barnið lítil viðbrögð þó að það hafi grátið hátt og lengi þegar það missti gæludýrið sitt stuttu áður. Sorg hinna fullorðnu getur haft lamandi áhrif á barnið og leitt til þess að því finnist það hálfpartinn utanvelta. (Tamm, 1986:60). Þegar ég sagði syni mínum sem þá var sjö ára að pabbi hans væri dáinn eftir erfið veikindi, veinaði hann í stuttan tíma en þagði svo. Hann vaknaði svo morguninn eftir með hálsbólgu og þagði. Viðbrögð hans næstu vikurnar voru lítil, hann var eins og hann væri hálf lamaður. Hann gerði litlar kröfur fyrir sig en sýndi yngri bróður sínum mikla umhyggju og var mjög nærgætinn við mig. Það er best fyrir barnið að sá sem flytur sorgartíðindi sé því sem nákomnastur. Ef um missi foreldris er að ræða er æskilegt að eftirlifandi foreldri geri það. Börn eru mjög ólík hvað varðar þroska og skapferli. Þar af leiðandi er ekki til nein ein rétt leið 9

12 til þess að segja barni frá dauða ættingja og vina. Þó eru eftirfarandi ráðleggingar almennt gagnlegar.velja skal stað sem hægt er að vera með barninu í næði, taka barnið í fangið eða halda utan um það. Líkamleg snerting skapar öryggiskennd. Vanda sig og hafa smá formála eins og: Sorglegur atburður átti sér stað, þú verður að undirbúa þig undir slæmar fréttir. Velja orðin svo að þau valdi ekki misskilningi hjá barninu. Varast ber setningar á borð við: Hún amma þín er sofnuð svefninum langa eða Guð tók hana mömmu þína. Barnið þekkir það að sofna og vakna aftur en núna fær það þær upplýsingar að amma vakni ekki aftur. Það gæti því spurt sig: Getur verið hættulegt að sofna? Hvers vegna tók Guð mömmu frá mér? Hann hlýtur að vera slæmur (Sigurður Pálsson, 1998:16-17). Í greininni Karakteristiske reaksjonsmønstre hos barn i kriser segir Aud Fossen að afneitun sé þau viðbrögð sem er hægt að búast við þegar barn stendur frammi fyrir sársaukafullum aðstæðum. Þegar barni er greint frá að foreldri þess sé látið geta viðbrögðin verið lítt merkjanleg. Barnið neitar að viðurkenna missinn sem endanlegan og huggar sig með því að leita inn í ímyndaðan heim (Fossen, 1983:10-11). Hafa verður í huga þroska barnsins og hvað það getur meðtekið. Með því að láta barn endurtaka það sem því hefur verið sagt er hægt að finna út hvað það hefur skilið og gefa barninu tækifæri til að tjá sig. Erfitt er fyrir barn að meðtaka mikið í einu því er æskilegt að tala oftar og stutt í einu við barnið. Það fer ef til vill í burt og leikur sér en kemur svo til baka og til að halda samtalinu áfram. Á þennan hátt fær barnið tíma til að vinna úr þeim upplýsingum sem það hefur fengið og til að raða saman hlutunum. Sársaukinn getur verið svo yfirþyrmandi fyrir barnið að það reynir að finna upp á einhverju skemmtilegu til að ýta sorginni burt. Getum við fengið kött? sagði stúlka til dæmis eftir að hún frétti að faðir hennar hefði dáið (Fitzgerald, 1992:54). Barnshugurinn virðist finna leið til að lina sársauka og veita huganum næði til að melta og vinna úr upplýsingum. En þegar barn grætur ákaft verður að leyfa því að gráta út í ró og næði því það gerir barninu gott, þó að það sé erfitt fyrir fullorðna að hlusta á barnið. Öllu skiptir að einhver sé til taks til að sinna því þegar það hefur þörf fyrir að spyrja (Sigurður Pálsson, 1998:17). Mikilvægt er að leyfa barninu að tala sjálfu til að það geti fengið útrás. Það þarf á þolinmóðum og hjartahlýjum hlustanda að halda sem tekur það alvarlega, veitir því öryggi og hreinskilin svör. 10

13 3.3 Samskipti við börn þegar foreldrar þeirra eru alvarlega veikir. Sá tími sem líður frá því að sjúklingur veikist og þar til hann deyr er mjög mislangur og einnig misjafnt hvernig sjúkdómurinn þróast. Þegar um langan aðdraganda er að ræða vaknar sú spurning hvort það lengi bara ekki kvölina fyrir barnið ef það veit snemma um yfirvofandi dauða foreldris. Getur það ekki skyggt á hamingju barnsins? Margir velta fyrir sér hvort það sé slæmt fyrir barn að fylgjast með dauðvona sjúklingi og hvort ekki sé betra fyrir barnið að geyma minninguna um foreldri sitt þegar það var hraust en þegar það var sem veikast. Það er líka algengt að fólk hugsi með sér að það sé alltaf möguleiki á því að sá sem er veikur fái heilsuna á ný og það sé engin ástæða til þess að valda barninu óþarfa vanlíðan ef þetta lagist nú seinna. Foreldrarnir eru á þessum tímapunkti sjálfir undir miklu álagi og eru ef til vill ekki tilbúnir að horfast í augu við hvað veikindin eru alvarleg og þær miklu breytingar sem þau hafa í för með sér fyrir fjölskylduna. Þeir verða þó að reyna að horfast í augu við veikindin því barnið er mjög næmt á breytingar eins og fjölgun heimsókna, símhringinga og breytta hegðun foreldranna, það er fljótt að skynja að eitthvað er að og ótti þess getur magnast upp. Barn reynir að geta í eyðurnar og fær oft ranghugmyndir á borð við það að pabbi sé á spítala vegna þess að honum þyki ekki vænt um það (Fitzgerald, 1992:74-75). Það er mjög erfitt fyrir barn að burðast með slíka ranghugmynd, það getur fyllist sjálfsásökun því það finnst sökin vera sín. Börn hafa mjög frjótt ímyndunarafl, eru sjálflæg og trúa á töframátt hugans. Því geta þau haldið að þegar einhver þeim nákomin deyi hafi það verið vegna þess að þau höfðu einhvern tímann óskað þess í bræði. Þau tjá sig ekki um þetta því þau skammast sín. Þetta getur verið þung byrði fyrir barn að burðast með. Það er hægt að taka slíka byrði af börnum ef skýrt er út fyrir þeim að hugsanir geti ekki skaða annað fólk (Tamm, 1986:13). Rannsóknir hafa sýnt fram á að þegar barn fær að vera þátttakandi í veikindunum getur það verið dýrmætt fyrir það. Barn sem hefur fengið að fylgjast með og verið tjáð að veikindin geti leitt til dauða getur hafið sorgarferlið áður en dauðsfallið á sér stað. Oft er hægt að merkja að barn gangi í gegnum slíkan undirbúning. Gerd (8 ára) vissi að faðir hennar var veikur, og hún hafði farið með á sjúkrahúsið. Spurði hún oft um, hvenær pabbi kæmi heim. Dag einn svaraði mamma hennar að hann kæmi ef til vill ekki heim aftur, og hún útskýrði fyrir 11

14 henni hvers vegna. Næsta dag teiknaði Gerd kirkjugarð, tvær grafir, hún hafði misst yngri systur nokkrum árum fyrr, kross og prest og á grafirnar skrifaði hún nöfn systur sinnar og föður síns. Móðurinni fannst þetta hræðilegt en áttaði sig fljótt, að þetta var aðferð stelpunnar til að skýra það sem hún hafði fengið að vita um framvindu sjúkdómsins. (Dyregrov, 1992:89-90). Þetta sýnir hvað barnið hefur gott af því að tala sé við það á hreinskilinn hátt og að það geti snúið sér að því að vinna sig áfram í sorginni í stað þess að eyða tíma í að ímynda sér eitthvað enn verra. Þegar foreldri liggur á sjúkrahúsi er gott að undirbúa barnið áður en það fer í heimsókn og lýsa því á hverju það geti átt von. Hvernig er umhorfs á sjúkrastofunni, hvernig tækin líta út, hvernig lyktin sé, hvaða hljóð heyrast á spítalanum. Allt getur þetta verið barninu framandi og valdið óöryggi. Æskilegt er að ræða útlit sjúklingsins, einkum ef hann hefur látið á sjá. Það getur verið gott fyrir barnið að koma með gjöf og þá eitthvað sem það hefur valið eða útbúið sjálft. Þannig fær barnið hlutverk sem getur hjálpað því að vinna á öryggisleysinu sem gjarnan fylgir nýjum aðstæðum. Innihald pakkans getur líka skapað umræðugrundvöll og gert heimsóknina þægilega (Fitzgerald, 1992:77-78). Það er mikilvægt fyrir barnið að það fái að umgangast sjúklinginn og það líði ekki langur tími á milli heimsókna. Það gerir barninu kleift að fylgjast með og vera þátttakandi í umönnuninni. Passa verður vel upp á að barnið geri sér grein fyrir að sjúkdómurinn sé ekki smitandi. Best er að segja barninu frá því í góðu tómi og láta barnið endurtaka svo að maður viti hvort það skilji og til að það fái tækifæri til að spyrja. Barnið ætti þá síður að vera hrætt við að faðma og liggja hjá þeim sjúka og sýna með því hluttekningu auk þess að leita sjálft eftir huggun (Fitzgerald, 1992:75). Þegar barn heimsækir sjúkling reglulega getur það fylgst með og gert sér grein fyrir hvert stefnir. Það er jafnframt þátttakandi í ferlinu og hefur hlutverki að gegna. Sá fullorðni getur deilt með barninu hvernig sér leið þegar hann heyrði fréttirnar og svarað spurningum sem barnið vill spyrja. Barnið hefur fremur vilja og getu til að spyrja slíkra spurninga þegar að heimsóknirnar eru margar. Æskilegt er að heimsóknirnar séu stuttar til að þreyta hvorki sjúklinginn né barnið og eins og áður er sagt er mikilvægt er að gefa því tíma til að ræða málin á eftir (Fitzgerald, 1992:76,79-80,82). Áleitnar og einlægar spurningar barna geta valdið öryggisleysi hjá fullorðnum. 12

15 Ekki síst vegna þess að hinir fullorðnu eru oft sjálfir hræddir og eiga eftir að glíma við mikilvægar spurningar (Sigurður Pálsson, 1998:5). Foreldri eða einhver annar nákominn barninu sem tekur að sér að greina því frá veikindunum verður að vera búinn að undirbúa sig vel til að geta svarað spurningum barnsins. Mikilvægt er fyrir fólk að vera hreinskilið og viðurkenna ef það veit ekki svarið, segja: Ég get ekki svarað þessu núna. Ég ætla að hugsa mig um og ég svara þér seinna (Dyregrov, 1992:96). Þó svo að von um bata sé hverfandi er gott að segja barninu að alltaf sé von þó hún sé ekki mikil. Einnig verður að útskýra fyrir barninu að flestir sjúkdómar séu hættulitlir. Forðast verður í lengstu lög að vekja upp óþarfa hræðslu hjá barninu (Dyregrov, 1992:15). Það verður að styrkja barnið eins og kostur er og fullvissa það um að ættingjarnir hugsi um það hvað svo sem framtíðin beri í skauti sér. Ef vel er staðið að málum er hægt að ljúka hluta sorgarferlisins fyrir dauða sjúklingsins og getur það haft í för með sér ákveðinn létti fyrir barnið. Sjö ára stúlka sem átti dauðvona föður sagði rétt fyrir jólin: Væri það ekki gott ef pabbi dæi á jólunum, þegar Jesús fæddist. Þessi stúlka hafði verið þátttakandi í sjúkdómsferli föður síns og sorgarferlið var komið það langt hjá henni að hún var tilbúin að leyfa föður sínum að fara (Fitzgerald, 1992:60). Það ætti ekki einungis mikill léttir fyrir barnið að finna að það er tilbúið að sleppa heldur einnig fyrir eftirlifandi foreldri. Því þá getur það sjálft haldið áfram sínu sorgarferli samhliða barninu. 3.4 Umgjörð og fræðsla Fólk vill almennt gera allt sem það getur til þess að lina þjáningar barns sem þarf að horfast í augu við veikindi eða fráfall foreldris. Freistandi getur því verið að vera eftirgefanlegur við syrgjandi barn. En það getur verið slæmt fyrir barnið. Barninu líður illa, hefur fengið áfall og á erfitt með að skilja hvað er í gangi og finnst sem veröldin hafi hrunið í kringum það. Mikilvægt er fyrir barnið að reynt sé að halda daglegum venjum eins og kostur er. Það veitir barninu öryggi og því finnst síður að allt lífið sé í upplausn (Fitzgerald, 1992:75-76). Í grein sinni Barnehagen som forebyggende barnevern segir Annebjörg Soleim að gott sé fyrir barnið að fara í leikskólann, því það er vant því og það er hvíld fyrir það að komast burt frá heimilinu og fá þá tækifæri til að hitta börn og fullorðna utan heimilisins (Soleim, 1983:51). Barnið hittir vini sína og getur fengið útrás gegnum leikinn án þess að þurfa að hafa áhyggjur. Í skólanum getur barnið leitast við að fá svör við því sem því liggur á hjarta. Í þeim skólum sem markvisst hefur verið rætt 13

16 um að dauðinn sé eðlilegur endir á lífinu og barnið hefur vanist því að tala um þessi mál verður auðveldara fyrir það að tjá sig og leita eftir stuðningi. Ef kennarar hafa aflað sér þekkingar og reynslu á þessu sviði hjálpar það barninu. Þekking og reynsla kennaranna er sennilega einnig hjálpleg fyrir foreldrana og ætti að auðvelda þeim að leita til kennaranna þegar barnið þarfnast aðstoðar í tengslum við veikindi eða missi. Vitneskjan um þetta starf í skólanum ætti að gera foreldra barnanna rólegri og öruggari um að kennararnir hafi þá þekkingu sem þarf til að sinna barninu vel. Eins og áður hefur komið fram er erfitt fyrir foreldri að segja barni sínu frá alvarlegum veikindum eða dauðsfalli. Líklegt er að barn sem hefur tekið þátt í markvissri vinnu í skólanum geti hjálpað foreldri sínu, því það hefur öðlast þekkingu og hefur færni til að spyrja spurninga sem geta leitt samtölin áfram. Samnemendur barnsins ættu að einnig hafa betri skilning og geta stutt barnið án þess að vera of uppteknir af málinu. Í mörgum skólum eru til viðbragðsáætlun sem stuðst er við þegar nemendur verða fyrir eða verða vitni að slysi, veikindum, dauðsfalli eða öðru sem getur valdið áfallastreitu eða sorgarviðbrögðum. Ætla má að þau börn sem eru vön að tala um lífið og að dauðinn sé eðlilegur endir á lífinu hafi víðari sjóndeildarhring en þau sem ekki hafa gert það og því betur undir það búin að takast á við vandamálið. Ömmustelpu vinkonu minnar sem missti pabba sinn þegar hún var sjö ára gömul þótti það erfitt þegar ein skólasystir hennar var sífellt að reyna að hugga hana á ýmsan hátt. Til dæmis með því að segja að mamma hennar gæti nú fengið sér nýjan mann. Skólasystirin vildi vel en kunni ekki réttu aðferðina. Hún skildi ekki að ömmustelpan vildi bara fá að vera í friði í skólanum. Þarna hefðu kennararnir átt að fylgjast með og grípa inn í. Sennilega er hægt að draga úr óheppilegum atvikum á borð við þetta með því að börn venjist því frá unga aldri að rætt sé um dauðann við þau á eðlilegan hátt. Í okkar menningasamfélagi er erfitt að tala um dauðann. Barn finnur fljótt að það þarf að halda aftur af sér. Fullorðið fólk hefur líka tilhneigingu til að vermda barnið frá umræðunni um dauðann. En þar sem dauðinn er eðlilegur endir á lífinu, er það gott fyrir barn að deila spurningum og vangveltum með öðrum um það sem á fyrir okkur öllum að liggja. (Johansson, og Larsson, 1977:43). Alis var rétt fjögurra ára þegar eftirfarandi samtal var skráð. Hún gat talað við foreldra sína um dauðann og þau hlustuðu á hana og biðu með að svara þar til þau 14

17 skildu hana. Það hjálpaði henni til að fá botn í það sem henni lá á hjarta svo gat hún haldið áfram við næsta verkefni. Þessi stúlka lá inni á spítala vegna þess að hún var að fara í smá aðgerð. Alis: Mamma, hvað verður um þá dánu? Pabbi: Þeir dánu eru grafnir niður í jörðina eins og afi og amma. Alis: Já, það er vatn niðri í jörðinni Pabbi: Já, þar sem hinu dánu eru, er bæði hlýtt og gott. Alis: Getur maður tekið eitthvað með sér? Mor: Já, það getur maður áreiðanlega. Alis um leið og hún tekur snuðið út úr munninum: Þá ætla ég örugglega að hafa það með mér. Pabbi og mamma: Það færðu örugglega, ef það ætti að fara að jarða þig, en það verður ekki, því þú verður frísk. Að samtalinu loknu fór hún að leika sér (Jacobsen, 1994:80). Svona eðlileg og afslöppuð samtöl eru góð fyrir barnið. Því það fær hreinskilin svör við þeim spurningum sem því liggur á hjarta. Það er æskilegt að leikskólinn marki sér stefnu og hafi áfallateymi sem fer í gang þegar börn eða starfsmenn leikskólans verða fyrir áfalli. Mikilvægt er að allir starfsmenn skólans séu vel upplýstir. Þegar um er að ræða barn sem á alvarlega veikt foreldri eða látið foreldri, verður að búa til umgjörð kringum það. Gott getur verið að kennarinn á deildinni fari heim til barnsins og myndi þannig nánari tengsl við það og fjölskyldu þess. Það getur auðveldað barninu að snúa sér til kennarans þegar því líður illa. Fyrir barnið geta smáatriði á borð við að fara í gönguferðir þar sem bestu vinir barnsins eru teknir með og að það fái að vera inni í rólegheitunum þegar því líður illa skipt miklu máli. Mikilvægt er að gefa barninu tækifæri til að tjá sig þegar það er tilbúið til þess og passa að barnið fái ekki of mikið áreiti. Einnig er mikilvægt að venjulegri rútínu sé viðhaldið og reglur séu til staðar. Það veitir barninu öryggiskennd í allri óvissunni sem er í kringum það við þessar aðstæður. 15

18 4 Undirbúningur 4.1 Trúmál Trúmál eru alltaf viðkvæm og hafa gegnum aldirnar valdið miklum deilum. Það sem er einum heilagt getur hljómað eins og hver önnur bábilja hjá öðrum. Kennari verður því að skoða hug sinn vel og halda sínum trúarskoðunum fyrir sig. Kærleikur, umhyggja og umburðarlyndi sem að mínu viti ætti að passa inn í flestöll trúarbrögð, eða trúleysi, væri hægt að hafa sem leiðarljós í kennslustundunum. Mikilvægt er fyrir barn að finna kærleika frá öðrum því þá líður því vel. Leiðin til að þroskast ætti að verða auðveldari og meiri líkur á því að barnið getið orðið hamingjusamt og víðsýnt. Kærleikurinn, umhyggjan og umburðarlyndið sem börnin finna hjá kennaranum gæti skila sér áfram til barnanna og svo áfram frá barni til barns. Þetta gæti hjálpað til að girða fyrir það að börn sem á einhvern hátt falla ekki inn í hópinn, t.d. börn af öðru þjóðerni, félagslega einangruð börn eða líkamlega fatlaðir fyndu sig ekki tilheyra hópnum og yrðu utanvelta. Leikskólabörnin koma frá ólíkum heimilum þar sem ólíkir siðir og venjur tíðkast. Flest barnanna tilheyra þó kristinni trú og hafa verið skírð til hennar sem ungabörn. En vægi hennar er mismikið í uppeldi barnanna. Ef kristin trú er ekki hluti af daglegum venjum barns er engin ástæða að kynna hana í tengslum við dauðann. Það getur bara haft ruglandi áhrif á þau (Dyregrov, 1992:87). Þau geta tengt trúna við dauðann og því talið hana tengjast einhverju sem felur í sér sorg og vanlíðan. Barn sem hefur alist upp við kristna uppfræðslu og vanist því að rætt sé um dauðann sem hluta að lífinu á auðveldara með að finna skýringar á ýmsum hlutum sem annars er svo erfitt er að útskýra. Afi drengs dó eftir að hafa verið lasburða um hríð, drengurinn kom til mín og sagði: Hann afi er kominn til Guðs, þar er amma líka. Svo fór hann að byggja úr kubbum en kom svo aftur: Hann er glaður að hitta ömmu. Þetta mildar sorgina fyrir barnið og hjálpar því að finna einhverja skýringu eða tilgang. Það er gott fyrir barn að trúa því að Guð sé til og að hægt sé að leita til hans í sorg og gleði. En þau geta líka verið reið út í hann, skammað hann og spurt spurninga. Þegar sonur minn var þriggja ára spurði hann oft Guð hvers vegna hann hefði svona kalt úti því þá yrði pabba svo kalt þarna uppi hjá honum. Þetta gerði hann þegar við gengum í leikskólann á morgnana. Ef til vill fann hann þarna farveg til að fá útrás fyrir reiðina yfir því að pabbi hans var dáinn. 16

19 Fyrir barn sem hefur fengið trúarlegt uppeldi er gott að vita að það verði aldrei yfirgefið því umhyggja Guðs umvefur það. Segja því að Jesús Kristur taki á móti því þegar það deyi og þá hitti það pabba og mömmu, sem annast það og huggi. Þetta veitir barni trúarlegan stuðning sem hjálpar því þegar það verður fyrir missi. Foreldrar verða að sýna hreinskilni við barn sitt og ekki gefa því aðrar trúarlegar skýringar en þeir sjálfir eru sannfærðir um. Því að misræmið kemur fyrr eða seinna í ljós og getur valdið vanda og vanlíðan (Sigurður Pálsson, 1998:50-51). Þó svo að trúin geti styrkt barnið mikið er rangt hjá foreldrum að gera sér upp trú til að gera sér auðvelda fyrir þegar alvarlegur hlutur kemur upp eins og dauðsfall. Það kemur fyrr eða seinna að því að barnið sér að foreldrar sínir hafi ekki verið einlægir og getur fundist sem þeir hafi svikið sig. Fara verður varlega í hvernig hlutirnir eru sagðir við barn og huga vel að aldri þess og þroska því það getur auðveldlega misskilið orð sem þessi: Guð elskaði pabba þinn svo mikið að hann tók hann til himna. Barn gæti túlkað þetta þannig að hann hafi ekki elskað föður sinn nógu mikið og að þetta hafi því verið refsing. Einnig þegar sagt er að það sé Guðs vilji að mamma dó. Foreldra vilja kenna börnunum að Guð sé umhyggjusamur og elskandi. Þetta getur valdið reiði (Fitzcerald, 1992:58). Barnið getur reiðst við Guð því hann tók mömmu eða pabba frá því. Hverskonar Guð er það sem tekur pabba eða mömmu frá barninu sínu? Getur hann verið góður? Að mínu mati getur verið erfitt fyrir börn sem alast upp í fjölskyldum þar sem trúleysi er að sætta sig við að með dauðanum sé lífinu endanlega lokið. Trúlausir telja að hvorki Guð né framhaldslíf sé til. Þeir sem aðhyllast trúleysi eru oft rökhyggjumenn og byggja sína skoðum meðal annars á því að engar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á það að líf sé eftir dauðann. Gott er fyrir kennara að hafa upplýsingar um bakgrunn barnanna og einkum ef upp kemur dauðsfall hjá fjölskyldum. Æskilegt er að sinna barninu í samræmi við þau lífsviðhorf sem það er vant á heimilinu. Það skiptir miklu máli fyrir barnið að það finni að því sé sinnt af alúð og öryggi. Því er æskilegt að kennari afli sér grunnþekkingar í þeim trúarbrögðum sem börnin aðhyllast á deildinni. Gott er fyrir börnin að fá að kynnast öðrum trúarbrögðum. Gagnlegt getur verið að fá barnið til að segja sjálft frá þeim með hjálp kennarans. Þetta getur víkkað skilning barnanna og virðingu fyrir skoðunum annarra. Sennilega er þó ekki ásæða til að veita öðrum en elsta hópnum í leikskólanum slíka fræðslu. 17

20 4.2 Sjálfsígrundun Við þiggjum bæði líf og dauða í vöggugjöf (Bragi Skúlason, 1992:44). Dauðinn er hluti af lífinu sem allir þurfa fyrr eða seinna að glíma við. Mörgum stendur ógn af orðinu dauði og því er það bannorð í huga margra. Það er ekki spurning hvort barn hafi þörf fyrir fræðslu um dauðann heldur hvenær það hefur not fyrir hana (Grollman, 1990:3). En áður en byrjað er að ræða og fræða börn um lífið og dauðann og að hann sé hluti af lífinu er nauðsynlegt að undirbúa sig vel. Það er mikilvægt að kennarinn skoði eigin huga, rifji upp eigin reynslu og geri sér grein fyrir eigin tilfinningum og afstöðu til dauðans (Sigurður Pálsson, 1998:5). Kennarinn hefur að baki reynslu sem hann hefur safnað að sér gegnum árin. Sú reynsla samanstendur af bæði gleði og sorg. Þar af leiðandi er gagnlegt fyrir kennarann að fara yfir líf sitt og athuga hvort hann eigi slæmar minningar sem geta haft áhrif á kennsluhætti hans. Maðurinn er mikil tilfinningavera og því geta tilfinningarnar orðið skynseminni yfirsterkari. Því er nauðsynlegt fyrir kennara sem fjallar um svona vandmeðfarið og viðkvæmt efni að vera í góðu jafnvægi og hafa trú á því að hann sé tilbúinn fyrir verkefnið. Hvernig ætlar kennari að útskýra fyrir barni hvað býr að baki orðinu dauði? Þetta er eitt af mörgum atriðum sem hann verður að vera búinn að velta fyrir sér. Það að reyna að skilja hvað felst í orðinu dauði tekur alla ævina, byrjar strax í æsku og endar á gamals aldri (Grollman, 1990:3) Börn eru einstaklega næm, skynja gleði, reiði, óöryggi eða vanlíðan hjá öðrum með því að lesa úr svip eða heyra hljómfall raddarinnar (Aldís Unnur Guðmundsdóttir, 2007:185). Þau eiga því auðvelt með að gera sér grein fyrir hvort hugur fylgir máli. Gott er fyrir barnið að finna góða nærveru frá kennaranum. Þegar barn tekst á við sorgina er dýrmætt að búa yfir þekkingu sem tengist ljúfri samveru með kennurum og samnemendum. Því er úrvinnsla á eigin tilfinningum til dauðans sérstaklega mikilvæg fyrir kennarann. Því betur sem hann skilur sig sjálfan því auðveldari verður vinnan með börnunum. Eftirfarandi spurningar eru vel til þess fallnar að rifja upp og skoða hug sinn: Hver var þín fyrsta reynsla sambandi við dauðann? Hvað lærðirðu um dauðann? Hvernig leið þér sambandi við atburðinn? Varstu verndaður gegn vitneskjunni um það sem gerðist í raun og veru? 18

21 Varstu undirbúinn fyrir það sem þú áttir eftir að sjá þegar þú mættir í jarðarförina? Varstu hvattur til að gráta ekki eða halda aftur af tilfinningum þínum? Varstu huggaður eða var þér sjálfum falið að taka á tilfinningum þínum? Varstu þvingaður til þess að gera hluti sem þú vildir ekki gera, á borð við það að kyssa lík? Hvernig höfðu trúarlegar hugmyndir fjölskyldu þinnar áhrif á hugmyndir þínar um dauðann? Hefur þú ennþá sömu hugmyndir í dag? Hverjar voru þínar barnalegu hjátrúr tímabilinu? (Fitzcerald, 1992:42). 5 Hugmyndir af vinnuferli Aldur og þroski barnanna skiptir miklu máli og verður kennarinn alltaf að hafa það í huga þegar hann vinnur með börnum. Til þess að ná sem bestum árangri í hópastarfi er æskilegt að hópurinn sé fámennur þannig að einstaklingurinn fái betur notið sín. Kennarinn getur þá líka sinn hverjum og einum betur. Gott er að miða við sex til tólf börn í hóp með tveimur kennurum. Það skilar að mínu mati betri árangri að hafa fámenna hópa, því meiri líkur eru þá á því að vinnustundirnar verði innihaldsríkar, hnitmiðaðar og notalegar, jafnvel þótt þær verði færri á hvern nemanda. Í öllu starfi og umræðu við börnin er mikilvægt að kennarinn gæti þess að börnin fái tíma til að skoða og ígrunda svo þau geti dýpkað skilning sinn. Hann á að leiðbeina þeim svo þau finni sína leið til að skilja lífið og dauðann í takt við menningu sína og uppruna. Gott er að byrja á því að ákveða markmið í samræmi við efnið og finna leiðirnar að því. 5.1 Vinnufyrirkomulag Markmið: Að barnið öðlist jafnhliða auknum þroska dýpri skilning á lífinu og að dauðinn sé órjúfanlegur hluti af því. Að barnið öðlist smám saman tilfinningu fyrir hringrás lífsins og geti talað um dauðann á eðlilegan hátt. 19

22 Leiðir: Fara í gönguferðir, fylgjast með gróðri og dýrum sem eru í umhverfinu, lesa og skoða bækur. Tala við börnin og reyna að dýpka skilning þeirra með leiðandi spurningum sem leiða þau áfram til frekari umhugsunar um eðli lífsins. Börnin njóta þess að í leikskólanum að boðið er upp á gott og metnaðarfullt starf. Þar fer fram markviss málörvun, ýmiskonar þemastarf, útinám, leikfimi svo eitthvað sé nefnt og ekki má gleyma því mikilvægasta frjálsa leiknum. Það sem skiptir mestu máli er að börnunum líði vel, þau séu hamingjusöm, örugg og með jákvæða sjálfsmynd. Hægt er að líkja markmiðinu við snældu með þræði á, þráðurinn fer svo inní alla þætti starfseminnar átakalítið en er alltaf til staðar. Svona til að minna á markmiðið væri gott að hafa fjórar áhersluvikur. Eina í hverri árstíð. Þá gætu nýir kennarar notað tækifærið og kynnt sér efnið og eldri endurnýjað þekkingu sína. Eins og áður er nefnt í ritgerðinni er allt sem viðkemur dauða, sorg eða trúmálum mjög viðkvæmt. Þar af leiðandi er foreldrasamstarf mikilvægt. Æskilegt er að upplýsingar til foreldra um þessa starfsemi séu í námsskrá leikskólans. Mikilvægt er að foreldrar hafi aðgang að ítarefni til að skoða hvað liggur að baki. Í Aðalnámskrá leikskóla stendur að markmiðið sé að: efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börnin verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem eru í örri og sífelldri þróun. (Menntamálaráðuneytið, 1999:7). Gott er að hafa sér kassa sem merktur er þessu verkefni með ýmiskonar fræðsluefni, barnabókum og gögnum á stað sem er aðgengilegur fyrir kennara og foreldra. Auk þess dagbók sem skráð er í hvernig gengur og einnig nýjar hugmyndir sem vakna. Þá er einnig hægt að skrá niður athugasendir sem koma frá börnunum sem kæmu að notum til að meta og endurskipuleggja þennan þátt leikskólastafsins. Á árinu sem leikskólabarnið verður þriggja ára fer þráðurinn af stað. Byrja er á vori með því að skoða brumin á trjánum, laukana og það sem er að vakna til lífsins, hafa orð um þetta og vekja áhuga þeirra. Hjá eldri börnunum er þetta ákveðinn hringur sem heldur áfram án upphafs eða endis. 5.2 Náttúruskoðun/Útinám Eins og getið var í innganginum er þetta ekki hugsað sem bein viðbót fyrir kennarann við allt annað sem hann hefur á sinni könnu, heldur breyttar áherslur og samþætting við aðra kennslu. En markmiðið á bak við þetta er að hjálpa börnunum af stað svo 20

23 þau skoði lífið í víðara samhengi en áður. Ef vel tekst til ættu börnin sjálf að sjá um að halda kennaranum við efnið með forvitni sinni og fróðleiksfýsn. Kennarar fara mikið með börnin í ferðir til að skoða, fræðast og njóta þess að vera úti í náttúrunni. Hvort sem um er að ræða villta náttúru eða skipulögð svæði með gróðri geta börnin rannsaka umhverfi sitt. Það að vera innan um gróðurinn og fylgjast með honum gefur barninu tækifæri til að skoða og skynja þær breytingar sem verða árstíðabundið í náttúrunni. Lærdómsríkt getur verið fyrir börnin að vera með matjurtagarð sem þau hjálpast að við að sjá um. Árstíðirnar eru fjórar og hafa hver sín sérkenni. Vorið ber með sér tilhlökkun og væntingar því þá er gróðurinn að taka við sér. Á eftir kemur sumarið og þá blómgast gróðurinn sem gleður með fegurð sinni. Þá kemur haustið með alla sína litadýrð, laufblöðin falla af trjánum en uppskeran vekur stolt og gleði. Að lokum kemur veturinn og þá deyr gróðurinn eða leggst í dvala og snjórinn breiðir sæng sína yfir jörðina. Það er dapurlegt en þegar hugsað er til vorsins er hægt að gleðjast á ný. Börn eiga auðveldara með að skilja ef þau hafa upplifað hlutina sjálf. Það getur verið bæði gaman og fróðlegt fyrir börnin að leika t.d. blóm, tré, orma, fugla og nota leikræna tilburði til að tjá hvernig árstíðarskiptin hafa áhrif á gróður og dýr. Gefa þeim tíma til að spá og spekúlera og túlka með leik sínum. Æskilegt er að hafa þetta mjög einfalt fyrir yngri börnin og þróa þetta áfram í takt við getu og þroska þeirra. Elstu börnin gætu t.d. skoðað mannsævina frá sjónarhorni árstíðanna. Vor fæðing, sumar æska, haust þroski, vetur elli og dauði (Blackburn, 1995:21). Með því að skoða lífið út frá þessu sjónarhorni þá hjálpar það barninu að skynja að þeirra eigið líf sé einnig einhverskonar hringrás eins og er í náttúrunni. Gott getur verið að ræða við börnin um dýrin og reyna að fá þau til að setja sig í spor þeirra. Ræða t.d um fugla. Ránfuglar ræna stundum eggjum og ungum frá minni fuglum. Hversvegna gera þeir það? Eru þeir vondir? Hvernig líður þeim sem missa ungana sína? Er í lagi að vera dapur stundum? Hvers vegna? Það að setja sig í spor fuglsins getur hjálpað þeim að skilja hvað sorgartilfinning er. Þegar barnið hefur orð yfir tilfinningar sínar hjálpar það því að skilja þær. Að finna til samúðar með öðrum kemur smám saman með auknum þroska hjá þeim. Ein leið er að taka barn með þegar kennari fer og hughreystir annað barn sem grætur og gera engar kröfur til barnsins aðrar en þær að það fylgist með meðan grátandi barnið fær huggun. Þetta gæti kennt barni að þegar öðrum liður illa þá er gott að sýna samúð því það veitir huggun og gerir gott. 21

24 5.3 Bækur Vel skrifuð bók þar sem fjallað er um sorg og missi getur hjálpað börnunum að sjá hlutina í víðara ljósi. Gott er að athuga skilning þeirra á textanum með því að stoppa og ræða við þau um orð og orðatiltæki. Biðja þau að tjá með svipbrigðum hvernig sögupersónunum líður. Þannig máta þau sig við þær og öðlast innsýn í líðan þeirra. Að því loknu má ræða um bókina og forvitnast um hvað þeim fannst t.d. merkilegast eða sorglegast. Svörin má skrá niður hjá sér til að nota síðar. Fara seinna út með hópinn og ræða þessi atriði sem þau nefndu og ef til vill leiða þau af stað í að fara í leik sem spunninn er upp úr sögunni. Tel ég að heppilegt að hafa tvær bækur sem lesnar yrðu ársfjórðungslega. Með þessum hætti gætu börnin dýpkað skilning sinn á söguþræðinum og persónunum með auknum þroska. Þá eiga þau auðveldara með að máta tilfinningar sínar við það sem sögupersónurnar ganga í gegnum. Bækurnar sem ég valdi eru: Það má ekki vera satt er einlæg og sönn. Sagan er sögð með orðum drengs sem missir föður sinn af slysförum. Bókin kemur inn á tilfinningar eins og væntumþykju, sorg, reiði og von. Smám saman tekur drengurinn gleði sinni á ný þó svo að minningin um föður hans sé ætíð til staðar (Guðrún Alda Harðardóttir, 1997) Afi og ég tölum saman um dauðann er falleg saga sem skrifuð er út frá kristnum sjónarhóli sem segir frá stelpu sem heimsækir afa sinn og ömmu í sveitina. Þar fylgist hún með afa sínum hugsa um dýrin, þau tala mikið saman og hann svarar spurningum hennar af einlægni (Alex og Alex, 1984). Börn geta lært mikið af bókum. Þær eru örvandi fyrir málþroskann og þær koma inn á tilfinningar. Sum ævintýri og sögur sem börnin heyra eru ekki fallegar. Í sögunni Hans og Grétu, kynnast þau vondu stjúpunni, einnig er sagt er frá því þegar Hans og Gréta eru skilin eftir ein úti í skógi og slæg norn ætlar að borða þau. Þó svo að sagan endi vel að lokum þá kallar hún fram ótta og reiði hjá börnunum á meðan á ævintýrinu stendur. Það getur verið þroskandi fyrir börn að hlusta á svona sögur því þá gefst þeim tækifæri til að máta sínar tilfinningar við þær sem fram koma í sögunni og ræða um þær og kryfja. Það getur verið góð æfing sem þau byggja á þegar þau lenda í raunverulegum í aðstæðum sem framkalla slík viðbrögð (Stóra ævintýrabókin, 2007: ) 22

25 6 Að grípa tækifærið 6.1 Barnsfæðing Fæðingin er upphaf lífsins sem allir gleðjast yfir. Þegar barn á leikskólanum eignast systkini er tilefni til að gleðjast með því. Bjóða barninu að koma með mynd svo það geti sýnt börnunum og sagt frá nýja barninu í fjölskyldunni. Spjalla um hvað litla barnið getur gert og hvað ekki. Einnig um tilfinningar okkar til ungabarns og hvað okkur langar til að gera þegar það grætur. Hvernig líður ungbarninu? Hvers vegna verða mamma og pabbi að hugsa svona mikið um nýja barnið? Gott er að gefa börnunum tíma til að ræða um þetta því þau hafa mörg hver reynslusögur sem þau vilja koma á framfæri. Þetta getur nýst hinum sem undirbúningur seinna meir þegar þau eignast sjálf systkini. Dýr eru í miklu uppáhaldi hjá börnum. Það gæti verið gaman að ræða um þau og líkja þeim saman við lítil börn. Hægt er tala um ungviðið hjá dýrunum og íhuga hvers vegna þau eru miklu fljótari að komast á legg. Hvers vegna er það þeim nauðsynlegt? Er erfitt fyrir lambið að lifa úti í náttúrunni? 6.2 Gæludýr Mörg börn alast upp á heimilum þar sem eru gæludýr Það getur verið þroskandi fyrir barnið og náin tengsl geta skapast. Þau myndast þegar barnið sinnir dýrinu, leikur sér við það, strýkur því eða horfir á það, t.d ef um fisk er að ræða. En gæludýrin deyja líka og það getur verið mjög sárt fyrir barnið. Sumir foreldrar hugsa með sér að best sé fyrir barnið að kaupa nýtt dýr í staðinn strax, kaupa alveg eins hamstur eða fugl í von um það að barnið taki ekki eftir því. Það getur líka verið freistandi að fá strax inn á heimilið nýjan kött í stað þess sem dó til að hugga barnið. Það er ekki góð hugmynd. Barn sem kemst að því seinna að skipt hafi verið um dýr, getur fundist sem það hafi verið svikið og sárnað við foreldra sína og mögulega hafnað nýja gæludýrinu. Þegar þetta er gert missir barnið líka af tækifærinu til að ganga í gegnum sorgarferli sem er mjög þroskandi fyrir það og getur hjálpað því síðar. Anna sem var fimm ára stúlka var mjög leið þegar hundur ömmu hennar átt dó. Hún grét mikið og leið illa. Foreldrar hennar gáfu sér tíma til að tala við hana og sögðu að hundinum liði vel uppi á himninum. Anna mætti skilning í sorg sinni sem og gerði það henni gott (Jacobsen, 1994:36). 23

26 Fyrir barn sem missir gæludýr getur verið gott að koma með mynd af dýrinu í leikskólann til að sýna börnunum. Myndin getur hjálpað börnunum á deildinni að ræða um dýrið og setja sig í spor barnsins og að sýna því samkennd. Gefst þarna tækifæri til að ræða um dauðann. Börnin geta spurt spurninga á borð við. Hvað er að vera dáinn? Hvað þýðir það? Þá getur verið gott að svara á móti með annarri spurningu: Hvað gat dýrið gert meðan það var lifandi? Börnin svara: Hlaupa, borða, sofa, hoppa, gelta, eignast hvolpa..., ef um hund er að ræða. Þá er hægt að svara því til að ekkert af þessu geti hundurinn gert þegar hann er dáinn. Með því að útskýra hvað lífið er, getur það hjálpar börnunum til að skilja hvað felst í dauðanum (Fitzgerald, 1992:58). Þetta er einfalt og skýrt svar sem börnin eiga auðvelt með að meðtaka. Ýmiss konar heilabrot verða hjá börnunum um hvort hundurinn verður settur niður í holu og jarðaður, og hvort hann fari til Guðs. Þá er best að svara þeim af heiðarleik eða með opnum spurningum sem gætu hjálpað þeim til að dýpka sinn skilning út frá þroska þeirra og reynslu. Barnið sem átti dýrið sem dó finnur fyrir sorg og er dapurt. Gott er fyrir það að finna að hin börnin taki þátt í sorginni og það standi ekki eitt. Samfara þessu er hægt að ræða um tilfinningar og að það sé eðlilegt að gráta og vera dapur. Barnið finnur oft sína leið til að vinna sig fram úr sorginni og endurskapa aðstæður og fara í gegnum þær í leiknum. Ef börnin finna dauðan fugl, mús, flugu eða jafnvel orm þegar þau eru úti í náttúrunni er tilvalið að grípa tækifærið og útbúa jarðaför með hjálp barnanna með öllu því sem henni fylgir. Gefa þeim góðan tíma til að skoða, snerta og ígrunda. Æskilegt er að kennarinn standi á hliðarlínunni og gefi börnunum tíma og tækifæri til að fikra sig áfram sjálf en veita þeim ráð þegar þau sækjast eftir því. Það fer eftir aldri barnanna hversu mikið kennarinn þarf að vera þeim innan handar. Börnin verða að fá að gera hlutina eftir sínu höfði líka. Okkur hættir til að ákveða hvernig á að framkvæma hlutina en gleymum að sjónarhóll barnsins getur verið allt annar en okkar. 6.3 Heimsókn í kirkjugarð Góð hugmynd gæti verið að fara á góðvirðisdegi í gönguferð um kirkjugarð en þá hef ég börnin sem eru sex ára eða á sjötta ári í huga. Á þeim aldri eru þau farin að skynja dauðann sem endanlegan. Áður en ferðin er farin er rétt að segja frá hvert ferðinni sé 24

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser Spil og leg 14 Læsebog side 40 41 Opgavebog side 68 Tegund: Samtalsæfing Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða sem snýr að tilfinningum, persónueinkennum og útliti. Undirbúningur: Prenta út opgaveblad

Læs mere

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: tengdan lífsstíl um neyslu ungs fólks á Norðurlöndum um ofnotkun á hreinlætisvörum og orku Hugmyndir að kveikju: Umræður um neyslu ungs fólks í dag. Fjallað um myndina

Læs mere

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Hanna Skúladóttir Kennaraháskóli Íslands Grunnskólabraut Apríl 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Læs mere

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN EFNISYFIRLIT 03 / INNGANGUR 04 / EFNI HANDBÓKAR 05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 08 / MATSAÐFERÐIR 10 / HVAÐ - HVERNIG 11 / MÓDEL 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ

Læs mere

Dyrebingo. Önnur útfærsla

Dyrebingo. Önnur útfærsla Opgaveblad 2A Opgaveblad 2C Dyr i Danmarks natur Læsebog side 10 11 Opgavebog side 19 Tegund: Bingó með myndaspjöldum Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða tengdan dýrum. Undirbúningur: Prenta út

Læs mere

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 START Spil og leg 1 Spil og leg 1 Hvem er jeg? Hvad hedder du? Læsebog side 3 Opgavebog side Tegund: Samtals- og hreyfileikur Form: Hópleikur Markmið: Að læra að kynna sig. Undirbúningur: Finna bolta eða

Læs mere

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Kennslulei⅟beiningar Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave Oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 VERKEFNI 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 VERKEFNI

Læs mere

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla.

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Tænk Talæfingar með Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir Yfirlestur og ráðgjöf: Astrid Juul Poulsen

Læs mere

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými.

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými. Notkun FHF gólfhitagrindin er notuð til að stjórna vatnsrennsli í gólfhitakerfum. Hvert rör í kerfinu er tengt gólfhitagrindinni sem gerir kleift að stjórna vatnsrennsli í hverri rás og hita í hverju rými

Læs mere

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 SMART Spil og leg 1 Spil og leg 1 Tallene Tæl til hundrede Læsebog side 7 Opgavebog side 11 Tegund: Hermileikur Form: Hópleikur Markmið: Hlusta og einbeita sér. Að æfa tugina. Undirbúningur: 1. Nemendur

Læs mere

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO MÁLNOTKUNARÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Opgavebog Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 OPGAVE 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 OPGAVE 1B - HVAD ER MINE

Læs mere

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók Tilllaga að leiðbeiningum og verkfærum til hjálpar Hvað þarf að koma fram í leiðbeiningunum? 1. Hvað er orkustjórnun? 2. Hvernig setjum við okkur orkustefnu og markmið? 3. Hvernig á að skipuleggja orkuvinnuna?

Læs mere

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO SAMTALSÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni.

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni. Tøj og farver Í þemanu er fjallað um: Föt, liti og fylgihluti. Markmið er að nemendur: læri helstu liti. læri grunnorðaforða um föt. skilji þegar talað er um föt og liti á dönsku á einfaldan hátt. geti

Læs mere

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir:

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir: . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014, 360/2016 og 666/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Frágangur handlista Í grein í byggingarreglugerð segir: Handlistar

Læs mere

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt Anna Jørgensen, Zahle Seminarium, København Anna Kristjánsdóttir þýddi í apríl 2002 fyrir vefsetrið Stærðfræðin hrífur Greinin birtist fyrst í danska tímaritinu Matematik

Læs mere

2. Dig, mig og vi to

2. Dig, mig og vi to 2. Dig, mig og vi to Í þemanu er fjallað um fjölskylduna vini samskipti Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. 1. Umræður um teiknimyndina á fremstu blaðsíðu í þemanu. 2. Orðablóm

Læs mere

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018 B FYR LØS TAK FYR LØS B Efnisyfirlit 5 Fra barn til voksen Fyr løs 1 Mobilløb... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Den øde ø... 6 Opgaveblad 2 6 Vi er alle forskellige Fyr løs 3 Hvilken person mangler der på billedet?...

Læs mere

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Útgáfa: 04 Dags: 03012018 Höfundur: IJ Samþykkt: Síða 1 af 4 BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Dan 2A05 Námsáætlun, vorönn 2018 Kennari: Inga Jóhannsdóttir Netfang: ij@bhsis Lýsing: Í áfanganum

Læs mere

- kennaraleiðbeiningar

- kennaraleiðbeiningar - kennaraleiðbeiningar María Una Óladóttir Kennsluleiðbeiningar með kennsluefninu ord til at starte med! Verkefni 1 - Að nemendur læri að kynna sig og fjölskyldumeðlimi. Nemendur teikna í rammann eða koma

Læs mere

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018 A FYR LØS TAK FYR LØS A Efnisyfirlit 1 Hjemmet Fyr løs 1 Bingo... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Nævn to ting i hjemmet.. 6 Opgaveblad 2 Fyr løs 3 Se mit værelse... 7 Opgaveblad 3 2 Familien Fyr løs 4 Monas

Læs mere

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir.

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir. Tøj og tilbehør Í þemanu er fjallað um: mismunandi tegundir af fötum og fylgihlutum. hvað er í snyrtitöskunni. föt og tísku frá mismunandi tímabilum. stuttar fréttir og staðreyndir sem tengjast fötum.

Læs mere

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám.

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Námsstíll Læra að læra Læra með stíl Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Öll getum við lært séu okkur búin skilyrði til þess en

Læs mere

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns BA ritgerð í lögfræði Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns Hulda Magnúsdóttir Leiðbeinandi: Elísabet Gísladóttir Desember 2013 BA ritgerð

Læs mere

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014 SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS B I B SMIL Skapandi verkefni ~ Fyr løs Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9053 Efnisyfirlit Smil Verkefnabók

Læs mere

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis 3. Hjemmet Í þemanu er m.a. fjallað um Helstu tegundir húsnæðis. Húsgögn, húsbúnað og annað sem tilheyrir heimili. Framtíðarheimilið. Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Ræða

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014 SMIL b KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig b NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 5 Jagten på berømmelse...

Læs mere

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt.

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt. AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO Journalnummer: 2016-0177 Klageren: XX Island Indklagede: Metroselskabet I/S v/metro Service A/S CVRnummer: 21 26 38 34 Klagen vedrører: Parternes krav: Kontrolafgift

Læs mere

Kökur, Flekar,Lengjur

Kökur, Flekar,Lengjur Kökur, Flekar,Lengjur Qimiq vörurnar eru unnar úr úrvals Austurísku hráefni. Q003301 Qimiq Profi Whip 1 kg (12) Q000114 Qimiq Base 1 kg (12) Q000115 Qimiq Sauce base 1 kg (12) Qimiq Whip Notið QimiQ Whip

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar A B

Kennsluleiðbeiningar A B Kennsluleiðbeiningar A B TAK KENNSLULEIÐBEININGAR A B 4 Efnisyfirlit Til kennara Almennt um námsefnið... 5 Nemendabók... 5 Verkefnabækur... 6 OPGAVEBOG A 1 Hjemmet Tak tak tak... 8 Boligen... 9 Hvordan

Læs mere

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører Min krop Í þemanu er fjallað um: Andlitið og skynfærin Líkamann Ýmsar daglegar athafnir tengdar líkamanum og skynfærunum. Ýmsa algenga kvilla eins og kvef og hálsbólgu. Markmið er að nemendur: Læri helstu

Læs mere

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Jeg elsker Danmark Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Markmiðið er að nemendur: fræðist um Danmörku og danska menningu.

Læs mere

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Efnisyfirlit Til kennara................................. 3 Uppbygging efnisins............................ 3 Markmið..................................

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 1 2 3 Til kennara....3 Almennt

Læs mere

glimrende lærervejledninger

glimrende lærervejledninger Arnbjörg Eiðsdóttir Kristín Jóhannesdóttir glimrende lærervejledninger Kennsluleiðbeiningar með Glimrende, Glimrende opgaver og hlustunarefni, ásamt svörum við verkefnum í vinnubók Efnisyfirlit Glimrende

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar Tænk Kennsluleiðbeiningar Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Ritstjóri: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Yfirlestur: Astrid Juul Poulsen NÁMSGAGNASTOFNUN

Læs mere

ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG

ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG GLEYM - MÉR - EI ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Að missa eftir 22. viku meðgöngu Þegar gleðin breytist í sorg Að missa á meðgöngu Útgefandi: LÍF styrktarfélag 1. útgáfa 2012 Efnisyfirlit Inngangur Tilfinningar

Læs mere

komudagur 21-1- 2 0 f2

komudagur 21-1- 2 0 f2 7W O s s u e i k (. íé T ) Erindim Þ M /lo O S komudagur 21-1- 2 0 f2 MINNISBLAÐ TIL EFNAHAGS- OG VIÐSKIPTANEFNDAR -tilla g a að nýrri 9. mgr. 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, með síðari

Læs mere

EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 Efnisyfirlit SKOLELIV Læsebogen side 13: Tænk bare Elefantisk.. 3 Læsebogen side15: Motion er mange ting... 4 Læsebogen side 17: Tænk bare... 5 Læsebogen side 24

Læs mere

4. Konfirmation. Konfirmation. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að Kveikju. Til minnis

4. Konfirmation. Konfirmation. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að Kveikju. Til minnis 4. Konfirmation Í þemanu er fjallað um Hefðir tengdar fermingum í Danmörku Fermingarveislur Blå mandag Hugmyndir að Kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Kennari spyr nemendur: Hvorfor bliver

Læs mere

Skal vi snakke sammen?

Skal vi snakke sammen? Skal vi snakke sammen? Kennsluefni í dönsku fyrir nemendur á miðstigi Katrín Hallgrímsdóttir Lokaverkefni B.Ed.-prófs Kennaradeild Skal vi snakke sammen? Kennsluefni í dönsku fyrir nemendur á miðstigi

Læs mere

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ Karen Björnsdóttir 16. maí 2014 BA í lögfræði Höfundur: Karen Björnsdóttir Kennitala: 050989-2409 Leiðbeinandi: Heiða Björg Pálmadóttir Lagadeild School of Law

Læs mere

1. tbl. 31. árgangur Málgagn móðurmálskennara

1. tbl. 31. árgangur Málgagn móðurmálskennara Skíma 1. tbl. 31. árgangur 2008 Málgagn móðurmálskennara Blóm gleðja Mikið úrval af fallegri gjafavöru, listmunum og blómum Góð og persónuleg þjónusta Opið til kl. 21 mynd: auja.net Skíma Ritstjóri og

Læs mere

Baráttan við MNDsjúkdóminn

Baráttan við MNDsjúkdóminn Helst errið sem kemur upp um okkur Christina Kjeldsen og Simon Björn eru þjónar Votta Jehóva á norðanverðum Vestfjörðum með aðsetur á Íslandi. Við fáum ekkert borgað fyrir að vera Vottar. En við vinnum

Læs mere

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003.

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003. 545 AUGLÝSING um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu. Hinn 30. apríl og 1. maí var með bréfaskiptum í Reykjavík og Nuuk gengið

Læs mere

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Dómaraheimild Heimild til að dæma sameiginlega forsjá Rök með og á móti Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Maí 2008 Efnisatriði 1. Inngangur... 2 2. Nefndarálit allsherjarnefndar

Læs mere

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Efnisyfirlit Til kennara................................. 3 Uppbygging efnisins............................ 3 Markmið..................................

Læs mere

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku Hugmyndir að kveikju: Umræða um myndina í lesbókinni bls. 30 fremst í þemanu. Umræður: Hvem ved noget om dansk mad? Hvad kender

Læs mere

Sjálfsprottinn söngur barna

Sjálfsprottinn söngur barna Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík Grunndeild Leikskólabraut fjarnám 2007 Sjálfsprottinn söngur barna Elisabeth Hauge Lokaverkefni til 90 eininga B.Ed.-prófs Leiðsögukennari: Sigríður Pálmadóttir Efnisyfirlit

Læs mere

SMIL SKAPANDI VERKEFNI A

SMIL SKAPANDI VERKEFNI A SMIL SKAPANDI VERKEFNI A I SMIL Skapandi verkefni Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9053 Efnisyfirlit Smil Verkefnabók A Fyr løs 1 Spørg,

Læs mere

SMART. Kennsluleiðbeiningar. Smart Kennsluleiðbeiningar Námsgagnastofnun

SMART. Kennsluleiðbeiningar. Smart Kennsluleiðbeiningar Námsgagnastofnun SMART Kennsluleiðbeiningar 1 Efnisyfirlit Til kennara... 3 Almennt um námsefnið... 3 Námsumhverfi... 3 Náms- og kennsluaðferðir.... 3 Hlustun... 4 Munnlegur þáttur... 4 Lestur... 4 Ritun... 4 Orðaforði...

Læs mere

Verk í höndum - um gildi list- og verkgreina fyrir börn með náms- og hegðunarörðugleika

Verk í höndum - um gildi list- og verkgreina fyrir börn með náms- og hegðunarörðugleika Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Verk í höndum - um gildi list- og verkgreina fyrir börn með náms- og hegðunarörðugleika Berglind Sigurgeirsdóttir 171079-4549 Narfi Ísak Geirsson 170381-4329 Kennaraháskóli

Læs mere

VINÁTTA Í VESTURKOTI. Linda Hrönn Þórisdóttir

VINÁTTA Í VESTURKOTI. Linda Hrönn Þórisdóttir VINÁTTA Í VESTURKOTI Linda Hrönn Þórisdóttir Skýrsla um innleiðingu Vináttuverkefnis Barnaheilla í leikskólanum Vesturkoti skólaárið 2014-2015 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 1 Töfluskrá... 1 Myndaskrá...

Læs mere

Fritid. Fritid. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis. Íþróttir og tómstundir unglinga. Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku.

Fritid. Fritid. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis. Íþróttir og tómstundir unglinga. Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Fritid Í þemanu er fjallað um Íþróttir og tómstundir unglinga. Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Kennari spyr nemendur: Hvad laver I i jeres fritid? Kennari skrifar svörin

Læs mere

Æfingar og ráð til að takast á við streitu

Æfingar og ráð til að takast á við streitu STÚDENTAÞJÓNUSTA HR STR EI Æfingar og ráð til að takast á við streitu TA 1 Nánari upplýsingar um stúdentaþjónustu HR: hr.is/studentathjonusta Bæklingur þessi heitir á frummálinu Stress. Útgefandi: Studenterrådgivningen,

Læs mere

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Efni Einelti 3 Yfirlit 4 Hvað er einelti? 4 Aðferðir 6 Hvernig má greina einelti? 6 Hvernig veit yfirmaður að einelti sé til

Læs mere

Jöfn umgengni í framkvæmd

Jöfn umgengni í framkvæmd Jöfn umgengni í framkvæmd Helga Sigmundsdóttir Hrefna Friðriksdóttir Lagadeild Ritstjóri: Kristín Benediktsdóttir Rannsóknir í félagsvísindum XIV. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2013 Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar Tænk Kennsluleiðbeiningar Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Ritstjóri: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Yfirlestur: Astrid Juul Poulsen NÁMSGAGNASTOFNUN

Læs mere

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Sigrún Helga Kristjánsdóttir og Valdís Ingimarsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari:

Læs mere

Siemens Børnerådg. ISLAND /5/03 10:28 PM Side 1. Heyrir. þú í. Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna. ...vinum þínum?

Siemens Børnerådg. ISLAND /5/03 10:28 PM Side 1. Heyrir. þú í. Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna. ...vinum þínum? Siemens Børnerådg. ISLAND 91558 11/5/03 10:28 PM Side 1 Heyrir þú í Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna....vinum þínum? www.rexton.dk Siemens Børnerådg. ISLAND 91558 11/5/03 10:29 PM Side

Læs mere

Efnisyfirlit: Inngangur: Valby Börneasyl / Valby Dosseringens Vuggestue Börnehaven Prinsessehöj / Virum... 12

Efnisyfirlit: Inngangur: Valby Börneasyl / Valby Dosseringens Vuggestue Börnehaven Prinsessehöj / Virum... 12 Danmörk haustið 2005 Efnisyfirlit: Inngangur:... 3 Valby Börneasyl / Valby... 5 Dosseringens Vuggestue... 8 Börnehaven Prinsessehöj / Virum... 12 Skovbörnehave Mariehönen / Virum... 17 Dyreskov Skovbörnehave...

Læs mere

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál]

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi. (Lagt

Læs mere

Guðný Sigríður Sigurðardóttir. 1. Fræðileg umfjöllun Barnabókmenntir Þjóðsögur og ævintýri Fantasía...7

Guðný Sigríður Sigurðardóttir. 1. Fræðileg umfjöllun Barnabókmenntir Þjóðsögur og ævintýri Fantasía...7 Efnisyfirlit Ágrip 2 Inngangur...3 1. Fræðileg umfjöllun.4 1.1 Barnabókmenntir.... 4 1.2 Þjóðsögur og ævintýri......5 1.3 Fantasía...7 2. Myndabækur...8 2.1 Upphaf myndabók....8 2.2 Myndabókin og samspil

Læs mere

5. tbl. 8. árg. september 2008 Málgagn Kennarasambands Íslands

5. tbl. 8. árg. september 2008 Málgagn Kennarasambands Íslands 5. tbl. 8. árg. september 2008 Málgagn Kennarasambands Íslands HVAMMUR FORYSTUSKÓLI Í MARKVISSRI MÁLÖRVUN AÐ HEFJA NÁM Í FRAMHALDSSKÓLA SÖNGLEIKJAHALD Í GRUNDASKÓLA FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður

Læs mere

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Fylgiseðill Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Lesið fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. - Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar. - Leitið til

Læs mere

esurveyspro.com - Survey Detail Report

esurveyspro.com - Survey Detail Report Page 1 of 5 Kommuner: Miljøledelse ved bygning af veje og gader i de nordiske lande Respondent Type: Customer Custom Data 1: Name: Anna Rósa Custom Data 2: Email address: anna.r.bodvarsdottir@reykjavik.is

Læs mere

Forskellige oversættelser af Den grimme ælling

Forskellige oversættelser af Den grimme ælling Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska Forskellige oversættelser af Den grimme ælling Ritgerð til BA-prófs í dönsku Anna Margrét Wernersdóttir Kt.: 210860-5769 Leiðbeinandi: Þórhildur Oddsdóttir September

Læs mere

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Ritgerð til BA-prófs í dönsku Hafrún Elma Símonardóttir Kt.: 260779-3709 Leiðbeinandi: Þórhildur Oddsdóttir Maí

Læs mere

Lærervejledninger KRIMINALITET. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju: Lögbrotum. Ýmsu dularfullu. Bankaránum. Tölvusvindli.

Lærervejledninger KRIMINALITET. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju: Lögbrotum. Ýmsu dularfullu. Bankaránum. Tölvusvindli. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Lögbrotum. Ýmsu dularfullu. Bankaránum. Tölvusvindli. Hugmyndir að kveikju: Umræður um myndina fremst í þemanu. Hvad er kriminalitet? Nemendur svara spurningunni munnlega

Læs mere

Jökulsárlón og hvað svo?

Jökulsárlón og hvað svo? Jökulsárlón og hvað svo? Jökulsárlón á Breiðamerkursandi mikilvægt kennileiti í Íslenskri ferðaþjónustu meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Íslandi Þjónustusvæði - deiliskipulag staðfest í ágúst 2013

Læs mere

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?...

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?... Efnisyfirlit Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar..................... 2 Yfirlit........................................................ 7 Málverk segir sögu.............................................

Læs mere

EKKO. Lærervejledninger NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO. Lærervejledninger NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 Efnisyfirlit Til kennara... 3 Skoleliv... 9 Sport og motion.... 19 Spis dig glad... 29 Livsstil.... 39 Kriminalitet.... 49 Kommunikation... 60 Du og jeg og resten af livet....

Læs mere

Bærinn okkar. betri bær og allir með

Bærinn okkar. betri bær og allir með Bærinn okkar betri bær og allir með Þróunarverkefni um útinám, mótun útikennslusvæðis við Varmárskóla og áherslur á umhverfi og menntun til sjálfbærrar þróunar í starfi skólans. 2008-2009 Lokaskýrsla Hópur

Læs mere

Kjarasamningar í Danmörku

Kjarasamningar í Danmörku Kjarasamningar í Danmörku Allan Lyngsø Madsen Aðalhagfræðingur Yfirlit 1. Undirbúningur 2. Félagslegur og hagfræðilegur byrjunarpunktur. 3. Viðræður LO og DA 4. Ferlið á almenna markaðinum 5. Áhrif á aðra.

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur. Nikótín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur. Nikótín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur Nikótín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar. Alltaf

Læs mere

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk.

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. Lærer: Jette Dige Pedersen Undervisningsmateriale: 1. Danmarks mosaik

Læs mere

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni.

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni. Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri um meðöl gegn fjárpestinni, 14.03.1771. Lit. GG. ÞÍ. Skjalasafn rentukammers. B4/1, örk 22. (Ind. Ref. 2. Nor. B. nr. 391) Commissions Papiirer

Læs mere

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr.

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Gangar og anddyri Í grein í byggingarreglugerð segir: Meginreglur: Eftirfarandi

Læs mere

SMART. Kennsluleiðbeiningar. Smart Kennsluleiðbeiningar Námsgagnastofnun

SMART. Kennsluleiðbeiningar. Smart Kennsluleiðbeiningar Námsgagnastofnun SMART Kennsluleiðbeiningar 1 Efnisyfirlit Til kennara... 3 Almennt um námsefnið... 3 Námsumhverfi... 3 Náms- og kennsluaðferðir.... 3 Hlustun... 4 Munnlegur þáttur... 4 Lestur... 4 Ritun... 4 Orðaforði...

Læs mere

Verndarblaðið. Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015

Verndarblaðið. Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015 Verndarblaðið Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015 Stuðningsfélagi eftir afplánun Fangar með þroskahömlun Gamlir menn í fangelsi Raddir fanga Íslenskar fangelsisbókmenntir Fagnaðarefni Verndarblaðið

Læs mere

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0)

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) NAME 1.0 Handbók The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) Åse Brandt Charlotte Löfqvist John Nilsson Kersti Samuelsson Tuula Hurnasti Inga Jónsdóttir Anna-Liisa Salminen Terje Sund Susanne Iwarsson

Læs mere

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 Pósthólf 8100 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur. Nikótín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur. Nikótín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur Nikótín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar. Alltaf

Læs mere

Steinunn Camilla. Við erum allar flottar í réttu sniði! ÚTIVIST. á sér ótal áhugamál. Útilega með stæl! Hrönn Friðriksdóttir. Gróa Ásgeirsdóttir

Steinunn Camilla. Við erum allar flottar í réttu sniði! ÚTIVIST. á sér ótal áhugamál. Útilega með stæl! Hrönn Friðriksdóttir. Gróa Ásgeirsdóttir Útilega með stæl! FRÍTT EINTAK / JÚNÍ 2008 Við erum allar flottar í réttu sniði! Hrönn Friðriksdóttir spámiðill leiðir og kennir andlega þenkjandi fólki Gróa Ásgeirsdóttir nýtti erfiða reynslu á jákvæðan

Læs mere

LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET

LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET HI NLS 2013 1 LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET Hafdís Ingvarsdóttir Islands Universitet NLS, Nyborg okt. 2013 HI NLS 2013 2 Den nordiske skole Fælles principper for den nordiske skole: Demokrati,

Læs mere

Fluer i hovedet. Sammenligning af danske og islandske idiomer. Björg Ólínudóttir 16 MÁLFRÍÐUR. Hvad forstår vi ved idiomer?

Fluer i hovedet. Sammenligning af danske og islandske idiomer. Björg Ólínudóttir 16 MÁLFRÍÐUR. Hvad forstår vi ved idiomer? 16 MÁLFRÍÐUR Björg Ólínudóttir Fluer i hovedet Sammenligning af danske og islandske idiomer Björg Ólínudóttir Björg Ólínudóttir er kennari í dönsku við Menntaskólann við Sund og Iðnskólann í Hafnarfirði.

Læs mere

BA ritgerð. Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum

BA ritgerð. Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum BA ritgerð Félagsráðgjöf Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum Hrafnhildur Björg Gunnlaugsdóttir Sigurveig H. Sigurðardóttir Sigrún Ingvarsdóttir Janúar 2016 Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða

Læs mere

Flókatóftir á Barðaströnd Rannsóknir 2004 og 2012

Flókatóftir á Barðaströnd Rannsóknir 2004 og 2012 Höfundar Ljósmynd á forsíðu Horft yfir uppgraftarsvæðið. Öll réttindi áskilin ISBN 978-9935-9090-7-7 Minjastofnun Ísland Suðurgata 39 101 Reykjavík Iceland (354) 570 13 00 postur@minjastofnun.is www.minjastofnun.is

Læs mere

Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið Michael Dal

Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið Michael Dal Úttekt á samræmdu prófi í dönsku vorið 2006 Michael Dal Reykjavík júní 2006 Michael Dal Lektor við Kennaraháskóla Íslands Úttekt á samræmdu prófi i dönsku vorið 2006 Félag dönskukennara og Kennaraháskóli

Læs mere

Alþingi Erindi nr. Þ 142/171 komudagur 3.7.2013

Alþingi Erindi nr. Þ 142/171 komudagur 3.7.2013 Alþingi Erindi nr. Þ 142/171 komudagur 3.7.2013 Reykjavík, 3. júlí, 2013 Til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis v/ máls 14 um Hagstofu Íslands Þann 2. júlí var undirritaður, Helgi Tómasson, boðaður

Læs mere

VERKEFNASAFN FYRIR ÚTIKENNSLU

VERKEFNASAFN FYRIR ÚTIKENNSLU VERKEFNASAFN FYRIR ÚTIKENNSLU!"# $ % & ' ( ) % Efnisyfirlit MYNDASKRÁ...3 KYNNING...4 ÁÐUR EN HALDIÐ ER AF STAÐ...5 UPPBYGGING VERKEFNANNA...5 KORT AF NÁGRENNI LÆKJARBREKKU...6 VERKEFNASAFN...7 ÍSJAKALEIKUR...8

Læs mere

EKKO. Lærervejledninger NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO. Lærervejledninger NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 Efnisyfirlit Til kennara... 3 Skoleliv... 9 Sport og motion.... 19 Spis dig glad... 29 Livsstil.... 39 Kriminalitet.... 49 Kommunikation... 60 Du og jeg og resten af livet....

Læs mere

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Rétt eða rangt? Sjálfs mín sök Spurt er hvort réttara sé að segja sjálfs sín eða sjálfs síns. Ég tel að

Læs mere

Skólanámskrá leikskóla Snæfellsbæjar vinátta. virðing. gleði

Skólanámskrá leikskóla Snæfellsbæjar vinátta. virðing. gleði Skólanámskrá leikskóla Snæfellsbæjar 2017 vinátta virðing gleði 1 Leikskól Snæfellsbæjar 1. útgáfa sumarið 2017 Útgefandi: Leikskóli Snæfellsbæjar Krílakt v/brúarhlt 9, s: 4336925 Kríuból v/naustabúð 17,

Læs mere

Barn gefur barns svör Beiting 1. mgr gr. hgl. vegna kynferðisbrota gegn börnum - BA ritgerð í lögfræði - Inga Skarphéðinsdóttir

Barn gefur barns svör Beiting 1. mgr gr. hgl. vegna kynferðisbrota gegn börnum - BA ritgerð í lögfræði - Inga Skarphéðinsdóttir Barn gefur barns svör Beiting 1. mgr. 194. gr. hgl. vegna kynferðisbrota gegn börnum - BA ritgerð í lögfræði - Inga Skarphéðinsdóttir Lagadeild Félagsvísindasvið Umsjónarkennari: Ásta Stefánsdóttir Júní

Læs mere

Alkohol relateret folkehelse arbejde - Island

Alkohol relateret folkehelse arbejde - Island Alkohol relateret folkehelse arbejde - Island Rafn M Jonsson Embætti landlæknis Nordisk folkehelsekonferanse Status og udvikling. Det forebyggende arbejde. Aktuelt! Udvikling af totalkonsumption af alkohol

Læs mere

Informationsteknologien og små sprogsamfund

Informationsteknologien og små sprogsamfund Eiríkur Rögnvaldsson Háskóla Íslands Informationsteknologien og små sprogsamfund 1. Indledning I denne artikel vil jeg fokusere på relativt nye medier som CD-ROM og Internettet. Jeg vil hævde at den hurtige

Læs mere

Einstaklingsmiðað nám og mat á skólastarfi í Danmörku og Svíþjóð

Einstaklingsmiðað nám og mat á skólastarfi í Danmörku og Svíþjóð Einstaklingsmiðað nám og mat á skólastarfi í Danmörku og Svíþjóð Námsferð skólastjóra og starfsmanna Menntasviðs til Kaupmannahafnar og Helsingjaborgar 26. - 31. mars 2007 Ritstjóri Guðrún Edda Bentsdóttir

Læs mere

SKÍMA. MÁLGAGN MÓÐURMÁLSKENNARA 1. tölublað 35. árgangur Prentvæn endurgerð á tölublaði sem kom upphaflega út sem rafrit

SKÍMA. MÁLGAGN MÓÐURMÁLSKENNARA 1. tölublað 35. árgangur Prentvæn endurgerð á tölublaði sem kom upphaflega út sem rafrit SKÍMA MÁLGAGN MÓÐURMÁLSKENNARA 1. tölublað 35. árgangur 2012 Prentvæn endurgerð á tölublaði sem kom upphaflega út sem rafrit SKÍMA 1. TBL. 35. ÁRGANGUR 2012 Efnisyfirlit Amma, þú kannt ekki dönsku...3

Læs mere