ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG

Størrelse: px
Starte visningen fra side:

Download "ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG"

Transkript

1 GLEYM - MÉR - EI ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Að missa eftir 22. viku meðgöngu

2 Þegar gleðin breytist í sorg Að missa á meðgöngu Útgefandi: LÍF styrktarfélag 1. útgáfa 2012

3 Efnisyfirlit Inngangur Tilfinningar sorgarinnar Líkamleg viðbrögð sorgarinnar Mögulegar ástæður Að missa barn á meðgöngu Tvíburar/fjölburar Alvarlegir fósturgallar Leghálsbilun Sýking Naflastrengur Fylgja Þegar svör vantar Krufning Þegar barn greinist látið Við komu á deild Fæðing Að sjá og snerta barnið Keisaraskurður Ljósmyndir Útskrift Viðtal við lækni Mjólkurmyndun Hafa samband Kynlíf Hlátur og grátur Það er ekkert að því að gráta Það er ekkert að því að gleðjast Önnur börn á heimilinu og í fjölskyldunni Afar og ömmur Að segja frá Að mæta aftur í vinnuna Að umgangast lítil börn og ófrískar konur Nokkur orð til maka Að kveðja barnið kistulagning/útför Varðveisla minninga Að gefa barninu nafn Mikilvægar dagsetningar Meðganga eftir missi Þjónusta Sálgæsla presta og djákna Félagsráðgjöf Fæðingarorlof Sálfræðiþjónusta Lokaorð Sögur foreldra Tenglar Orðalisti Heimildir

4

5 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU INNGANGUR Sérhverri þungun fylgja vonir og draumar. Við sjáum fyrir okkur nýtt líf. Við leyfum okkur að horfa fram á veginn. Við setjum okkur í þau spor að við erum að fara að eignast barn. Við leyfum okkur að hlakka til. Langoftast vakna þessar vonir og þessir draumar á þeirri stundu sem þungunin er orðin að veruleika. Þegar barn deyr í móðurkviði deyja um leið allir draumarnir, vonirnar og væntingarnar. Eftir sitjið þið foreldrar með sorg ykkar og söknuð. Þessi bæklingur er ætlaður þér sem misst hefur barn eftir 22. viku meðgöngu. Að baki missi þínum geta verið ýmsar og ólíkar ástæður. Einhverjum í umhverfi þínu kann ef til vill að finnast að því styttra sem liðið er á meðgönguna og því minna sem barnið er, þeim mun minni og léttvægari sé sorgin. Reynslan sýnir að þannig er raunveruleikinn oftast ekki. Sorgin þarf að fá að hafa sinn gang. Þar gildir einu hversu langt var liðið á meðgönguna, eða hver orsök missisins var. Sorgin er alltaf djúp. Engir tveir einstaklingar syrgja eins. Þess vegna er aldrei hægt að segja að eitt sé rétt og annað rangt þegar tilfinningar okkar eru annars vegar. Þessum bæklingi er ætlað að vera þér og þínum sem misst hafið barnið ykkar á meðgöngu einhvers konar handleiðsla og stuðningur á vegi sorgarinnar. Honum er einnig ætlað að upplýsa þig um réttindi þín og þá þjónustu fagfólks sem veitt er á kvennadeildum Landspítalans. Sjálfsagt er hugur þinn fullur af spurningum og vangaveltum sem þú munt vilja bera undir og spyrja t.d. það fagfólk sem kemur til með að annast þig á kvennadeildum Landspítalans. Þú skalt ekki hika við að spyrja um það sem þér liggur á hjarta. Skrifaðu hjá þér það sem þú ert að velta fyrir þér. Þú getur notað auðu línurnar sem er að finna í bæklingnum til þess. 4

6 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG TILFINNINGAR SORGARINNAR Þegar verðandi foreldrar standa frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að kveðja barnið sitt veldur það langoftast djúpri sorg. Að fá vitneskju um að barn er dáið í móðurkviði, að þurfa ef til vill að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að setja fæðingu af stað til dæmis vegna alvarlegs fósturgalla er mikið áfall. Engir tveir einstaklingar bregðast þó við með sama hætti. Sorgin er alltaf einstaklingsbundin. Það á líka við um þig og maka þinn. Þið kunnið að bregðast við með ólíkum hætti. Við missi á meðgöngu eru engin viðbrögð réttari en önnur og engin tvö tilvik eru eins. Þrátt fyrir þetta fylgja sorginni margvíslegar tilfinningar sem flestir, bæði mæður og feður og aðrir aðstandendur, finna og upplifa með einum eða öðrum hætti. Flestir verða í upphafi fyrir miklu áfalli. Hugsanir eins og þetta getur ekki verið satt, mig hlýtur að vera að dreyma togast á við sáran raunveruleikann. Sumir sýna strax í upphafi sterkar tilfinningar, gráta, spyrja, leita svara Aðrir sýna minni viðbrögð. Hvort tveggja er eðlilegt. Þegar dregur úr mesta áfallinu og raunveruleikinn verður ljósari þarft þú að takast á við ýmsar tilfinningar og líðan. 5

7 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Djúp vonbrigði: Vonbrigði yfir því að svona skyldi hafa farið. Ég sem hlakkaði svo til. Vanmáttur: Að geta ekki gert neitt til þess að bjarga barninu. Þér finnst þú jafnvel hafa misst stjórn á líkama þínum. Ég sem fór svo vel með mig. Ótti: Hann tengist ef til vill hugsuninni um að eitthvað sé að mér. Kannski get ég ekki eignast börn. Kannski pössum við ekki saman. Kvíði: Skyldi þetta gerast aftur? Kvíði getur líka litað daglegt líf þitt í kjölfar missisins. Dagleg viðfangsefni geta um tíma jafnvel orðið óyfirstíganleg og þú kvíðir því að þurfa að takast á við einföldustu verk. Sektarkennd: Var þetta á einhvern hátt mér að kenna? Gerði ég eitthvað rangt á meðgöngunni? Munum að sektarkenndin á langoftast ekki við nein rök að styðjast. Reiði: Reiðin getur beinst að þér eða fjölskyldu þinni. Hún kann að beinast að sjúkrahúsinu, starfsfólki eða öðrum sem önnuðust ykkur á meðgöngunni. Reiðin getur líka beinst að æðri máttarvöldum. Munum að allar þessar tilfinningar eru eðlilegar í sorginni og koma fram hjá mörgum við missi. 6

8 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG LÍKAMLEG VIÐBRÖGÐ SORGARINNAR Líkamleg þreyta er algeng í upphafi sorgar. Þú gætir fundið fyrir einkennum eins og andþyngslum, þörf fyrir að taka djúp andköf, hjartslætti, kviðarholsóþægindum og þyngslaverkjum í handleggjum. Matarlyst getur breyst. Þú getur átt erfitt með svefn og stundum bætast við erfiðir draumar, jafnvel martraðir. Mikilvægt er að þú fáir góðan nætursvefn. Við svefnleysi geta lyf komið að gagni. Áður fyrr voru róandi lyf mikið notuð til að lina sorgina. Mikil notkun slíkra lyfja getur tafið eðlilegan gang sorgarinnar og frestað þeim sársauka sem þú þarft að takast á við, fyrr eða síðar. Leyfðu þér að láta í ljós tilfinningar þínar og talaðu um líðan þína við maka þinn og/ eða þína nánustu. Reynslan sýnir að það getur verið mikil hjálp fólgin í því að reyna að setja í orð tilfinningar og líðan. Nýttu þér einnig þann stuðning og þá ráðgjöf sem þér stendur til boða. 7

9 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU 8

10 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 9 Að missa barn á meðgöngu Þegar barn deyr verður fyrsta hugsunin oft að leita skýringa. Hvað gerðist? Fyrstu viðbrögð þín geta verið að hugsanlega hafir þú gert eitthvað rangt en svo er nánast aldrei. Til eru sjúkdómar sem koma upp hjá barni á fósturskeiði, sjúkdómar í fylgju sem leiða til veikinda eða dauða barns eða fylgja og naflastrengur hafa ekki þroskast eðlilega. Alvarlegir sjúkdómar móður sem hafa áhrif á vöxt og þroska fósturs geta einnig verið mögulegar ástæður, til dæmis sykursýki og meðgöngueitrun. Tvíburar/fjölburar Ýmsar ástæður geta legið að baki fyrirburafæðingu fjölbura. Meðgöngutengd vandamál eru algengari hjá fjölburum, svo sem háþrýstingur, meðgöngueitrun, sykursýki, blóðskipti milli tvíbura (twin to twin transfusion syndrome), vaxtarseinkun og fleiri ástæður. Leghálsbilun er algengari hjá fjölburum. Vegna þans á legi er algengara að samdrættir byrji fyrr og fæðingin fari þess vegna af stað þótt meðganga sé skammt á veg komin. Alvarlegir fósturgallar Á seinni hluta meðgöngu geta greinst alvarlegir sköpulagsgallar í þvagfærum, hjarta, miðtaugakerfi eða meltingarfærum sem geta leitt til dauða barns á meðgöngu eða skömmu eftir fæðingu. Leghálsbilun MÖGULEGAR ÁSTÆÐUR Leghálsinn sér um að halda fóstri innan legsins alla meðgönguna en opnast svo þegar fæðingin fer af stað. Stöku sinnum getur orðið leghálsbilun og eru einkennin blæðing eða útferð, án samdráttarverkja eða hríða. Í einstaka tilfellum er um meðfæddan galla að ræða í leghálsi sem getur tengst almennri veikingu í bandvef. Einnig getur verið meðfæddur

11 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU galli í legi og/eða leghálsi móður eða að leghálsinn sé stuttur frá náttúrunnar hendi. Loks getur komið fram leghálsbilun eftir áverka á leghálsi við fyrri fæðingar eða eftir útskaf frá legi. Aðgerðir á leghálsi, t.d. keiluskurður, geta einnig aukið hættu á leghálsbilun. Stuttur legháls leiðir til þess að slímtappinn getur verið lítill. Slímtappinn myndar vörn gegn sýkingum, þar er að finna mótefni (IgA) og önnur efni sem veita virka sýkingarvörn. Lítill slímtappi getur því haft þær afleiðingar að bakteríur eigi greiðari leið upp í gegnum leghálsinn og inn í legið og valdi þar sýkingu. Sjúkdómsmyndin er gjarnan þannig að þegar konan fær einkenni er allt um seinan. Sýking Sýking getur borist í leg frá leggöngum og upp í gegnum legháls eða með blóðrás móður. Sýking sem verður í fósturhimnum og legi er ávallt alvarleg og getur leitt til mjög alvarlegra veikinda móður. Sýklalyfjagjöf til móður nær aðeins að takmörkuðu leyti til fósturhimna, fósturs og legs og því er eina leiðin til að uppræta sýkinguna að láta fóstur og fylgju fæðast og ljúka þannig meðgöngu. Dæmigert er að sýking í legi komi upp í kjölfar leghálsbilunar. Þegar legháls er af eðlilegri lengd getur sýking einnig orðið ef móðirin er með veikar varnir eða skerta starfsemi ónæmiskerfis. Naflastrengur Klemma á naflastreng getur einstaka sinnum valdið dauða barns, sérstaklega ef strengurinn er mjög langur og/eða grannur. Oft eru þá aðrir meðverkandi þættir eins og vaxtarskerðing vegna fylgjuþurrðar, sjá neðar. 10

12 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 11 Fylgja Svokölluð fylgjuþurrð getur valdið því að flæði súrefnis og næringar frá fylgju skerðist og það leitt til vaxtarskerðingar og jafnvel dauða barns á meðgöngu. Oftast eru þá undirliggjandi sjúkdómar hjá móðurinni, svo sem meðgöngueitrun eða langvinnur alvarlegur háþrýstingur. Einnig getur fylgjan losnað frá legi á meðgöngu, með eða án sýnilegrar blæðingar, og það jafnvel leitt til dauða barns. Þegar svör vantar Stundum er skýring augljós strax við missinn. Í öðrum tilvikum geta krufning, litningarannsókn eða sértækar blóðrannsóknir gefið skýringu, eða leitt í ljós ástæður. Jafnvel nákvæmustu rannsóknir leiða ekki alltaf í ljós orsök missisins og það getur verið erfitt að sætta sig við að ekki finnist skýring á því hvernig fór. Krufning Eitt af því sem þú þarft að taka ákvörðun um er hvort kryfja á barnið eða ekki. Krufning getur gefið mikilvægar upplýsingar um dánarorsök barnsins. Niðurstöður krufningarinnar geta einnig skipt miklu máli fyrir næstu meðgöngu. Þegar barn greinist látið Algengast er að barn greinist látið eftir skoðun í mæðravernd eða á fæðingardeild vegna þess að hreyfingar eru öðruvísi en venjulega eða hafa ekki fundist í einhvern tíma. Byrjað er á að hlusta fósturhjartslátt og ef hann heyrist ekki er gerð sónarskoðun sem staðfestir að ekki er hjartsláttur hjá barninu. Þrátt fyrir að barnið hafi látist getur þér fundist þú finna hreyfingar vegna þess að barnið færist til í vatninu sem umlykur það. Þetta getur verið mjög streituvaldandi.

13 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Fæðing Eftir að lát barns hefur verið staðfest ræða læknir og ljósmóðir við þig um meðgönguna, heilsu þína fyrir meðgönguna og hvernig fæðingunni verður háttað. Andvana fæðingar eru um það bil ein af hverjum tvö hundruð fæðingum. VIÐ KOMU Á DEILD Við komu á fæðingardeild tekur ljósmóðir á móti þér og fylgir á stofuna sem þú kemur til með að dvelja á. Þú dvelur á einbýli með salerni og sturtu. Hægt er að setja inn aukarúm fyrir maka/aðstandanda. Þú getur haft nánustu aðstandendur hjá þér eins og þú vilt. Farið verður vandlega yfir með þér hvernig fæðingu er háttað, leitast við að svara spurningum sem þú kannt að hafa og farið yfir óskir þínar varðandi ferlið í heild sinni. Reynt er að haga því þannig að sem fæstir annist þig á meðan þú dvelur á deildinni. Þér er boðið að fá til þín prest eða djákna sem starfa við deildina. Ef þú óskar eftir að fá til þín prest sem þú þekkir getur starfsfólk deildarinnar aðstoðað þig við að komast í samband við hann. Eftir að læknir og ljósmóðir hafa útskýrt og rætt við þig um aðdraganda og mögulegar orsakir á láti barnsins þíns eru gerðar ýmsar rannsóknir til að meta ástand þitt og reyna að finna skýringu á dauða barnsins. Konur sem eru án rhesus-þáttar (Rh neg) fá immonuglóbulín-sprautu í vöðva til að koma í veg fyrir mótefnamyndun ef blóðblöndun hefur orðið milli móður og fósturs. Ef þú ert ekki þegar byrjuð í fæðingu er mælt með framköllun fæðingar. 12

14 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 13 Ef blóðprufur eru innan eðlilegra marka og þú óskar eftir því að fara aðeins heim getur þú gert það. Við mælum þó með að þú komir aftur innan 24 klst. þar sem ekki er talið æskilegt að bíða með framköllun fæðingar lengur en þann tíma. Það getur verið gott að fara heim og átta sig aðeins á því sem gerst hefur. Þegar þú kemur á deildina tekur ljósmóðir á móti þér. Ljósmóðirin fer yfir helstu atriðin varðandi fæðinguna, við hverju þú getur búist bæði varðandi fæðinguna sjálfa og barnið. Meðan þú dvelur á fæðingardeildinni er þér velkomið að borða og drekka það sem þú vilt. Við framköllun á fæðingu eru oftast notuð lyf. Í upphafi eru að jafnaði notuð lyf í töfluformi (Cytotec). Þau eru gefin um leggöng á 4 6 klst. fresti þar til hríðir eru byrjaðar. Helstu aukaverkanir þessa lyfs eru niðurgangur og ógleði. Þegar leghálsinn er skoðaður í fyrsta skipti eru tekin strok úr leggöngum sem send eru til rannsóknar. Þegar leghálsinn hefur tekið að breytast er stundum líka notað annað lyf sem gefið er í æð og heitir Syntocinon (Oxytocin). Einnig getur þurft að rjúfa belgi og er legvatnið oftast grænt eða brúnt. Þetta ferli tekur mismunandi langan tíma. Hefst það oft með samdráttum sem geta verið þéttir og óþægilegir. Þegar þú byrjar að finna verki samfara samdráttum getur þú þurft á verkjastillandi lyfjum að halda. Þegar samdráttaverkirnir eru orðnir sterkir og hafa þróast yfir í hríðir er fæðing hafin. Það er mjög misjafnt hvað framköllun fæðingar og fæðingin sjálf tekur langan tíma. Í fæðingunni eru oft 2 5 mínútur milli hríða, hvíld á að koma í legið milli þeirra en verkjaseyðingur getur verið í mjóbaki og fyrir ofan lífbein. Í fæðingu getur þú notað allar þær verkjastillandi meðferðir sem notaðar eru almennt í fæðingum ef ástand þitt leyfir. Eftir að útvíkkun lýkur fæðist barnið. Þegar barnið er fætt eru stundum tekin strok frá húð þess og send í ræktun, ef við á er tekið naflastrengsblóð. Fljótlega eftir fæðinguna er þér gefið samdráttaörvandi lyf í vöðva. Eftir að fylgjan er fædd eru tekin sýni frá henni og hún síðan send í rannsókn. Þú getur fengið að sjá fylgjuna og skoðað með ljósmóðurinni þinni. Eftir fæðinguna þarf að fylgjast með leginu með tilliti til hversu vel saman dregið það er og hversu mikið blæðir.

15 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Að sjá og snerta barnið Fyrir fæðingu er oftast búið að ræða við ykkur um hvenær og hvort þið viljið sjá barnið. Einhverjum ykkar kann að þykja það kvíðvænlegt. Munum að sú mynd sem við búum okkur til í huganum getur verið mun verri en raunveruleikinn. Margir komast að raun um að raunverulegt útlit barnsins veitir meiri huggun en óljós hugmynd eða ímyndun getur gert. Ljósmóðir aðstoðar ykkur við að gera þetta á þann hátt sem ykkur hentar. Þið getið fengið barnið til ykkar þegar það fæðist eða þegar ljósmóðirin ykkar hefur búið um það. Ef þið óskið eftir að bíða með að sjá barnið er farið með það fram þar sem það er vigtað og mælt. Þið fáið handa- og fótafar og hárlokk (ef hægt er) af barninu á fallegu korti sem þið getið varðveitt. Ljósmóðirin ykkar mun búa um barnið á fallegan hátt áður en komið er með það til ykkar. Það er mikilvægt að þið takið ykkur þann tíma sem þið þurfið til þess að kveðja. Þótt það sé dýrmætt að fá tækifæri til þess að sjá barnið, þá geta aðstæður verið þess eðlis að þið takið þá ákvörðun að sjá ekki barnið. Við erum ekki öll eins, þarfir okkar eru mismunandi og aðstæður okkar hvers og eins ólíkar. Við virðum ákvörðun ykkar og hjálpum ykkur við að kveðja á þann hátt sem þið kjósið. Ef fylgjan fæðist ekki sjálfkrafa innan mínútna getur þurft að sækja hana. Er það gert í svæfingu og tekur oftast mínútur. Þegar þú ert tilbúin er barnið vigtað og mælt. Þið getið haft barnið hjá ykkur eins lengi og þið viljið. Ef allt gengur eðlilega fyrir sig ferð þú heim innan sólarhrings frá fæðingu og í framhaldi af því færð þú heimaþjónustu ljósmóður. Oft er það ljósmóðirin þín úr mæðraverndinni eða sú ljósmóðir sem mest hefur sinnt þér á deildinni. Ljósmóðir og prestur aðstoða þig síðan við undirbúning og jarðsetningu barnsins þíns. 14

16 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Keisaraskurður Það er erfið tilhugsun að þurfa að ganga í gegnum fæðingu og margir spyrja hvort ekki sé betra að gangast undir keisaraskurð en reynsla og rannsóknir sýna að fæðing er betri og eðlilegri kostur þótt tilhugsunin sé erfið. Í einstaka tilvikum getur þó verið nauðsynlegt að gera keisaraskurð með tilliti til heilsufars móður. Ljósmyndir Ljósmóðir hefur samband við ljósmyndara Landspítalans sem kemur og tekur myndir af barninu ykkar sem þið síðan fáið. Ykkur er einnig velkomið að taka sjálf myndir af barninu. Ykkur kann ef til vill á þessari stundu að þykja það ólíklegt að þið munið vilja eiga slíkar myndir. Viðhorf ykkar kann þó að breytast síðar. Ljósmyndir af barninu, ásamt til dæmis sónarmyndum, myndum frá þunguninni og öðru því sem hægt er að varðveita til minningar, geta verið dýrmætar fyrir ykkur síðar meir. Ef þið treystið ykkur ekki sjálf til þess að taka myndir getið þið annaðhvort leitað til einhvers sem þið þekkið og treystið eða beðið ljósmóðurina sem sinnir ykkur að taka myndir. Ef þið viljið ekki taka myndir er það líka rétt og eðlilegt. Munum að við erum ólík og þarfir okkar líka. 15

17 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Útskrift Ef eðlileg úthreinsun er frá legi, legið vel samandregið, blóðprufur innan eðlilegra marka og þú ert líkamlega hraust útskrifast þú samdægurs eða daginn eftir. Ljósmóðir sér um útskrift þar sem þú færð meðal annars upplýsingar um heimaþjónustu og ráðleggingar varðandi heimferð. Viðtal við lækni Við útskrift eru bókuð tvö viðtöl við lækni, fyrst tveim vikum eftir fæðingu og seinna viðtalið um átta vikum eftir fæðingu. Í viðtölunum verður farið yfir niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið og þér gefst kostur á að fá svör við þeim spurningum sem þú kannt að hafa. Ef niðurstöður rannsókna liggja ekki fyrir gætir þú þurft að koma aftur síðar. Það getur verið gott að skrifa niður jafnóðum þær spurningar sem þig langar að fá svör við eða þau atriði sem þig vantar skýringar á og taka með í viðtölin. Mjólkurmyndun Þú getur fundið fyrir óþægindum í brjóstunum, einkum ef þú hefur haft barn á brjósti áður og eins ef þú ert í námunda við lítil börn. Draga má úr mjólkurmyndun með því að nota brjóstahöld sem þrengja að brjóstunum. Forðastu að erta geirvörturnar, láta heitt vatn renna á brjóstin eða mjólka brjóstin. Kaldir bakstrar á brjóstin geta dregið úr óþægindum. Þú getur bleytt tusku, undið hana og sett í frysti, notað kæld hvítkálsblöð á brjóstin eða aðra kalda bakstra. Einnig getur verið gott að taka verkjalyf. Hægt er að gefa lyf (Dostinex) til að hindra eða draga úr mjólkurmyndun en það lyf er sjaldan gefið vegna aukaverkana sem það getur haft í för með sér. 16

18 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Hafa samband Þú mátt búast við úthreinsun frá leginu í tvær til sex vikur eftir fæðingu. Ef þú færð eitthvert af þessum einkennum innan tveggja vikna frá fæðingu bendum við þér á að hafa samband við fæðingardeild í síma : hita, slæma kviðverki, illa lyktandi útferð, miklar blæðingar (meira en við venjulegar tíðablæðingar), stórar blóðlifrar frá leginu, vandamál frá brjóstum. Eftir fyrstu tvær vikurnar skaltu hafa samband við þína heilsugæslustöð eða Læknavaktina í síma Kynlíf Að byrja aftur að stunda kynlíf eftir missi á meðgöngu getur vakið margar blendnar tilfinningar. Hugsanlega er annað ykkar tilbúið fyrr en hitt. Eðlilegt að þið finnið fyrir hvoru tveggja, löngun til þess að byrja strax og löngun til þess að bíða. Með því að tala um kynlíf og tilfinningar ykkar munuð þið vonandi geta komist að niðurstöðu sem hentar ykkur báðum. Ráðlagt er að bíða með samfarir þar til sex vikur eru liðnar frá fæðingu. Á þeim tíma er sárið sem er í leginu eftir fylgjuna að gróa og því blæðir frá leggöngum (úthreinsun). 17

19 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Hver og ein kona verður að finna það sjálf hvenær hún er tilbúin að hafa samfarir. Ef kona er tilbúin áður en sex vikur líða er mælt með að nota verjur vegna sýkingarhættu. Í sumum tilfellum er ráðlagt að bíða með að verða aftur þunguð þar til niðurstöður rannsókna liggja fyrir og mun læknir veita ráðleggingar um það. Egglos getur orðið fljótlega eftir fæðinguna og því er mikilvægt að nota getnaðarvarnir ef þungun er ekki ráðgerð. Ekki hika við að hafa samband við ljósmóður/lækni ykkar ef þið hafið einhverjar spurningar. HLÁTUR OG GRÁTUR Það er ekkert að því að gráta Flestir syrgjendur hafa þörf fyrir að gráta. Um leið er einstaklingsbundið hversu mikið við grátum og gott er að hafa í huga að grátur er ekki mælikvarði á hversu mikið þú syrgir. Sumir eiga erfitt með að gráta í návist annarra. Öðrum finnst þvert á móti gott að vera meðal fólks og þiggja gjarnan snertingu og nærveru. Hvort tveggja er eðlilegt. Margir finna fyrir vissum létti við það að gráta. Gráturinn getur hjálpað þér við að losa um sorg og tilfinningaspennu. Með tímanum mun þörfin fyrir að gráta minnka hjá ykkur flestum. Þar með er þó ekki sagt að þú hættir alveg að gráta. Það geta komið dagar sem eru erfiðari en aðrir og þú brotnar niður og grætur. Ekki láta þér bregða. Þetta er eðlilegt. Vinir þínir og ættingjar munu bregðast við sorg þinni með mismunandi hætti. Einhverjir munu jafnvel hafa tilhneigingu til þess að forðast að nefna missinn af ótta við að það komi þér til þess að gráta. Ekki taka viðbrögðum ástvina þinna illa. Þetta er þeirra leið til þess að láta þér líða betur. 18

20 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 19 Það er ekkert að því að gleðjast Ekki vera með samviskubit ef þú upplifir gleðistundir mitt í sorginni. Það er ekki vísbending um að þú hafir gleymt eða að þú syrgir ekki á viðeigandi hátt. Þú getur fundið fyrir miklum dagsveiflum. Eftir því sem lengra líður frá missinum mun þeim dögum fækka sem einkennast af sorg og depurð. Mundu að það er í lagi að gleðjast og njóta aftur. Önnur börn á heimilinu og í fjölskyldunni Ef þú átt eldri börn er mikilvægt að þau fái að vera þátttakendur í því sem þú ert að ganga í gegnum. Það þarf þó að gerast á þeirra forsendum. Börnin þín hafa jafnvel verið þátttakendur í meðgöngunni og tilhlökkun þinni og eftirvæntingu. Þau eru þess vegna líka í uppnámi og þurfa á ástúð þinni og umhyggju að halda. Segðu börnunum sannleikann. Gættu þess um leið að taka mið af aldri þeirra og þroska. Ef þú ert í vafa um hvernig best er að ræða við börnin þín getur starfsfólkið á deildinni, t.d. sjúkrahúsprestur eða djákni, leiðbeint þér. Mundu að ímyndunarafl barna getur verið mjög frjótt. Börn eru fljót að fylla í eyður og búa sér jafnvel þannig til raunveruleika sem ekki á við rök að styðjast sé þeim alfarið haldið utan við sorg og áföll í fjölskyldunni. Börn eru næm á líðan og tilfinningar foreldranna. Þau finna að þú ert sorgmædd. Þess vegna er betra að þau viti hvers vegna þér líður illa heldur en að þau búi sér til skýringar sjálf. Börn vilja kannski ræða við þig af hreinskilni og hispursleysi um dána barnið. Vertu undir þetta búin. Skýr og einföld svör við spurningum þeirra eru besta ráðið. Veittu þeim upplýsingar um það sem þau spyrja um og hafa þroska til að skilja. Afar og ömmur Afar og ömmur syrgja líka þegar þú missir barnið þitt. Þau syrgja barnabarnið sitt sem þau fá ekki tækifæri til að kynnast og sjá vaxa úr grasi. Þeim líður einnig illa vegna þín, barnsins síns.

21 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Á sama hátt og þú vilt ekki að börnin þín þjáist hafa foreldrar þínir tilhneigingu til að vernda þig gegn sársauka sorgarinnar. Leyfðu þeim að taka þátt í sorginni með þér og létta þér byrðina eins og hægt er. Að segja frá Flestir kjósa að segja sjálfir nánustu ættingjum sínum og vinum frá dauða barnsins. Hvað varðar aðra í umhverfi þínu getur verið gott að láta boðin berast frá einum til annars. Gott er að tala við þína nánustu um það hvernig þú ætlar að færa fjölskyldu, vinum og öðrum fréttina af missi þínum. Að mæta aftur í vinnuna Mörgum finnst óþægilegt að mæta aftur til starfa eftir að hafa verið frá vinnu vegna missis. Það getur verið þér erfitt að hitta aftur samstarfsfólkið, þú óttast viðbrögð þess og þín eigin viðbrögð. Þér finnst kannski óþægilegt ef athyglin beinist að þér. Enn fremur gætu einhverjir forðast að tala við þig. Þú getur einnig átt von á því að einhverjir nálgist þig og vilji deila með þér eigin raunum. Sumum finnst gott að fara fyrst í heimsókn áður en komið er aftur til vinnu. Öðrum finnst hjálplegt að koma sér upp tengiliðum í vinnunni sem sjá um að miðla upplýsingum til annars samstarfsfólks. Að umgangast lítil börn og ófrískar konur Eftir missi á meðgöngu eiga sumir foreldrar erfitt með að umgangast lítil börn og ófrískar konur. Hugsanlega finnst þér þú sjá nýfædd börn hvar sem þú ert og hvert sem þú lítur. Fæðing barns hjá vinum eða ættingjum, barnaafmæli eða aðrar samkomur þar sem börn eru kunna að ýfa upp vanlíðan þína og sorg og því er skiljanlegt að þú leitist fyrst um sinn við að sneiða hjá slíkum aðstæðum sé það hægt. 20

22 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 21 Til lengdar er þó ekki ráðlegt að forðast börn og verðandi foreldra eða hverjar þær aðstæður sem þér þykja sársaukafullar. Reyndu smám saman að takast á við þær aðstæður sem þér finnst erfiðar. Þannig muntu með tímanum geta umgengist lítil börn og verðandi foreldra án þess að sársauki hellist yfir þig í hvert skipti. Hafðu líka í huga að verðandi eða nýbökuðum foreldrum getur reynst erfitt að hitta þig eftir missinn. Þau óttast að valda þér vanlíðan og forðast jafnvel að hitta þig. Mundu að þau vilja þér vel. Nokkur orð til maka Við missi á meðgöngu syrgir makinn einnig og hann kann að upplifa sömu eða svipaðar tilfinningar og móðirin. Á síðustu árum hefur skilningur aukist á því að makinn hefur líka tengst barninu. Hann þarf því einnig að fá tækifæri til þess að syrgja barnið sitt og læra að lifa með því sem orðið er. Það kann að hryggja þig, makann, þegar fólk spyr einungis um heilsufar móðurinnar vegna þess að það gerir sér grein fyrir söknuði hennar og missi en gleymir að þú átt einnig um sárt að binda. Líf þitt og tilfinningar hafa líka breytt um farveg vegna væntanlegrar komu þessa nýja einstaklings og lát barnsins er þér líka mikið áfall. Kistulagning/útför AÐ KVEÐJA BARNIÐ Meðal þess sem þú stendur frammi fyrir er kistulagning barnsins þíns og útför. Þótt tilhugsunin um útför barnsins sé sár hjálpar hún þér að setja sorg þína og reynslu í farveg. Langflest börn sem fæðast andvana eru jarðsett í eigin kistu, oft í gröf ættingja móður eða föður, eða í eigin gröf. Brennsla er einnig möguleiki; er duftker barnsins þá jarðsett með sama hætti og fyrr greinir.

23 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Brennsla er einnig möguleiki; er duftker barnsins þá jarðsett með sama hætti og fyrr greinir. Margir foreldrar kjósa að merkja gröf barnsins með nafni þess, fæðingar- og dánardegi. Þá er barn sem fæðist andvana skráð í kirkjubækur undir nafni sínu, ásamt nöfnum ykkar foreldranna. Það er mikilvægt að þú og maki þinn takið ykkur góðan tíma þegar kemur að því að ákveða hvernig þið viljið kveðja barnið ykkar. Ræðið saman og hlustið hvort á annað. Þá geta sjúkrahúsprestar, djákni eða ljósmóðir aðstoðað þig og fjölskyldu þína og leiðbeint eftir þörfum. Þú getur líka leitað til þíns eigin prests eða fulltrúa þess trú- eða lífsskoðunarfélags sem þú heyrir til. Varðveisla minninga Foreldrum sem missa barnið sitt á meðgöngu getur reynst það dýrmætt síðar meir að eiga minningar um barnið. Þessar minningar geta verið af ýmsum toga. Ráðunum sem nefnd eru hér að framan er öllum ætlað að hjálpa þér að setja reynslu þína og sorg í farveg um leið og það sem þú gerir verður hluti af minningunni um barnið. Þú getur auk þess farið þína eigin persónulegu leið og varðveitt minningar á þann hátt sem þú kýst. Eftirfarandi eru dæmi um leiðir til að varðveita minninguna um barnið. 22

24 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Þú getur: skrifað bréf eða ljóð til barnsins, haldið dagbók yfir tilfinningar þínar til barnsins, haldið minningarathöfn, búið til reit í garðinum þínum með steinum, gróðri eða öðru því sem þér finnst við hæfi, kveikt á kerti í minningu barnsins, búið til minningarkassa sem ætlaður er hlutum er minna á barnið, t.d. myndum frá meðgöngunni, sónarmyndum og/eða myndum af barninu, séu þær til. Að gefa barninu nafn Margir foreldrar kjósa að gefa barninu nafn. Það þarf ekki að gera strax, þið megið taka ykkur tíma í að íhuga hvað þið viljið gera. Hvort sem þið gefið barninu nafn eða ekki þá er það ykkar ákvörðun og sú ákvörðun er rétt. 23

25 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Mikilvægar dagsetningar Fyrir þig eru dagurinn sem barnið fæddist, dagurinn sem missirinn varð og dagurinn sem barnið hefði átt að fæðast mikilvægir. Með tímanum kunna aðrir fjölskyldumeðlimir að gleyma þessum dögum. Reyndu að taka það ekki of mikið nærri þér og minntu ástvini þína á þær dagsetningar sem eru þér kærar. MEÐGANGA EFTIR MISSI Það er flestum eðlilegt að vilja eignast börn og fjölskyldu og flestir sem ganga í gegnum missi á meðgöngu reyna að eignast barn aftur. Þegar að næstu meðgöngu kemur geta margar tilfinningar komið upp, mikil gleði en einnig kvíði og hræðsla. Það getur orðið erfitt þegar sá tími meðgöngunnar rennur upp þegar þú misstir barnið þitt. Einnig getur verið erfitt að tengjast hugsuninni um nýtt barn og trúa því að þessi meðganga eigi eftir að enda vel. Mikilvægt er að láta aðra vita hvernig þér líður. Þessar tilfinningar geta átt við alla í fjölskyldunni og er eðlilegt að finna fyrir þeim. Hins vegar er mikilvægt að reyna að njóta meðgöngunnar eins og hægt er og hafa í huga að í langflestum tilfellum endar meðganga með lifandi og heilbrigðu barni. 24

26 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG ÞJÓNUSTA Sálgæsla presta og djákna Sjúkrahúsprestar og djákni á Landspítala eru vígðir þjónar kirkjunnar og hafa allir framhaldsmenntun í sálgæslu. Þjónusta presta og djákna stendur öllum til boða, jafnt þér sem aðstandendum þínum, án tillits til lífsskoðana eða trúarafstöðu. Ef þú kýst getur þú fengið þinn prest eða fulltrúa þíns trúfélags til þess að koma til þín á deildina. Sjúkrahúsprestur eða djákni á deildinni getur verið þér innan handar við að koma á þeim tengslum sem þú kýst. Ef þú kemur langt að getur starfsfólkið hjálpað þér að finna viðeigandi úrræði í þinni heimabyggð. Markmið sálgæslunnar er að liðsinna þeim sem glíma við sorg og sárar tilfinningar tengdar áföllum í lífinu. Þegar um missi á meðgöngu er að ræða er hlutverk prests/djákna fólgið í því að styðja foreldrana í gegnum fyrsta áfallið og vera stuðningur í sorginni. Það gerir hann með því að ræða við foreldrana og veita um leið ráðgjöf og vera þeim innan handar varðandi hugsanleg verkefni sem þeir standa frammi fyrir eftir missinn. Sjúkrahúsprestur eða djákni hittir þig ýmist fyrir eða eftir fæðinguna, allt eftir óskum og aðstæðum hverju sinni. Hann leitast við að svara spurningum og leiðbeina þér varðandi til dæmis önnur börn þín og ástvini. Ef þú vilt getur hann séð um kveðjustund eftir að barnið er fætt. Sú kveðjustund fer fram á stofunni þar sem þú dvelur. Barn sem deyr í móðurkviði er ekki skírt. Hins vegar getur þú, ef þú kýst, gefið barninu nafn. Nafn barnsins er nefnt í kveðjustundinni. Sjúkrahúsprestur, djákni eða ljósmóðir kynnir fyrir þér þá eftirfylgd sem í boði er af hálfu spítalans. 25

27 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Félagsráðgjöf Félagsráðgjafar á kvennadeildum Landspítalans bjóða þér og maka þínum sálfélagslegan stuðning og ráðgjöf ásamt upplýsingum um fæðingarorlof eða önnur réttindi. Á virkum dögum er reynt að bregðast fljótt við og hitta þig áður en þú ferð heim ef þú óskar þess, annars er haft samband eftir að heim er komið og þér og maka þínum er boðinn viðtalstími. Félagsráðgjafar á kvennadeildum eru með símatíma alla virka daga milli kl. 9:00 og 10:00 í síma Fæðingarorlof Skv. 12. grein laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 eiga foreldrar sameiginlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í allt að þrjá mánuði vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu. Með umsókn skal fylgja læknisvottorð þar sem lengd meðgöngu kemur fram. Einungis er heimilt að taka orlofið út næstu þrjá mánuði eftir andvanafæðingu. Ef barn fæðist lifandi en andast eftir fæðingu gilda sömu reglur og almennt gilda um lifandi fædd börn. Barnalæknir gefur út dánarvottorð ef barn fæðist lifandi. Sálfræðiþjónusta Eftir útskrift stendur þér til boða að ræða við sálfræðing. Að jafnaði hefur sálfræðingur samband við þig sex til átta vikum eftir fæðingu. 26

28 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG LOKAORÐ Við vitum að sorgarferlið tekur lengri tíma en sem nemur þeim fáeinu dögum sem þú og maki þinn eruð í umsjá okkar sem störfum á kvennadeildum Landspítalans. Við vitum að í hönd fer erfiður tími þar sem þið, hvert og eitt, þurfið að takast á við sorg og sárar tilfinningar. Það er einlæg von okkar að þessi bæklingur nýtist þér og fjölskyldu þinni á þeirri vegferð sem þið eruð nú á, að hann verði ykkur stuðningur og leiðarvísir í sorg ykkar og söknuði. Það er enginn sem getur bægt frá ykkur þeirri sorg sem þið finnið fyrir. Bæklingurinn og sögur þeirra foreldra sem hér fylgja geta þó vonandi leitt huga ykkar að því að þið standið ekki ein og yfirgefin. Það eru margir sem bæði geta veitt og vilja veita ykkur aðstoð við þessar erfiðu aðstæður. Dæmdu ekki skýið, er skyggði á sól, í skugga síns lögmáls það birtuna fól. Er feykir því aftur hinn frelsandi blær, þú fyrst getur metið, hvað sólin er skær. E.J. 27

29

30 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 29 Rósa stóra systir SÖGUR FORELDRA Gleði, spenna og eftirvænting eru væntanlega þau orð sem lýsa best tilfinningum mínum á leiðinni á fæðingardeildina fyrir rúmum sex árum. Við vorum búin að reyna í nokkur ár að eignast barn og höfðum því beðið lengi eftir þeirri stund sem myndi breyta lífi okkar til frambúðar. Það fór þó á annan veg en við ætluðum. Eftir erfiða fæðingu fæddist fullburða, falleg lítil stelpa sem var ekki hugað líf og lést nokkrum klukkustundum síðar. Við vorum búin að ákveða nafn áður en stelpan fæddist og fékk hún nafnið Rósa. Haldin var falleg skírnarathöfn á vökudeildinni þar sem nánasta fjölskylda fékk tækifæri til að hitta og kveðja litlu stelpuna. Í kjölfar andlátsins tók útförin svo við. Okkur var gefin sú ráðlegging að takmarka fjölda gesta við athöfnina. Við komum bæði úr stórum fjölskyldum og eigum stóra vinahópa og hefðu margir mætt við útförina til að styðja okkur. Í staðinn var haldin kyrrðarstund í kirkjunni okkar í kjölfar andlátsins þar sem vinum og ættingjum gafst tækifæri til að sýna samhug sinn. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið rétt ákvörðun að hafa ekki fjölmenna útför, álagið á okkur var búið að vera mikið og tók mikið á að vera í þeim tilfinningalega rússíbana sem einkenndi þennan tíma. Tilfinningarnar flóðu án þess að maður hefði tök á þeim. Sorgarferlið sjálft hófst svo ekki fyrir alvöru fyrr en að útför lokinni. Allt frá fyrstu stundu eftir andlátið lofuðum við, foreldrarnir, að standa saman og komast í gegnum þennan mikla missi saman. Ef eitthvað var styrktist sambandið og giftum við okkur rúmum þremur mánuðum eftir andlát Rósu. Það var góð tilfinning að geta glaðst saman á þessum tíma og hefja nýtt upphaf. Fyrstu mánuðirnir einkenndust af mikilli sorg og var á stundum erfitt að komast í gegnum dagana þegar maður réð vart við tilfinningar sínar. Ég reyndi því að velja þær aðstæður sem ég fór inn í, fór t.d. ekki á mannamót nema ég treysti mér til að takast á við aðstæðurnar. Það kom þó fyrir að tilfinningarnar báru mann ofurliði og kemur það enn fyrir í dag að ég verð meyr við vissar aðstæður þegar ég hugsa til stelpunnar minnar.

31 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Ég hafði mikla þörf fyrir að eyða tíma með konunni minni og pössuðum við vel upp á hvort annað fyrstu mánuðina. Þegar lengra var frá líðið, eða um hálft ár, hafði ég mikla þörf fyrir að vera einn og hugsa málin. Bestu einverustundirnar, þegar ég gat hugsað fallega til stelpunnar minnar, voru í stuttum veiðiferðum út fyrir bæinn. Eins fór ég oft að leiðinu hennar og gat þar látið tilfinningar mínar í ljós. Nokkru síðar fékk ég svo þörf að ræða við sálfræðing um mín mál og mína upplifun. Við hjónin prófuðum að fara saman í tíma en það gekk ekki upp fyrir mig, svo að ég skipti um sálfræðing og var mjög ánægður með þá ákvörðun. Líkt og eðlilegt verður að teljast er í öllu þessu ferli, eftir barnmissi, mikil áhersla á móðurina en minni á föðurinn. Það er hún sem gekk með og fæddi barnið og fer því fyrir vikið í gegnum líkamlegar breytingar sem tóku mikið á sálina þegar ekkert barn var til staðar. Það gerði mér því mjög gott að ræða hlutina í einrúmi við fagaðila þar sem fókusinn var á mig, pabba sem var nýbúinn að missa barnið sitt og eiginmann sem var búinn að fara með konunni sinni gegnum gríðarlega erfiðan tíma. Það getur enginn sagt þér hvernig þú átt nákvæmlega að haga þér eftir barnmissi, hversu langur tími á að líða þar til þú ferð aftur í skóla eða vinnu eða hvert og hvort þú átt að leita eftir aðstoð við að takast á við sorgina. Það eina sem ég veit er að maður verður að gera þetta á eigin forsendum og eins og manni sjálfum finnst best. Ef þér líður vel og þér finnst þú styrkjast þá ertu að gera rétta hluti. Í dag minnumst við Rósu með margvíslegum hætti og hugsum hlýlega til hennar. Hún er hluti af fjölskyldunni okkar og fá yngri systkini hennar að þekkja sögu hennar. Við förum í fjölskylduferðir í kirkjugarðinn, t.d. um jól og á afmælisdegi hennar. Á afmælisdeginum er nánustu fjölskyldu boðið í mat eða bökuð kaka og dagsins notið í sameiningu. Þrátt fyrir stutta viðveru hefur þessi litla stúlka breytt lífi manns gríðarlega. Hún er ávallt í huganum og þótt maður hafi ekki fengið tækifæri til að lifa lífinu með henni þá lifir hún með manni. 30

32 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Þríburar Ég varð loksins ólétt eftir þrjár glasafrjóvganir, dulið fósturlát og eina uppsetningu á frystum fósturvísum. Í ljós kom að von var á þríburum og tvö barnanna voru eineggja. Þegar gengið er með eineggja fjölbura getur svokallað TTTS (e. Twin to Twin Transfusion Syndrome) gerst hvenær sem er á meðgöngunni. Það er vandamál í fylgjunni sem lýsir sér þannig að annar tvíburinn fær nær allt blóðflæðið og hinn nánast ekki neitt. Þetta gerðist frekar snemma á þessari meðgöngu. Þrátt fyrir aðgerð í Belgíu sem tókst vel, gafst hjarta þess sem hafði fengið of lítið blóðflæði upp þegar tæpar 24 vikur voru liðnar á meðgönguna. Nú gekk ég með eitt látið barn og tvö lifandi. Þetta var einkennilegur tími, hreyfingarnar voru að aukast og því erfitt að hugsa sér að þau væru ekki lengur öll spriklandi í bumbunni. Ég hleypti sorginni ekki að heldur reyndi að halda mér rólegri og bjartsýnni því að enn voru tvö lifandi börn að stækka. Ég endaði í bráðakeisara, þegar ég var gengin 28 vikur, vegna naflastrengsframfalls sem var sem betur fer frá látna barninu okkar. Við eignuðumst tvo drengi og eina stúlku. Þetta var skrítin upplifun, við vorum svo rík þar sem við höfðum eignast tvö lifandi börn, en þau voru samt bara tvö. Hamingjuóskunum fylgdi alltaf samúðarkveðja. Öll orkan fór nú í litlu þriggja og fjögurra marka píslirnar okkar á vökudeildinni. Þó gáfum við okkur tíma til að syrgja litla engladrenginn okkar í tvö skipti, þegar við fengum að sjá hann og þegar hann var jarðaður. Hann hafði rýrnað mikið eftir að hafa verið látinn í fjórar vikur fyrir fæðingu, en eigi að síður sáum við að þarna var lítið fullkomið kríli með alla sína fingur og tær. Við ákváðum nafnið hans á þessari stundu, en hann var nefndur Bjarni eftir tengdaföður mínum heitnum. Jarðarförin var lítil falleg athöfn með okkar nánustu og hann var lagður til hvílu á milli tengdaforeldra minna. Það var ekki fyrr en löngum og ströngum tíma á vökudeildinni var lokið og allt komið í fastar skorður eftir að heim var komið með systkinin að sorginni var hleypt að. Hugsunum um það hvernig þetta hefði nú verið með öll þrjú skaut oft upp. Ég fann ýmsar leiðir til að vinna úr sorginni. 31

33 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Ég sótti mér aðallega styrk og upplýsingar í erlenda spjallþræði á netinu þar sem fólk hafði misst barn vegna TTTS. Ég setti sónarmyndir í ramma og þegar kom að fyrstu jólunum bjó ég til sérstaka minningarkertaskreytingu og hef gert hver jól síðan. Ég setti allt sem tengdist litla stráknum okkar í barnatösku, þar er bók til að skrifa til hans, handafarið sem við fengum og fleira þess háttar. Vinafólk okkar sem hafði einnig misst barn skömmu eftir fæðingu gaf okkur englavængi sem fara alltaf upp á jólatréð. Það sem mér hefur þótt einna erfiðast er að ég er oft spurð að því hvort systkini hans séu ekki tvíburar. Þetta er sérstaklega erfitt þegar ókunnugt fólk á förnum vegi spyr. Í mínum huga eru þau þríburar, enda gekk ég með og eignaðist þrjú börn í einu. Því á ég erfitt með að svara tvíburaspurningunni játandi. En ef ég svara neitandi kallar það á nánari útskýringar sem maður er ekki alltaf tilbúinn að standa í. Það hefur þó hjálpað mikið í sorginni og þessum aðstæðum að ég á auðvelt með að tala um hvað gerðist og að þau hefðu átt að vera þrjú. Börnin sem við vorum svo heppin að fá lifandi í fangið eru orðin fimm ára í dag og við sögðum þeim mjög fljótt að þau væru þríburar og ættu englabróður. Þau eru því meðvituð um hann og hann kemur reglulega upp í samræðum. Hann er hluti af systkinahópnum. 32

34 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 33 Alli Það biðu allir spenntir eftir nýja fjölskyldumeðlimnum sem var væntanlegur um jólin. Eftirvæntingin óx dag frá degi hjá eldri systkinunum og við vonuðumst til að geta opnað stærsta pakkann á jóladag. En raunin varð önnur. Ég var gengin tæpar 38 vikur þegar ég skynjaði minni hreyfingar og ræddi það í mæðraeftirliti, en allt virtist eðlilegt. Svo fann ég fyrir auknum samdráttum og var sagt að það væri eðlilegt á þessum tíma meðgöngu að hreyfingar minnkuðu og samdrættir ykjust. Ég tók því rólega en varð mjög óróleg þegar ég fann ekki litlu spörkin lengur og fór beint í skoðun. Við trúðum ekki orðum læknisins um að litla hjartað slægi ekki lengur. Raunveruleikinn var nístandi sár og tilveran hrundi á einu augnabliki. Við vorum eins og í leiðslu er við fórum heim en næsta dag átti að setja fæðingu af stað. Þegar heim var komið var mjög erfitt að þurfa að segja börnunum frá því að litli bróðir þeirra væri dáinn. Við fengum þó strax mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum sem komu heim til okkar um kvöldið. Alli lá þversum og því var vending reynd. Hún tókst ekki og endaði ég því í keisaraskurði. Maðurinn minn fékk að vera hjá mér og óskaði ég eftir að fá að vera vakandi og fá Alla strax í fangið. Það var ótrúleg tilfinning að fá hann í fangið, fá loks að strjúka hann, knúsa og kyssa. Hann var svo fallegur og flottur, líktist stóra bróður sínum á svo margan hátt. Hann var vigtaður og mældur og við fengum fóta- og handafar hans á blað. Hann var strax klæddur í samfellu sem bæði systkini hans höfðu verið í, fékk húfu á höfuðið og við vöfðum hann inn í sæng. Þannig héldu systkini hans á honum þegar þau komu til okkar. Við tókum fullt af myndum sem eru okkur dýrmætar í dag því að þessi tími er eins og í þoku. Vegna keisaraskurðarins varð ég að vera um nóttina á deildinni og þegar kom að því að Alli ætti að fara niður í líkhús fannst okkur það alveg óbærileg tilhugsun. Við fengum því að hafa hann hjá okkur um nóttina og lá hann alla nóttina á milli okkar, vafinn í sængina sína. Sá tími er okkur ómetanlegur og gaf okkur næði til að snerta, gráta, tala og syrgja.

35 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Næstu daga vorum við eins og í leiðslu. Við fengum góða hjálp við að skipuleggja útförina. Við fengum að fara í líkhúsið og sjá Alla næstum því á hverjum degi fram að kistulagningu. Ég klæddi hann í falleg prjónaföt og vafði utan um hann teppi. Hann fékk uppáhaldshálsmenið mitt og armband með nafninu sínu, ljóð og mynd frá systkinum sínum og bréf frá mér í kistuna. Aðalsteinn Ingi var jarðsettur fallegan desemberdag. Margar spurningar leituðu á hugann en af hverju var þó sú algengasta. Síðar fengum við að vita að hann hafi verið heilbrigður og vel skapaður en það virðist hafa orðið fylgjulos án þess að því fylgdu verkir eða blæðing. Það er enginn undirbúinn fyrir svona áfall og höggið af missinum var mjög þungt. Við vorum þó staðráðin í að standa í fæturna og fengum til þess góða hjálp frá fjölskyldu og vinum sem voru alltaf tilbúin til að hlusta. Einnig hjálpaði mikið að fá að deila reynslu sinni með öðrum í stuðningshópnum á Landspítalanum. Andlát Alla er þó ekki eitthvað sem maður sættir sig við heldur lærir að lifa með. Í dag er Aðalsteinn Ingi hluti fjölskyldunnar og er núna líka orðinn stóri bróðir. Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki til Alla og hann mun alltaf vera í hjörtum okkar og huga. 34

36 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG Frá föður Hvernig átti ég að segja frá ótíðindunum? Á tveimur dögum var allt breytt. Sonur okkar fæddist andvana vegna leghálsbilunar sem engin leið var að bregðast við. Nú vorum við á heimleið enda öll líkamleg hætta liðin hjá. Úti var mildur laugardagur í apríl. Ég hafði látið vita á vinnustaðnum með tölvupósti að ég yrði fjarri vinnu einn dag þegar ljóst var að konan mín yrði lögð inn á spítalann til næturdvalar. Nú beið það verkefni að tilkynna fjölskyldu, vinum og vinnufélögum hvað hafði gerst. Það síðasta sem mig langaði að gera á þessari stundu var að hringja og segja tíðindin. Ég hófst handa við að útbúa lista yfir þá sem ég vildi segja tíðindin sjálfur. Því næst hringdi ég í nánustu fjölskyldu en sendi öðrum tölvupóst þar sem ég lýsti atburðum og tók fram að við myndum vera í sambandi þegar við treystum okkur til. Konan mín gerði það sama. Ég tilkynnti sömuleiðis að ég yrði frá vinnu næstu vikuna að lágmarki. Ég fann til mikils léttis þegar þetta var afstaðið. Það er aldrei réttur tími til að segja vondar fréttir. Á spítalanum var okkur boðin aðstoð sjúkrahúsprests og sömuleiðis gefnar upplýsingar um sálfræðiaðstoð eftir að heim væri komið. Aldrei hafði ég látið mér detta til hugar ég myndi nokkru sinni þiggja slíka aðstoð. Ég hafði sannast sagna fremur lítið álit á sálfræðingum og hvað átti prestur að segja til að láta mér líða betur? Nú var samt ekki rétti tíminn til að slá á útrétta hjálparhönd. Ég hafði líka áhyggjur af konunni minni. Þetta var reiðarslag og alls óvíst hvernig hún myndi spjara sig. Sálfræðingurinn sagði seinna að þessar hugsanir væru dæmigerðar. Hvorki sálfræðingurinn né presturinn bjó yfir töfralausn en þeir bentu á leiðir til að fást við hugsanir og spurningar. Hvað gerðum við rangt á meðgöngunni? Hvers vegna syrgi ég öðruvísi en konan mín? Hvenær verður allt eðlilegt aftur? Ég er sáttari í dag en ég hefði þorað að vona og skoðun mín á sálfræðingum og prestum er gjörbreytt. Þeim má líkja við vegvísa. Þeir reyndust mér og konunni minni ómetanlegur leiðarvísir til að koma okkur aftur á réttan kjöl eftir áfallið. 35

37 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU TENGLAR Ef þú vilt afla þér frekari upplýsinga um sorg og sorgarviðbrögð getur þú fengið aðstoð, leiðbeiningar eða ráðgjöf úr ýmsum áttum og stöðum, t.d. hjá eftirtöldum aðilum: sjúkrahúsprestum og djákna á LSH prestum og djáknum í söfnuðum sálfræðingum

38 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG ORÐALISTI Bandvefur Einn af vefjunum sem byggja upp líkamann. Blóðlifrar Ef mikil blæðing á sér stað hleypur blóðið í kekki og myndar blóðlifrar. Fastandi Ef líkur eru á inngripi með svæfingu og aðgerð er sjúklingur beðinn um að vera fastandi, þ.e. að borða hvorki né drekka. Við innleiðslu svæfingar er hætta á að magainnihald fari í öndunarveg og því er 6 klst. fasta æskileg fyrir allar aðgerðir. Framkölluð fæðing Þegar fæðing er sett af stað, t.d. vegna þess að meðganga er komin fram yfir væntanlegan fæðingardag eða vegna veikinda móður eða ófædda barnsins. Keiluskurður Þegar hluti af leghálsi er fjarlægður vegna frumubreytinga eða krabbameins. Krufning Eftir andlát er stundum gerð krufning til að leita skýringa á andláti. Krufning er framkvæmd af meinafræðingi (lækni) og felst í að skoða ytra og innra útlit, sýni eru tekin frá innri líffærum og skoðuð í smásjá. Ýmsar sérrannsóknir geta verið gerðar, eftir atvikum. Litningar (litningarannsókn) Flest höfum við 23 litningapör, þ.e. 46 litninga, auk kynlitninga. Konur hafa tvo X-litninga en karlar einn X-litning og einn Y- litning.til eru ýmis frávik í fjölda litninga, t.d. að um aukaeintak sé að ræða eða brottfall á litningi. Það getur valdið fósturláti eða síðar sjúkdómum hjá fóstri/ barni sem eru misalvarlegir. 37

39 AÐ MISSA EFTIR 22. VIKU MEÐGÖNGU Mótefnamyndun Líkaminn myndar mótefni sem svar við óþekktu efni í líkamanum, bæði bakteríum og veirum, og veitir okkur þannig vörn. Þegar móðir myndar mótefni (immonuglóbulín) sem fara yfir fylgju geta mótefnin haft áhrif á fóstur. Oftast er um að ræða mótefni gegn rauðum blóðkornum fósturs. Þekktust eru rhesus-mótefni þegar blóðflokkur móður er negatífur en blóðflokkur föður og barns er pósitífur. Við þessar aðstæður geta mótefni móður valdið rauðkornarofi og blóðleysi fósturs. Sköpulagsgalli Er þegar líffæri myndast ekki eðlilega. Útskaf Í kjölfar fósturláts eða fæðingar þarf stundum að gera útskaf frá legi til að losa fylgju eða fylgjuvef frá leginu. 38

40 ÞEGAR GLEÐIN BREYTIST Í SORG 39 Heimildir Biering, B. (1991). Að missa barnið sitt. Landspítalinn (endurskoðaður árið 2000). Cacciatore, J. (2012). Psychological effects of stillbirth. Seminars in Fetal & Neonatal Medicine. Kavanaugh, K. og Robertson, P.A. (1998). Supporting Parents during and after a Pregnancy Subsequent to a Perinatal Loss. The Journal of Perinatal and Neonatal Nursing/September Kofød, E. og Løvendahl, D. Vis at du ved det! - guide til omsorgsfuld kommunikation. Landsforeningen til støtte ved spædbarnsdød. Landsforeningen til støtte ved spædbarnsdød. Små fødder sætter også spor. Landsforeningen til støtte ved spædbarnsdød. Om provokeret fødsel. Landsforeningen til støtte ved spædbarnsdød. Når et spædbarn dør. Landspítali. (2011). Sálgæsla presta og djákna. Nelson, T. (2004). A guide for fathers when a baby dies. A place to remember. Royal College of Obstetricians and Gynaecologists. (2012). Information for you, when your baby dies before birth. Sands. (2005). From us to you. When your baby has died for parents who experience the death of their baby from causes relating to stillbirth or neonatal death (endurskoðaður árið 2009). Svenberg, G. (2007). En hjelp til deg som har mistet barn. Foreningen Vi som har et barn for lite. O Leary, J., Parker, L. og Warland, J. (2011). Bereaved Parents Perception of the Grandparents Reaction to Perinatal Loss and the Pregnancy That Follows. Journal of Family Nursing, Sage Publications.

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser

Sådan er jeg. Spil og leg 14 Følelser Spil og leg 14 Læsebog side 40 41 Opgavebog side 68 Tegund: Samtalsæfing Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða sem snýr að tilfinningum, persónueinkennum og útliti. Undirbúningur: Prenta út opgaveblad

Læs mere

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger LIVSSTIL. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða: tengdan lífsstíl um neyslu ungs fólks á Norðurlöndum um ofnotkun á hreinlætisvörum og orku Hugmyndir að kveikju: Umræður um neyslu ungs fólks í dag. Fjallað um myndina

Læs mere

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g

Fylgiseðill. Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Fylgiseðill Upplýsingar um Ultracortenol augnsmyrsli 5 mg/g Lesið fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. - Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar. - Leitið til

Læs mere

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans? Hanna Skúladóttir Kennaraháskóli Íslands Grunnskólabraut Apríl 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Sorg barna Hvert er hlutverk skólans?

Læs mere

Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir

Börn og sorg. Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar. Ragnheiður Guðjónsdóttir Börn og sorg Fræðsla um lífið og dauðann í leikskólum og gagnsemi hennar Ragnheiður Guðjónsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið

Læs mere

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Opgavebog. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Opgavebog Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 OPGAVE 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 OPGAVE 1B - HVAD ER MINE

Læs mere

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir:

6.5.2 Útgáfa 1.2 Dags Frágangur handlista. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun. Í grein í byggingarreglugerð segir: . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014, 360/2016 og 666/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Frágangur handlista Í grein í byggingarreglugerð segir: Handlistar

Læs mere

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du?

Kennslulei⅟beiningar. Jeg hedder Ida. Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Kennslulei⅟beiningar Jeg hedder Ida Hej, jeg hedder Line, hvad hedder du? Höfundur: Katrín Hallgrímsdóttir 2 Opgave Oversigt OPGAVE OVERSIGT 3 OPGAVE DEL 1 5 VERKEFNI 1A AT MØDE NYE PERSONER 5 VERKEFNI

Læs mere

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla.

Talæfingar með. Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Tænk Talæfingar með Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir Yfirlestur og ráðgjöf: Astrid Juul Poulsen

Læs mere

Kökur, Flekar,Lengjur

Kökur, Flekar,Lengjur Kökur, Flekar,Lengjur Qimiq vörurnar eru unnar úr úrvals Austurísku hráefni. Q003301 Qimiq Profi Whip 1 kg (12) Q000114 Qimiq Base 1 kg (12) Q000115 Qimiq Sauce base 1 kg (12) Qimiq Whip Notið QimiQ Whip

Læs mere

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN

05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ - EINSTAKLINGSÁÆTLUN EFNISYFIRLIT 03 / INNGANGUR 04 / EFNI HANDBÓKAR 05 / MÁLTAKA ANNARS TUNGUMÁLS 08 / MATSAÐFERÐIR 10 / HVAÐ - HVERNIG 11 / MÓDEL 14 / FJÓRAR AÐFERÐIR SEM NOTA MÁ TIL AÐ SAFNA GÖGNUM 16 / LISTAR - SKRÁNINGARBLAÐ

Læs mere

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými.

Gólfhitagrind FHF. Hægt er að stýra hverjum loka með vaxmótorum, sem síðan er stjórnað af hitastilli í viðkomandi rými. Notkun FHF gólfhitagrindin er notuð til að stjórna vatnsrennsli í gólfhitakerfum. Hvert rör í kerfinu er tengt gólfhitagrindinni sem gerir kleift að stjórna vatnsrennsli í hverri rás og hita í hverju rými

Læs mere

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO MÁLNOTKUNARÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur. Nikótín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur. Nikótín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Nicotinell Mint 1 mg, munnsogstöflur Nikótín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar. Alltaf

Læs mere

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám.

Námsstíll. Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Námsstíll Læra að læra Læra með stíl Kynning á námsstílslíkani Dunn og Dunn fyrir nemendur, foreldra, kennara og alla þá sem aðstoða börn við nám. Öll getum við lært séu okkur búin skilyrði til þess en

Læs mere

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók

Leiðbeiningar ein einföld byrjun á orkuvinnunni bók Tilllaga að leiðbeiningum og verkfærum til hjálpar Hvað þarf að koma fram í leiðbeiningunum? 1. Hvað er orkustjórnun? 2. Hvernig setjum við okkur orkustefnu og markmið? 3. Hvernig á að skipuleggja orkuvinnuna?

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur. Nikótín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur. Nikótín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Nicotinell Mint 2 mg, munnsogstöflur Nikótín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar. Alltaf

Læs mere

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

START. Spil og leg. Start Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 START Spil og leg 1 Spil og leg 1 Hvem er jeg? Hvad hedder du? Læsebog side 3 Opgavebog side Tegund: Samtals- og hreyfileikur Form: Hópleikur Markmið: Að læra að kynna sig. Undirbúningur: Finna bolta eða

Læs mere

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt

ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt ÖLL BÖRN LÆRA en ekki jafnhratt Anna Jørgensen, Zahle Seminarium, København Anna Kristjánsdóttir þýddi í apríl 2002 fyrir vefsetrið Stærðfræðin hrífur Greinin birtist fyrst í danska tímaritinu Matematik

Læs mere

- kennaraleiðbeiningar

- kennaraleiðbeiningar - kennaraleiðbeiningar María Una Óladóttir Kennsluleiðbeiningar með kennsluefninu ord til at starte med! Verkefni 1 - Að nemendur læri að kynna sig og fjölskyldumeðlimi. Nemendur teikna í rammann eða koma

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur. ondansetrón

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur. ondansetrón Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Zofran 4 mg filmuhúðaðar töflur Zofran 8 mg filmuhúðaðar töflur ondansetrón Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru

Læs mere

komudagur 21-1- 2 0 f2

komudagur 21-1- 2 0 f2 7W O s s u e i k (. íé T ) Erindim Þ M /lo O S komudagur 21-1- 2 0 f2 MINNISBLAÐ TIL EFNAHAGS- OG VIÐSKIPTANEFNDAR -tilla g a að nýrri 9. mgr. 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, með síðari

Læs mere

Æfingar og ráð til að takast á við streitu

Æfingar og ráð til að takast á við streitu STÚDENTAÞJÓNUSTA HR STR EI Æfingar og ráð til að takast á við streitu TA 1 Nánari upplýsingar um stúdentaþjónustu HR: hr.is/studentathjonusta Bæklingur þessi heitir á frummálinu Stress. Útgefandi: Studenterrådgivningen,

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Fruit/Lakrids/Mint, lyfjatyggigúmmí 2 mg og 4 mg. Nikótín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Nicotinell Fruit/Lakrids/Mint, lyfjatyggigúmmí 2 mg og 4 mg. Nikótín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Nicotinell Fruit/Lakrids/Mint, lyfjatyggigúmmí 2 mg og 4 mg Nikótín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar

Læs mere

Dyrebingo. Önnur útfærsla

Dyrebingo. Önnur útfærsla Opgaveblad 2A Opgaveblad 2C Dyr i Danmarks natur Læsebog side 10 11 Opgavebog side 19 Tegund: Bingó með myndaspjöldum Form: Hópleikur Markmið: Að þjálfa orðaforða tengdan dýrum. Undirbúningur: Prenta út

Læs mere

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO. Samtaleøvelser NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO SAMTALSÆFINGAR Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Teikningar: Böðvar Leós Ritstjórn: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Útlit og umbrot: NÁMSGAGNASTOFNUN Námsgagnastofnun

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Famvir 125 mg og 500 mg filmuhúðaðar töflur. famciclovir

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Famvir 125 mg og 500 mg filmuhúðaðar töflur. famciclovir Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Famvir 125 mg og 500 mg filmuhúðaðar töflur famciclovir Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Myfortic 180 mg og 360 mg magasýruþolnar töflur. Mycofenolsýra (sem natríummycofenolat)

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Myfortic 180 mg og 360 mg magasýruþolnar töflur. Mycofenolsýra (sem natríummycofenolat) Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Myfortic 180 mg og 360 mg magasýruþolnar töflur Mycofenolsýra (sem natríummycofenolat) Lesið fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum

Læs mere

2. Dig, mig og vi to

2. Dig, mig og vi to 2. Dig, mig og vi to Í þemanu er fjallað um fjölskylduna vini samskipti Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. 1. Umræður um teiknimyndina á fremstu blaðsíðu í þemanu. 2. Orðablóm

Læs mere

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942

SMART. Spil og leg. Smart Spil og leg Námsgagnastofnun 2011 9942 SMART Spil og leg 1 Spil og leg 1 Tallene Tæl til hundrede Læsebog side 7 Opgavebog side 11 Tegund: Hermileikur Form: Hópleikur Markmið: Hlusta og einbeita sér. Að æfa tugina. Undirbúningur: 1. Nemendur

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Síprox 250 mg filmuhúðaðar töflur. cíprófloxacín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Síprox 250 mg filmuhúðaðar töflur. cíprófloxacín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Síprox 250 mg filmuhúðaðar töflur cíprófloxacín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að taka lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar. -

Læs mere

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003.

AUGLÝSING. um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu 2003. 545 AUGLÝSING um samning við Grænland/Danmörku um gagnkvæmar veiðar á úthafskarfa í fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á árinu. Hinn 30. apríl og 1. maí var með bréfaskiptum í Reykjavík og Nuuk gengið

Læs mere

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt

BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Útgáfa: 04 Dags: 03012018 Höfundur: IJ Samþykkt: Síða 1 af 4 BORGARHOLTSSKÓLI bókmennt handmennt - siðmennt Dan 2A05 Námsáætlun, vorönn 2018 Kennari: Inga Jóhannsdóttir Netfang: ij@bhsis Lýsing: Í áfanganum

Læs mere

esurveyspro.com - Survey Detail Report

esurveyspro.com - Survey Detail Report Page 1 of 5 Kommuner: Miljøledelse ved bygning af veje og gader i de nordiske lande Respondent Type: Customer Custom Data 1: Name: Anna Rósa Custom Data 2: Email address: anna.r.bodvarsdottir@reykjavik.is

Læs mere

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir.

Áður en farið er að vinna með kaflann er mælt með að tölurnar verði rifjaðar upp þar sem tölur koma við sögu í umfjöllun um t.d. verð og stærðir. Tøj og tilbehør Í þemanu er fjallað um: mismunandi tegundir af fötum og fylgihlutum. hvað er í snyrtitöskunni. föt og tísku frá mismunandi tímabilum. stuttar fréttir og staðreyndir sem tengjast fötum.

Læs mere

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni.

Snak med din makker Nauðsynlegt er að nemendur læri litina utan að og noti síðan samtalsæfinguna til að festa þá i minni. Tøj og farver Í þemanu er fjallað um: Föt, liti og fylgihluti. Markmið er að nemendur: læri helstu liti. læri grunnorðaforða um föt. skilji þegar talað er um föt og liti á dönsku á einfaldan hátt. geti

Læs mere

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns

Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns BA ritgerð í lögfræði Inntak sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 Ákvörðunartaka um málefni barns Hulda Magnúsdóttir Leiðbeinandi: Elísabet Gísladóttir Desember 2013 BA ritgerð

Læs mere

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt.

AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO. Kontrolafgift på 750 kr. grundet manglende zoner, da hun kørte for langt. AFGØRELSE FRA ANKENÆVNET FOR BUS, TOG OG METRO Journalnummer: 2016-0177 Klageren: XX Island Indklagede: Metroselskabet I/S v/metro Service A/S CVRnummer: 21 26 38 34 Klagen vedrører: Parternes krav: Kontrolafgift

Læs mere

Siemens Børnerådg. ISLAND /5/03 10:28 PM Side 1. Heyrir. þú í. Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna. ...vinum þínum?

Siemens Børnerådg. ISLAND /5/03 10:28 PM Side 1. Heyrir. þú í. Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna. ...vinum þínum? Siemens Børnerådg. ISLAND 91558 11/5/03 10:28 PM Side 1 Heyrir þú í Leiðbeiningar fyrir foreldra heyrnarskertra barna....vinum þínum? www.rexton.dk Siemens Børnerådg. ISLAND 91558 11/5/03 10:29 PM Side

Læs mere

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr.

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Gangar og anddyri Í grein í byggingarreglugerð segir: Meginreglur: Eftirfarandi

Læs mere

FYLGISEÐILL: UPPLÝSINGAR FYRIR NOTANDA LYFSINS. Nicotinell forðaplástur. Nikótín 7 mg/24 klst., 14 mg/24 klst. og 21 mg/24 klst.

FYLGISEÐILL: UPPLÝSINGAR FYRIR NOTANDA LYFSINS. Nicotinell forðaplástur. Nikótín 7 mg/24 klst., 14 mg/24 klst. og 21 mg/24 klst. FYLGISEÐILL: UPPLÝSINGAR FYRIR NOTANDA LYFSINS Nicotinell forðaplástur Nikótín 7 mg/24 klst., 14 mg/24 klst. og 21 mg/24 klst. Lesið allan fylgiseðilinn vandlega þar sem hann veitir mikilvægar upplýsingar

Læs mere

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál]

Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] Nd. 230. Frumvarp til laga [127. mál] um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um félagslegt öryggi. (Lagt

Læs mere

Baráttan við MNDsjúkdóminn

Baráttan við MNDsjúkdóminn Helst errið sem kemur upp um okkur Christina Kjeldsen og Simon Björn eru þjónar Votta Jehóva á norðanverðum Vestfjörðum með aðsetur á Íslandi. Við fáum ekkert borgað fyrir að vera Vottar. En við vinnum

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Metoprololsuccinat Hexal 25 mg forðatöflur Metoprololsuccinat Hexal 50 mg forðatöflur Metoprololsuccinat Hexal 100 mg forðatöflur Metoprololsuccinat Hexal

Læs mere

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver

Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska. Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska Oversættelse af Naja Marie Aidts Som englene flyver Ritgerð til BA-prófs í dönsku Hafrún Elma Símonardóttir Kt.: 260779-3709 Leiðbeinandi: Þórhildur Oddsdóttir Maí

Læs mere

Jöfn umgengni í framkvæmd

Jöfn umgengni í framkvæmd Jöfn umgengni í framkvæmd Helga Sigmundsdóttir Hrefna Friðriksdóttir Lagadeild Ritstjóri: Kristín Benediktsdóttir Rannsóknir í félagsvísindum XIV. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2013 Reykjavík: Félagsvísindastofnun

Læs mere

BA ritgerð. Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum

BA ritgerð. Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum BA ritgerð Félagsráðgjöf Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða hjá öldruðum Hrafnhildur Björg Gunnlaugsdóttir Sigurveig H. Sigurðardóttir Sigrún Ingvarsdóttir Janúar 2016 Birtingarmyndir þunglyndis og kvíða

Læs mere

EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850

EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 EKKO AUKAÆFINGAR NÁMSGAGNASTOFNUN 09850 Efnisyfirlit SKOLELIV Læsebogen side 13: Tænk bare Elefantisk.. 3 Læsebogen side15: Motion er mange ting... 4 Læsebogen side 17: Tænk bare... 5 Læsebogen side 24

Læs mere

Jökulsárlón og hvað svo?

Jökulsárlón og hvað svo? Jökulsárlón og hvað svo? Jökulsárlón á Breiðamerkursandi mikilvægt kennileiti í Íslenskri ferðaþjónustu meðal fjölsóttustu ferðamannastaða á Íslandi Þjónustusvæði - deiliskipulag staðfest í ágúst 2013

Læs mere

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Efnisyfirlit Til kennara................................. 3 Uppbygging efnisins............................ 3 Markmið..................................

Læs mere

Indlægsseddel: Information til brugeren Carbocain -Adrenalin 5 mg/ml, 10 mg/ml og 20 mg/ml + 5 μg/ml, injektionsvæske, opløsning

Indlægsseddel: Information til brugeren Carbocain -Adrenalin 5 mg/ml, 10 mg/ml og 20 mg/ml + 5 μg/ml, injektionsvæske, opløsning Indlægsseddel: rmation til brugeren Carbocain -Adrenalin 5 mg/ml, 10 mg/ml og 20 mg/ml + 5 μg/ml, injektionsvæske, opløsning mepivacainhydrochlorid og adrenalin Læs denne indlægsseddel grundigt, inden

Læs mere

Þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndum og reynsla þjóðanna

Þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndum og reynsla þjóðanna Þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndum og reynsla þjóðanna Fríða Rós Valdimarsdóttir Jafnréttisstofa Borgum 600 Akureyri tel: 460 6200 fax: 460 6201 email: jafnretti@jafnretti.is www.jafnretti.is

Læs mere

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0)

The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) NAME 1.0 Handbók The Nordic Assisted Mobility Evaluation (NAME 1.0) Åse Brandt Charlotte Löfqvist John Nilsson Kersti Samuelsson Tuula Hurnasti Inga Jónsdóttir Anna-Liisa Salminen Terje Sund Susanne Iwarsson

Læs mere

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti

Dómaraheimild. Rök með og á móti. Heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Dómaraheimild Heimild til að dæma sameiginlega forsjá Rök með og á móti Lúðvík Börkur Jónsson Formaður Félags um foreldrajafnrétti Maí 2008 Efnisatriði 1. Inngangur... 2 2. Nefndarálit allsherjarnefndar

Læs mere

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur

Jeg elsker Danmark. Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Jeg elsker Danmark Í þemanu er fjallað um: Danmörku og danska menningu athyglisverða staði í Danmörku þjóðsögur og ferðalög almenningssamgöngur Markmiðið er að nemendur: fræðist um Danmörku og danska menningu.

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Desmópressín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Desmópressín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins MINIRIN frostþurrkaðar töflur, 60 míkróg, 120 míkróg eða 240 míkróg Desmópressín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Desmópressínasetat

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Desmópressínasetat Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins MINIRIN nefúði, lausn 10 míkróg/skammti Desmópressínasetat Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

Læs mere

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ

ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ ÞRÓUN RÉTTARREGLNA UM SAMEIGINLEGA FORSJÁ Karen Björnsdóttir 16. maí 2014 BA í lögfræði Höfundur: Karen Björnsdóttir Kennitala: 050989-2409 Leiðbeinandi: Heiða Björg Pálmadóttir Lagadeild School of Law

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar

Kennsluleiðbeiningar Tænk Kennsluleiðbeiningar Námsefni í dönsku fyrir unglingastig grunnskóla. Höfundar: Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen Ritstjóri: Ellen Klara Eyjólfsdóttir Yfirlestur: Astrid Juul Poulsen NÁMSGAGNASTOFNUN

Læs mere

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku

Samband íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga leið til virkrar samfélagsþátttöku Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 Pósthólf 8100 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir

Læs mere

4. Konfirmation. Konfirmation. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að Kveikju. Til minnis

4. Konfirmation. Konfirmation. Í þemanu er fjallað um. Hugmyndir að Kveikju. Til minnis 4. Konfirmation Í þemanu er fjallað um Hefðir tengdar fermingum í Danmörku Fermingarveislur Blå mandag Hugmyndir að Kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Kennari spyr nemendur: Hvorfor bliver

Læs mere

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni.

Commissions Papiirer til Jnstr. 7 de Post. Jndkom d. 20 de Martii 1771. 1 Þorgrímur Þorláksson, múrarameistari Elliðavatni. Bréf Bjarna Pálssonar landlæknis til Landsnefnarinnar fyrri um meðöl gegn fjárpestinni, 14.03.1771. Lit. GG. ÞÍ. Skjalasafn rentukammers. B4/1, örk 22. (Ind. Ref. 2. Nor. B. nr. 391) Commissions Papiirer

Læs mere

Kennsluleiðbeiningar A B

Kennsluleiðbeiningar A B Kennsluleiðbeiningar A B TAK KENNSLULEIÐBEININGAR A B 4 Efnisyfirlit Til kennara Almennt um námsefnið... 5 Nemendabók... 5 Verkefnabækur... 6 OPGAVEBOG A 1 Hjemmet Tak tak tak... 8 Boligen... 9 Hvordan

Læs mere

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører

Min krop. Se mit ansigt / Jeg hører med mine ører Min krop Í þemanu er fjallað um: Andlitið og skynfærin Líkamann Ýmsar daglegar athafnir tengdar líkamanum og skynfærunum. Ýmsa algenga kvilla eins og kvef og hálsbólgu. Markmið er að nemendur: Læri helstu

Læs mere

Verndarblaðið. Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015

Verndarblaðið. Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015 Verndarblaðið Um afbrot, fanga og fangelsismál 43. árg. 2015 Stuðningsfélagi eftir afplánun Fangar með þroskahömlun Gamlir menn í fangelsi Raddir fanga Íslenskar fangelsisbókmenntir Fagnaðarefni Verndarblaðið

Læs mere

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018

FYR LØS. TAK Skapandi verkefni B 8570 Menntamálastofnun 2018 B FYR LØS TAK FYR LØS B Efnisyfirlit 5 Fra barn til voksen Fyr løs 1 Mobilløb... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Den øde ø... 6 Opgaveblad 2 6 Vi er alle forskellige Fyr løs 3 Hvilken person mangler der på billedet?...

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. HUMULIN NPH (ísófan) KwikPen 100 a.e./ml stungulyf, dreifa í áfylltum lyfjapenna Mannainsúlín

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. HUMULIN NPH (ísófan) KwikPen 100 a.e./ml stungulyf, dreifa í áfylltum lyfjapenna Mannainsúlín Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins HUMULIN NPH (ísófan) KwikPen 100 a.e./ml stungulyf, dreifa í áfylltum lyfjapenna Mannainsúlín Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota

Læs mere

Forskellige oversættelser af Den grimme ælling

Forskellige oversættelser af Den grimme ælling Háskóli Íslands Hugvísindasvið Danska Forskellige oversættelser af Den grimme ælling Ritgerð til BA-prófs í dönsku Anna Margrét Wernersdóttir Kt.: 210860-5769 Leiðbeinandi: Þórhildur Oddsdóttir September

Læs mere

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað

Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Aðferðir til að taka á einelti og koma í veg fyrir að það þrífist á vinnustað Efni Einelti 3 Yfirlit 4 Hvað er einelti? 4 Aðferðir 6 Hvernig má greina einelti? 6 Hvernig veit yfirmaður að einelti sé til

Læs mere

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018

A FYR LØS TAK Skapandi verkefni A 8529 Menntamálastofnun 2018 A FYR LØS TAK FYR LØS A Efnisyfirlit 1 Hjemmet Fyr løs 1 Bingo... 5 Opgaveblad 1 Fyr løs 2 Nævn to ting i hjemmet.. 6 Opgaveblad 2 Fyr løs 3 Se mit værelse... 7 Opgaveblad 3 2 Familien Fyr løs 4 Monas

Læs mere

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Seroquel Prolong 50 mg, 150 mg, 200 mg, 300 mg, 400 mg forðatöflur. quetiapin

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins. Seroquel Prolong 50 mg, 150 mg, 200 mg, 300 mg, 400 mg forðatöflur. quetiapin Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins Seroquel Prolong 50 mg, 150 mg, 200 mg, 300 mg, 400 mg forðatöflur quetiapin Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru

Læs mere

Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu

Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu Úr sögu innrennslislyfja á Íslandi með ívafi eigin minninga og brotlegrar minjavörslu Þorkell Jóhannesson dr.thorkell@simnet.is Höfundur er læknir, prófessor úr embætti. Stungulyf Innrennslislyf: Skilgreiningar

Læs mere

Sjálfsprottinn söngur barna

Sjálfsprottinn söngur barna Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík Grunndeild Leikskólabraut fjarnám 2007 Sjálfsprottinn söngur barna Elisabeth Hauge Lokaverkefni til 90 eininga B.Ed.-prófs Leiðsögukennari: Sigríður Pálmadóttir Efnisyfirlit

Læs mere

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar

Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Stefnan sett! Um náms- og starfsval Kennsluleiðbeiningar Efnisyfirlit Til kennara................................. 3 Uppbygging efnisins............................ 3 Markmið..................................

Læs mere

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis

3. Hjemmet. Hjemmet. Í þemanu er m.a. fjallað um. Hugmyndir að kveikju. Til minnis 3. Hjemmet Í þemanu er m.a. fjallað um Helstu tegundir húsnæðis. Húsgögn, húsbúnað og annað sem tilheyrir heimili. Framtíðarheimilið. Hugmyndir að kveikju Æskilegt er að umræður fari fram á dönsku. Ræða

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 1 2 3 Til kennara....3 Almennt

Læs mere

glimrende lærervejledninger

glimrende lærervejledninger Arnbjörg Eiðsdóttir Kristín Jóhannesdóttir glimrende lærervejledninger Kennsluleiðbeiningar með Glimrende, Glimrende opgaver og hlustunarefni, ásamt svörum við verkefnum í vinnubók Efnisyfirlit Glimrende

Læs mere

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005

Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar. Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Málþing í minningu Björns Guðfinnssonar Sjálfs mín (s) sök? Eiríkur Rögnvaldsson, 29. október 2005 Rétt eða rangt? Sjálfs mín sök Spurt er hvort réttara sé að segja sjálfs sín eða sjálfs síns. Ég tel að

Læs mere

Sjúkdómaskráning í svínasláturhúsum. Orsakir einkenna og sjúkdómalyklar. Handbók

Sjúkdómaskráning í svínasláturhúsum. Orsakir einkenna og sjúkdómalyklar. Handbók Sjúkdómaskráning í svínasláturhúsum. Orsakir einkenna og sjúkdómalyklar. Handbók Unnið og staðfært úr dönsku kjötmati af dýralækni svínasjúkdóma. Febrúar 2003. Yfirlit sjúkdómalyklar - skráningarnúmer

Læs mere

LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET

LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET HI NLS 2013 1 LÆREREN, SKOLEN OG DEN PROFESSIONELLE KAPACITET Hafdís Ingvarsdóttir Islands Universitet NLS, Nyborg okt. 2013 HI NLS 2013 2 Den nordiske skole Fælles principper for den nordiske skole: Demokrati,

Læs mere

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014

SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS. SMIL Skapandi verkefni B 9053 Námsgagnastofnun 2014 SMIL SKAPANDI VERKEFNI ~ FYR LØS B I B SMIL Skapandi verkefni ~ Fyr løs Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig NÁMSGAGNASTOFNUN 9053 Efnisyfirlit Smil Verkefnabók

Læs mere

Greinargerð Trausti Jónsson. Langtímasveiflur III. Sjávarhiti

Greinargerð Trausti Jónsson. Langtímasveiflur III. Sjávarhiti Greinargerð 1 Trausti Jónsson Langtímasveiflur III Sjávarhiti VÍ-ÚR1 Reykjavík Mars Sjávarhitamælingar í gögnum Veðurstofunnar Inngangur Í gagnasafni Veðurstofunnar er talsvert til af sjávarhitamælingum.

Læs mere

Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar

Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar Persónukjör við sveitarstjórnarkosningar Magnús Karel Hannesson Aðalfundur SASS 16. október 2009 Höfn í Hornafirði SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA Samband Samband íslenskra íslenskra sveitarfélaga sveitarfélaga

Læs mere

Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1

Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1 Listi yfir aðföng til málmsmíða Fylgiskjal 1 Efnisyfirlit Messing, nýsilfur, kopar, ál...3 Silfur...3 Blý...3 Tinklumpar...3 Tinþráður...4 Suðuteinar...4 Rör...4 Silfurslaglóð...4 Flúx...5 Teinar...5 Slípimassi,

Læs mere

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum

Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Spilastokkurinn - hugmyndabanki fyrir kennara hvernig kenna má stærðfræði með spilum Sigrún Helga Kristjánsdóttir og Valdís Ingimarsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari:

Læs mere

forbindelse med både ansættelse, ændring i ansættelsesforhold og ved afslutning af ansættelsen.

forbindelse med både ansættelse, ændring i ansættelsesforhold og ved afslutning af ansættelsen. Retningslinie Uppgávu- og ábyrgdarbýtið ímillum og eindir/leiðarar á LS, tá ið byrjar í starvi, broytir starv innanhýsis ella fer úr starvi / Opgave og ansvarsfordeling mellem medarbejdere og afdelinger

Læs mere

Steinunn Camilla. Við erum allar flottar í réttu sniði! ÚTIVIST. á sér ótal áhugamál. Útilega með stæl! Hrönn Friðriksdóttir. Gróa Ásgeirsdóttir

Steinunn Camilla. Við erum allar flottar í réttu sniði! ÚTIVIST. á sér ótal áhugamál. Útilega með stæl! Hrönn Friðriksdóttir. Gróa Ásgeirsdóttir Útilega með stæl! FRÍTT EINTAK / JÚNÍ 2008 Við erum allar flottar í réttu sniði! Hrönn Friðriksdóttir spámiðill leiðir og kennir andlega þenkjandi fólki Gróa Ásgeirsdóttir nýtti erfiða reynslu á jákvæðan

Læs mere

FYLGISEÐILL. FOMEPIZOLE EUSA Pharma 5 mg/ml, innrennslisþykkni, lausn. Fomepízól (sem súlfat).

FYLGISEÐILL. FOMEPIZOLE EUSA Pharma 5 mg/ml, innrennslisþykkni, lausn. Fomepízól (sem súlfat). FYLGISEÐILL FOMEPIZOLE EUSA Pharma 5 mg/ml, innrennslisþykkni, lausn. Fomepízól (sem súlfat). Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. - Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur

Læs mere

Kárahnjúkavirkjun. Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið Unnið fyrir Landsvirkjun. Gerður Guðmundsdóttir

Kárahnjúkavirkjun. Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið Unnið fyrir Landsvirkjun. Gerður Guðmundsdóttir LV-2009/003 Kárahnjúkavirkjun Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði sumarið 2008 Janúar 2009 Kárahnjúkavirkjun Fallryksmælingar á Brúaröræfum, við Hálslón og á Fljótsdalshéraði

Læs mere

Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög

Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög Reglur um skráningu mála og skjala afhendingarskyldra aðila Drög 1. gr. Gildissvið. Reglur þessar gilda um afhendingarskylda aðila sem falla undir 1. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Læs mere

Nýtt. 11 umsóknir. Nýir stjórnendur í GSS. Kaffi, konfekt og klarinettur. Hvorfor leger lærere ikke gemmeleg? Fordi ingen ville lede efter dem.

Nýtt. 11 umsóknir. Nýir stjórnendur í GSS. Kaffi, konfekt og klarinettur. Hvorfor leger lærere ikke gemmeleg? Fordi ingen ville lede efter dem. Veffang: www.snaefellingar.is Netfang: frettir snaefellingar.is SÉRRIT - 28. tbl. 23. árg. 11. ágúst 2016 Stykkishólms - Póstinum er dreift ókeypis í Stykkishólmi og Helgafellssveit og liggur frammi í

Læs mere

Áfangaskýrsla til dómsmálaráðherra

Áfangaskýrsla til dómsmálaráðherra . Forsjárnefnd Dögg Pálsdóttir Oddný Vilhjálmsdóttir Ólafur Þ. Stephensen Áfangaskýrsla til dómsmálaráðherra.......... Júní 1999 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 1 Inngangur... 3 Samningur Sameinuðu þjóðanna

Læs mere

E"irgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl Fyrir þig Il fróðleiks

Eirgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl Fyrir þig Il fróðleiks E"irgjöf skulda og ýmis álitamál því tengd námskeið hjá FEL 6. apríl, 2009, kl. 13-16 Fyrir þig Il fróðleiks Ásmundur G. Vilhjálmsson SkaOalögfræðingur Inngangur Við e"irgjöf kröfu þarf skuldari ekki að

Læs mere

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014

SMIL KENNSLU- LEIÐBEININGAR. SMIL Kennsluleiðbeiningar B 9050 Námsgagnastofnun 2014 SMIL b KENNSLU- LEIÐBEININGAR I SMIL kennsluleiðbeiningar Smil til verden og verden smiler til dig Smil til verden og verden smiler til dig b NÁMSGAGNASTOFNUN 9050 Efnisyfirlit 5 Jagten på berømmelse...

Læs mere

Flókatóftir á Barðaströnd Rannsóknir 2004 og 2012

Flókatóftir á Barðaströnd Rannsóknir 2004 og 2012 Höfundar Ljósmynd á forsíðu Horft yfir uppgraftarsvæðið. Öll réttindi áskilin ISBN 978-9935-9090-7-7 Minjastofnun Ísland Suðurgata 39 101 Reykjavík Iceland (354) 570 13 00 postur@minjastofnun.is www.minjastofnun.is

Læs mere

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk.

U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. U n d e r v i s n i n g s p l a n i d a n s k 2 0 3 Gem denne plan! Her er mange nyttige oplysninger til dig om dit studie i dansk. Lærer: Jette Dige Pedersen Undervisningsmateriale: 1. Danmarks mosaik

Læs mere

Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra. 1. Viðfangsefnið

Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra. 1. Viðfangsefnið . Um nýtingu fiskistofna og töku gjalds fyrir nýtingu þeirra 1. Viðfangsefnið Með munnlegri beiðni í október 1998 fór auðlindanefnd, sem kjörin var á Alþingi 5. júní 1998 í framhaldi af þingsályktun frá

Læs mere

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju:

Lærervejledninger SPIS DIG GLAD. Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku. Hugmyndir að kveikju: Í þemanu er m.a. unnið með orðaforða sem tengist mat og matarvenjum í Danmörku Hugmyndir að kveikju: Umræða um myndina í lesbókinni bls. 30 fremst í þemanu. Umræður: Hvem ved noget om dansk mad? Hvad kender

Læs mere

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?...

Efnisyfirlit. Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar Yfirlit Málverk segir sögu Var Ísland eitthvað einkennilegt?... Efnisyfirlit Um nemendabókina og kennsluleiðbeiningarnar..................... 2 Yfirlit........................................................ 7 Málverk segir sögu.............................................

Læs mere

GRAMMATIK 1. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla

GRAMMATIK 1. Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla Kristín Jóhannesdóttir Arnbjörg Eiðsdóttir 1 Verkefni í danskri málfræði fyrir grunnskóla 1. útgáfa 2005 2. útgáfa 2006 Búið að laga villur í verkefnum 3a, 3b, 4, 10, 24, 32, 42, 43 og 44 6276 Ritstjóri:

Læs mere